Áherslur „Á meðan starfsmenn fá matarkörfur eða harðan pakka með einhverju fallegu þá fá viðskiptavinir iðulega eitthvað smátt og upplífgandi, eins og vínflösku og karöflu,“ segir Árni Einarsson.
Áherslur „Á meðan starfsmenn fá matarkörfur eða harðan pakka með einhverju fallegu þá fá viðskiptavinir iðulega eitthvað smátt og upplífgandi, eins og vínflösku og karöflu,“ segir Árni Einarsson. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hægt að fá mikið fyrir peninginn þegar auglýsingavara er valin í jólapakkann. Gott að gæta hófs við merkingar og gera einfalda þarfagreiningu á starfsmannahópnum

Þegar kemur að því að merkja jólagjafirnar til starfsmanna og bestu viðskiptavinanna segir Árni Esra Einarsson að „minna sé meira“.

„Það passar ekki við sumar vörur að merkja þær, eins og t.d. hnífasett sem fólk vill alla jafna hafa uppi við í eldhúsinu. Þegar kemur að fatnaði kemur oft best út að hafa merkingarnar lágstemmdar, t.d. með því að sauma merki fyrirtækisins með þræði sem er í sama lit og flíkin. Merkingin er enn til staðar en samt ekki svo áberandi að fólki líði eins og gangandi auglýsingaskilti.“

Árni er eigandi og markaðsstjóri Margt smátt ehf., en fyrirtækið hefur í 26 ár sérhæft sig í að bjóða upp á úrval auglýsingavara. Nýlega tók Margt smátt yfir rekstur samkeppnisaðilans Tanna og jók þar með vöruframboðið enn frekar.

Golftí og loftbelgir

Að sögn Árna er hægt að finna fyrirtækjagjafir í öllu verðflokkum og um að ræða vörur sem geta staðið einar og sér sem eiguleg gjöf eða verið viðbót við t.d. gjafakort eða matarkörfu.

„Við seljum allt frá golftíum og upp í loftbelgi, frá virtum framleiðendum, og með nær ótakmarkaða möguleika við merkingar.“

Árni segir þrjá vöruflokka vinsælasta þegar kemur að jólgjöfum: fatnað, vörur til ferðalaga og útivistar og svo ýmis hagnýt raftæki. „Íþróttatöskur, flugfreyjutöskur og vandaðar yfirhafnir eru meðal þess sem lendir í jólapakkanum. Sniðugir aukahlutir fyrir snjallsíma eiga líka upp á pallborðið, s.s. Bluetooth-ferðahátalarar og hleðslubankar.“

Reiknar Árni raunar með að ferðahátalararnir og hleðslubankarnir verði með söluhæstu gjöfunum í ár. „Allir eiga í dag snjallsíma og Bluetooth-hátalari virðist koma að gagni á öllum heimilum. Sama gildir um hleðslubankana sem koma sér vel ef farið er að ganga mjög á hleðslu símans þegar dagurinn er hálfnaður eða ef stendur til að fara í langt ferðalag þar sem ekki er hægt að stóla á að komast í rafmagnsinnstungu.“

Hlutur sem endist og nýtist

Árni segir margt gera auglýsingavörur að sniðugum kosti sem starfsmannajólagjöf. Er t.d. um varanlegan hlut að ræða sem þiggjandinn á og notar væntanlega lengi. Segir hann kjörið að lauma einhverju slíku ofan í klassísku matarkörfurnar svo fólk hafi eitthvað til að minna á gefandann löngu eftir að hamborgarhryggurinn, konfektið og hátíðakaffið er búið.

„En svo er líka raunin að gera má mjög góð kaup og færa þiggjandanum mjög veglega gjöf með minni tilkostnaði en þiggjandinn kannski gerir sér grein fyrir. Þannig getur t.d. fyrirtæki fengið hjá okkur vandaða dúnúlpu á, segjum, 12.000 kr. en samskonar úlpa kostar kannski 35.000 eða 40.000 kr. þegar hún er keypt úti í búð. Frá sjónarhorni þiggjandans er hann þarna kominn með 40.000 kr. gjöf í hendurnar.“

Bendir Árni þannig á að auglýsingavörurnar geti verið góður kostur fyrir fyrirtæki sem þurfa að halda fast um pyngjuna þessi jólin en vilja ekki að starfsmönnum finnist þeir vera að fá ódýrari gjöf en í fyrra. Reyndar er þróunin í dag blessunarlega í þá átt hjá flestum að reksturinn leyfir aukið svigrúm til gjafakaupa og segir Árni pakkana verða ögn dýrari ár frá ári eftir að hafa tekið dýfu strax eftir hrunið margumtalaða.

„Þó svo að fyrirtækjum beri engin skylda til að gefa starfsmönnum jólagjafir þá er þessi siður hafður í heiðri á öllum vinnustöðum sem ég þekki til. Upphæðirnar sem settar eru í gjafirnar geta hins vegar verið mjög breytilegar eftir fyrirtækjum, stærð þeirra, starfssviði og samsetningu starfsmannahópsins,“ útskýrir Árni.

„Eftir hrunið virtist t.d. að færðist í aukana að fyrirtækin gæfu matarkörfur og hugsunin þá að heimilunum veitti ekki af smá búbót. Nú hefur þessi tilhneiging gengið mikið til baka.“

Þrjú algeng verðbil

Árni segir langflest fyrirtæki gefa gjafir sem falla nálægt þremur verðbilum: 5.000 kr., 10.000 kr. og 15.000 kr. „Þar sem starfsmennirnir eru mjög margir vill oft verða minna úr að moða fyrir hverja gjöf á meðan gjafirnir eiga það til að stækka hjá minni félögum. Í hálaunageirum eins og fjármálastarfsemi sjáum við gjafir við dýrari enda skalans, og svo stöku tilvik þar sem jólagjöfin kostar 20.000 og jafnvel 30.000 kr.“

Í þeim tilvikum sem fyrirtæki gefa bestu viðskiptavinunum líka gjafir segir Árni að reglurnar séu oft aðrar. „Á meðan starfsmenn fá matarkörfur eða harðan pakka með einhverju fallegu þá fá viðskiptavinir iðulega eitthvað smátt og upplífgandi, eins og vínflösku og karöflu, eða þá eitthvað sem tengist með beinum hætti því sem viðkomandi starfar við.“

ai@mbl.is

Ólíkir hópar vilja ólíka hluti

Segir Árni góða reglu að gera einfalda þarfagreiningu áður en stjórnendur velja gjafirnar í pakkann. Allir vilja auðvitað gefa gjöf sem hittir í mark. „Þarf t.d. að skoða hvernig kynja- og aldursskipting starfsmannahópsins er. Flestir vilja samt að gjöfin komi á óvart og þykir ekki við hæfi að spyrja starfsfólkið hreint út hvað það langar í.

Á stórum vinnustað er við því að búast að alltaf verði einhverjir sem ekki eru hæstánægðir með gjöfina en ef 80-90% eru sátt er hægt að segja að tekist hafi mjög vel til við val á gjöfinni.“

Þegar stjórnendur hafa samband í gjafaleit biður Árni þá að tilgreina hvaða upphæð þeir eru reiðubúnir að eyða í gjöfina og svo lýsa hvernig starfsmannahópurinn er samsettur. „Við komum þá með 4-5 hugmyndir að gjöfum fyrir stjórnandann að velja úr.“

Árni segir pantanir þurfa að berast í seinasta lagi í fyrstu viku desember ef hægt á að vera að tryggja að vörurnar verði tilbúnar í tíma og merktar á þann hátt sem kaupandinn vill. „Við eigum ákveðnar vörur til á lager en aðrar pöntum við beint frá birgjum í Evrópu og þarf að hafa hæfilegan fyrirvara á.“

Starfsmenn Margt smátt sjá um að pakka gjöfinni inn og merkja ef þess er óskað „Viðskiptavinurinn þarf bara að taka upp símann og panta, og við sjáum um allt hitt frá A til Ö.“