Ingi segir ósanngjarna skiptingu geta grafið undan rekstrinum.
Ingi segir ósanngjarna skiptingu geta grafið undan rekstrinum. — Morgunblaðið/Þórður
Ásgeir Ingvarsson ai@mbl.is Frumkvöðlum getur verið vandi á höndum þegar kemur að því að skipta eignarhaldinu í nýju sprotafyrirtæki. Hversu margra prósenta virði er það að eiga hugmyndina, leggja til sérfræðivinnu, fjármagn eða sambönd?

Frumkvöðlar læra snemma að eitt af því fyrsta sem þarf að gera við stofnun nýs sprotafyrirtækis er að gera hluthafasamkomulag.

Þar sammælast meðstofnendur um skyldur sínar og framlag til verksins og deila eignarhaldinu á milli sín.

En hve mikið á hver þeirra að fá í sinn hlut? Hvernig ætti fyrirtækið að skiptast á milli t.d. hugmyndasmiðs og forritara? Hverju breytir það um skiptinguna ef annar leggur fram pening en hinn fram vinnu, sambönd eða sérfræðiþekkingu?

Ingi Jarl Sigurvaldason er ráðgjafi hjá ENTRA og segir hann þessari spurningu ekki auðsvarað. Hann segir að sanngirni ætti að vera forsenda skiptingar eignarhalds. Hvað svo má kalla sanngjarna skiptingu breytist mjög eftir því hverjir taka þátt í stofnuninni enda huglægt mat hvers og eins.

Gremja og sundrung

Ýmis alvarleg vandamál geta skapast ef skiptingin heppnast ekki vel: „Þegar líður á verkefnið getur komið í ljós að það huglæga mat sem lagt var til grundvallar við skiptingu eignarhaldsins á ekki lengur við. Þeim stofnanda sem finnst eins og á hann sé hallað, að hann fái ekki rétta umbun fyrir erfiði sitt og fórnir, getur þá t.d. tekið upp á því að minnka vinnuframlag sitt, rétt eins og starfsmaður sem finnst hann ekki fá réttlát laun fyrir vinnu sína.“

Skiptingin, vinnuframlagið og misjafnt mat stofnenda á framlagi hvor annars getur fjótlega leitt til ergelsis og sundrungar og það einmitt á þeim tíma sem teymið þarf að standa þétt saman og vinna þrotlaust.

Vanhugsuð upphafsskipting getur líka komið sér mjög illa á seinni stigum, þegar fjárfestar koma að verkefninu. „Góð þumalputtaregla er að eftir fyrstu fjármögnunarlotu sé hlutur frumkvöðla um 40-50% en þar af ætti að gera ráð fyrir hlut til lykilstarfsmanna, englar væru með að hámarki 20-30% og fjárfestar með um 30-40% hlut,“ útskýrir Ingi. „Ef eignarhlutur frumkvöðlanna þynnist um of minnkar það hvata þeirra, sem er lykillinn að árangri frumkvöðlafyrirtækja. Þar með veikist staða fyrirtækisins sem gerir það að verri fjárfestingarkosti en ella.“

Hver er ómissandi?

Með þetta til hliðsjónar er hægt að horfa nokkuð langt fram á veginn við stofnun og reyna að láta skiptingu eignarhalds beina fyrirtækinu í rétta átt. „Þar ber t.d. að taka inn í myndina þætti á borð við hver átti hugmyndina, hver er „heilinn“ í sprotafyrirtækinu, hver veitir aðstöðu eða umhverfi til að vinna að hugmyndinni, hver er ómissandi og hverjum hópurinn gæti séð af. Sumir eru nauðsynlegir því þeir hafa réttu kunnáttuna, aðrir hafa réttu samböndin og aðrir hafa einhvern X-þátt sem heldur hópnum einbeittum og ánægðum.“

Segir Ingi að stofnendur verði að eiga hreinskilnislegt samtal um þessi mál, jafnvel þótt mönnum geti þótt óþægilegt að reyna að setja heiðarlegan mælikvarða á sjálfa sig og aðra. „Í frumkvöðlafræðunum er oft bent á að fólk sem þekkist ekki neitt, eða ekki mjög náið eins og t.d. gamlir vinnufélagar, búi til betri stofnendateymi en nánir vinir og ættingjar. Ef fólk þekkist ekki mjög vel er það ófeimnara að útkljá þessi mál opinskátt.“

Gott sé að skiptingin sé skýr og hluthafasamkomulagið taki vandlega fram hvaða framlag liggur að baki eignarhlutnum, jafnvel með ákvæðum um að skiptingin geti tekið breytingum ef til að mynda einn ákveður að minnka vinnuframlag sitt eða annar fæst til að setja aukna fjármuni í starfsemina. „Æskilegt er að hafa ákvæði þar sem gert er ráð fyrir hvernig skal bregðast við þegar aðstæður breytast, t.d. ef slys hendir eða hluthafi lendir í búskiptum vegna skilnaðar. Slíkt ákvæði gæti t.d. kveðið á um forkaupsrétt annarra hluthafa svo eignarhaldið fari ekki í rangar hendur.“

Málamiðlun utan frá

Ef stofnendum gengur illa að komast að samkomulagi segir Ingi að það sé ákjósanlegt að setjast niður með utanaðkomandi ráðgjafa. „Þar er hægt að kryfja málin dýpra en menn almennt vilja gera án þriðja aðila. Farið er í greiningu á hlutverki hvers og eins, ábyrgð og hæfni. Slík ráðgjöf gæti einnig gagnast þegar forsendur og aðstæður breytast.“

Leggur Ingi á það áherslu að sátt sé meðal stofnendanna um þess mál. „Oft er betur heima setið en af stað farið ef menn finna það ekki hjá sér að leysa skiptingu hlutafjár af sanngirni. Frumkvöðlar ættu líka að hafa hugfast að heilsteyptur hópur með meðalgóða hugmynd er líklegri til að ná árangri, og tryggja sér fjármögnun, en sundraður hópur með frábæra hugmynd.“