Vilborg Einarsdóttir fór á Iceland Airwaves tónlistarhátíðina um helgina og skemmti sér vel að eigin sögn.
Vilborg Einarsdóttir fór á Iceland Airwaves tónlistarhátíðina um helgina og skemmti sér vel að eigin sögn. — Morgunblaðið/Golli
Það virðist alltaf gusta af Vilborgu Einarsdóttur. Alltaf eru mörg járn í eldinum hjá fyrirtæki hennar Mentor og mikið starf óunnið við að bæta og efla menntun barna, með tæknina að vopni. Hverjar eru stærstu áskoranirnar í rekstrinum þessi misserin?

Það virðist alltaf gusta af Vilborgu Einarsdóttur. Alltaf eru mörg járn í eldinum hjá fyrirtæki hennar Mentor og mikið starf óunnið við að bæta og efla menntun barna, með tæknina að vopni.

Hverjar eru stærstu áskoranirnar í rekstrinum þessi misserin?

Vaxtarverkir. Að koma út nýrri kynslóð af Mentor-kerfinu og stjórna innleiðingu og uppbyggingu á nýjum mörkuðum.

Einnig hvernig hægt er að hjálpa skólum á Íslandi og í Bretlandi að innleiða nýja aðalnámskrá.

Hver var síðasti vinnutengdi viðburðurinn sem þú sóttir?

Var á Airwaves um síðustu helgi sem var frábært. Er þessa dagana að halda fundi með skólafólki um allt land til að ræða hvernig má útfæra áætlanagerð og námsmat í nýjum Mentor.

Hvaða hugsuður hefur haft mest áhrif á hvernig þú starfar?

Var í frábæru námi í mastersnáminu í stjórnun og stefnumótun undir styrkri stjórn Runólfs Smára. Það nám í bland við kennaranámið nýtist mjög vel í mínu starfi hjá Mentor. Það er áhugavert að tvinna saman stefnumótunarfræðin og menntastefnu landa, sveitarfélaga og hríslun námskrár inn í daglegt starf kennara.

Hver myndi leika þig í kvikmynd um líf þitt og afrek?

Ég sé nú frekar fyrir mér að það yrði einhvern tímann hermt eftir mér á þorrablóti á Eyrarlandi í Mýrdalnum. Reyndar held ég að ég kæmist aðeins inn í þá dagskrá sem systir Grétars og Guðna sem eru rófubændur í Þórisholti.

Hernig heldurðu við þekkingu þinni?

Les fagtímarit og vinn með öflugu fólki bæði í Mentor og á sviði menntunar víða um heim. Hitti viðskiptavini og ræði leiðir til að auka árangur í skólastarfi. Ég held einnig námskeið og fyrirlestra sem ég þarf að undirbúa og næ þannig að endurnýja og byggja upp nýja þekkingu.

Hugsarðu vel um líkamann?

Já, þótt maður geti alltaf gert betur. Þarf að halda mér í formi til að geta spilað á öldungamótinu í blaki. Er búin að uppgötva sundið sem góða hreyfingu.

Ef þú þyrftir að finna þér nýjan starfa, hvað væri draumastarfið?

Flakka um heiminn og halda fyrirlestra og segja frá reynslu minni af að byggja upp tæknifyrirtæki í fremstu röð í heiminum er viðkemur menntun (sem er mín framtíðarsýn). Þar væri ég sérstaklega að hvetja konur til að gerast frumkvöðlar og taka þátt í tækifærinu sem býr í tæknibyltingunni!

hin hliðin

Menntun: Samvinnuskólapróf frá Samvinnuskólanum á Bifröst – 1985. Stúdentspróf frá Samvinnuskólanum, framhaldsdeild í Reykjavík. 1987. B.Ed í kennslufræðum frá Kennaraháskóla Íslands. 1993. MSc í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands og Verslunarháskólanum í Árósum af sviði stjórnunar og stefnumótunar 2001.

Störf: Vann við fullorðinsfræðslu hjá Menningar- og fræðslusambandi alþýðu eftir útskrift í Kennaraháskólanum og síðar stundakennari hjá Háskóla Íslands. Hef starfað hjá Mentor frá 2002. Einn af stofnendum og framkvæmdastjóri.

Áhugamál: Samvistir með fjölskyldu og vinum. Spila blak með Íþróttafélagi stúdenta.

Er svo heppin að vinnan er einnig eitt af mínum áhugamálum. Stefnumótun, menntun, námsmat og námskrár í löndum Evrópu.

Fjölskylduhagir: Gift Pétri Péturssyni, stofnanda Manna og músa. Eigum þrjú börn: Stein Elliða og Þorfinn og Fríðu Björgu.