Rúmur mánuður er nú til jóla, og því býr Víkverji sig nú undir það að fá spurninguna sem hann kvíðir svo mikið fyrir: „Og hvað langar þig í í jólagjöf?“ Víkverji vonar að lesandinn misskilji ekki.

Rúmur mánuður er nú til jóla, og því býr Víkverji sig nú undir það að fá spurninguna sem hann kvíðir svo mikið fyrir: „Og hvað langar þig í í jólagjöf?“ Víkverji vonar að lesandinn misskilji ekki. Honum finnst alveg gaman að fá jólagjafir (og afmælisgjafir, ef út í það er farið). Hann bara nennir voðalítið að hafa skoðun á því hvað sig langi til að fá hverju sinni. Bókatíðindin hjálpa aðeins, en þó ekki nóg.

Og þar liggur hundurinn grafinn. Aðstandendur Víkverja geta varla vitað hvað hann vill, þegar hann veit það ekki sjálfur, og reyna því oft að giska á hluti sem eiga að vera innan hans áhugasviðs. Og raunar er Víkverji nú í langflestum tilfellum frekar sáttur við þá hugmyndaauðgi sem birst hefur í jólagjöfunum til hans og reynir Víkverji af veikum mætti að svara í sömu mynt. Svo er nú líka alltaf aðeins meira gaman þegar gjafir eru óvæntar.

Annars treystir Víkverji því að allir fái eitthvað fallegt á jólunum, „í það minnsta kerti og spil“, eins og segir í textanum. Víkverji hefur kannski minna við kertin að gera, en hann hefur mikinn áhuga á hinum ýmsu borðspilum. Svo mikinn raunar að frú Víkverji mun eflaust hrista hausinn þegar hún les þessar línur, enda er varla bætandi á spilasafn heimilisins.

Það vill svo vel til að á höfuðborgarsvæðinu eru nú starfræktar tvær verslanir sem sinna spilaþörf Stór-Reykjavíkursvæðisins ágætlega, Nexus og Spilavinir. Báðar þessar verslanir hafa nefnilega staðið sig mjög vel að mati Víkverja í því að halda utan um viðskiptavini sína. Meðal annars hafa þær staðið fyrir fjölsóttum spilakvöldum og kynningum á spilum. Svipar þeim þannig til borðspilabúða sem finnast erlendis, sem verða um leið ákveðnir miðpunktar fyrir spilamenningu þess svæðis sem þær sinna. Víkverji gerir ráð fyrir að hann muni kíkja í báðar þessar búðir í aðdraganda jólanna í leit að gjöfum fyrir vini sína og vandamenn.