Það er varla hægt að halda því fram að Magnús Carlsen sé sigurstranglegri í einvígi sínu við Viswanathan Anand, a.m.k. ef tekið er mið af taflmennskunni í fjórum fyrstu skákum heimsmeistaraeinvígisins sem fram fer þessa dagana í Sochi við Svartahaf. Anand náði að jafna metin sl. þriðjudag og hélt jafntefli án mikilla erfiðleika í fjórðu skák einvígisins sem tefld var í gær. Hann virðist vera mun betur undir þetta einvígi búinn en það sem hann háði í fyrra í heimalandi sínu. Byrjanir hans með hvítu eru beittari og það gæti skipt sköpum þegar fram í sækir. Alls tefla þeir 12 skákir og nú er staðan jöfn, 2:2.
Taflmennska Magnúsar í þriðju skákinni var einhvern veginn alveg ólík því sem vant er. Hann hefur hingað til verið laginn við að sniðganga löng og þvinguð byrjunarafbrigði en á þeim vettvangi getur Anand verið afar skæður; hættulegur; gagnagrunnar upplýstu menn um að 16 fyrstu leikirnir hefðu allir komið fyrir áður en Magnús hafði ekkert nýtt fram að færa í stöðu þar sem framsækið c-peð hvíts var sérlega hættulegt. Eftir sigurinn upplýsti Anand að staðan eftir 24. leiki hefði komið upp í heimarannsóknum. Magnús taldi sig geta varið þrönga stöðu. 26. leikur hvíts, Hc6, reyndist honum erfiður viðfangs. Magnús batt greinilega vonir við biskupsleikinn 27. ... Bb4, vandinn var hinsvegar sá að hann gat aldrei með góðu móti hirt c7-peðið vegna leppunar. Eftir 29. Da6! var svarta staðan óverjandi. Þetta var fyrsti sigur Anands yfir Magnúsi Carlsen í meira en fjögur ár:
3. einvígisskák.
Viswanathan Anand – Magnús Carlsen
Drottningarbragð
1. d4 Rf6 2. c4 e6 3. Rf3 d5 4. Rc3 Be7 5. Bf4 O-O 6. e3 Rbd7 7. c5 c6 8. Bd3 b6 9. b4 a5 10. a3 Ba6 11. Bxa6 Hxa6 12. b5 cxb5 13. c6 Dc8 14. c7 b4 15. Rb5 a4 16. Hc1
Nokkur orð varðandi umhugsunartímann: biðskákir eru úr sögunni en í einvíginu fá keppendur 2 klst. hvor á fyrstu 40 leikina, 1 klst. á næstu 20 leiki og þar eftir 15 mínútur að viðbættum 30 sekúndum eftir hvern leik til að ljúka skákinni. Í fjórðu skákinni virtist Magnús fá upp eina af þessum stöðum sem hann hefur sérhæft sig í en Anand sá við öllum brögðum hans og hélt auðveldlega jöfnu:
4. einvígisskák:
Magnús Carlsen – Viswanathan Anand
Sikileyjarvörn
1. e4 c5 2. Rf3 e6 3. g3 Rc6 4. Bg2 d5 5. exd5 exd5 6. O-O Rf6 7. d4 Be7 8. Be3 cxd4 9. Rxd4 Bg4 10. Dd3 Dd7 11. Rd2 O-O 12. R2f3 Hfe8 13. Hfe1 Bd6 14. c3 h6 15. Df1 Bh5 16. h3 Bg6 17. Had1 Had8 18. Rxc6 bxc6 19. c4 Be4 20. Bd4 Rh7 21. cxd5 Bxd5?!
22. Hxe8 Hxe8 23. Dd3!
23. .. Rf8 24. Rh4 Be5 25. Bxd5 Dxd5 26. Bxe5 Dxe5 27. b3 Re6 28. Rf3 Df6 29. Kg2 Hd8 30. De2 Hd5 31. Hxd5 cxd5 32. Re5!?
32. ... Df5 33. Rd3 Rd4
34. ...Dd7 35.De5 Re6 36. Kg3 Db5 37. Rf4 Rxf4 38. Kxf4 Db4+ 39. Kf3 d4 40. De8+ Kh7 41. Dxf7 Dd2 42. Df5+ Kh8 43. h4 Dxa2 44. De6
Hótar að leika 44. g5 með færum gegn kónginum. Anand setur fyrir lekann.
44. ... Dd2! 45. De8+ Kh7 46. De4+ Kh8 47. De8+Kh7
Í dag er frídagur en fimmta skákin verður tefld á morgun og þá hefur Anand hvítt. Carlsen á í erfiðleikum gegn drottningarpeðsbyrjun Anands og verður spennandi að sjá hverju hann tekur uppá.
Helgi Ólafsson helol@simnet.is