Fögnuður Stjórnendur leiðangursins fögnuðu lendingunni á halastjörnunni vel. Henni hefur verið lýst sem einni þýðingarmestu rannsókn mannkynsins.
Fögnuður Stjórnendur leiðangursins fögnuðu lendingunni á halastjörnunni vel. Henni hefur verið lýst sem einni þýðingarmestu rannsókn mannkynsins. — AFP
Kjartan Kjartansson kjartan@mbl.is Mikil fagnaðarlæti brutust út í stjórnstöð Evrópsku geimferðastofnunarinnar (ESA) í Darmstadt í Þýskalandi í gær, þegar staðfest var að tekist hefði í fyrsta sinn að lenda geimfari frá jörðunni á halastjörnu.

Kjartan Kjartansson

kjartan@mbl.is

Mikil fagnaðarlæti brutust út í stjórnstöð Evrópsku geimferðastofnunarinnar (ESA) í Darmstadt í Þýskalandi í gær, þegar staðfest var að tekist hefði í fyrsta sinn að lenda geimfari frá jörðunni á halastjörnu. Leiðangur geimfarsins Philae og móðurfarsins Rosettu hefur tekið rúm tíu ár, en geimförin fóru um 6,4 milljarða kílómetra leið að halastjörnunni 67P/Churyumov-Gerasimenko.

Gríðarlegur léttir og gleði

Sævar Helgi Bragason, formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness, sagði í samtali við mbl.is í gær að hann hefði upplifað gríðarlegan létti þegar staðfest var að Philae hefði lent á yfirborði halastjörnunnar 67P/Churyumov-Gerasimenko. „Ég var með hnút í maganum í hálftíma þegar þetta var að byrja. Svo var þetta gríðarlegur léttir eftir á eins og þegar maður vinnur eitthvað í íþróttum. Ótrúlegur léttir og gleði. Ég fékk kökk í hálsinn og langaði helst að fara að gráta en kunni ekki við það út af fólkinu sem var í kring. Maður er búinn að fylgjast með þessu svo lengi og vonaði svo heitt og innilega að þetta tækist. Þetta tókst. Það eru bara allir í skýjunum og fólk felldi gleðitár í stjórnstöðinni í Þýskalandi. Eðlilega, eftir tuttugu ára verkefni sem er loksins að ná hámarki og verða að veruleika,“ segir Sævar Helgi.

Samsetning vatnsins könnuð

Á næstu dögum, vikum og mánuðum mun farið gera ýmsar vísindatilraunir á yfirborðinu, taka myndir, efnagreina halastjörnuna og rannsaka innviði hennar. Það sem vekur helst áhuga manna eru annars vegar lífræn efnasambönd sem menn vita að halastjörnur innihalda og hins vegar vatn.

„Ein helsta ráðgáta vísindanna er hvernig í ósköpunum jörðin fékk allt þetta vatn sem er á henni. Philae á að reyna að varpa ljósi á það með því að mæla samsetningu vatnsins á halastjörnunni og vatnsins á jörðinni. Það getur þá sagt til um hvort halastjörnur séu að stórum hluta uppruni vatnsins á jörðinni,“ segir Sævar Helgi.

Þá hafa menn áhuga á að rannsaka hvort efni halastjörnunnar hafi tekið einhverjum breytingum í gegnum tíðina. „Ef efnið hefur ekkert breyst erum við þarna að skoða frumstæðasta efni í sólkerfinu, efnið sem reikistjörnurnar, öll tunglin, og sólin náttúrlega, líka urðu til úr. Það er ekki hægt að komast nær uppruna sólkerfisins en með því að rannsaka halastjörnur,“ segir Sævar Helgi.