Stórhýsi Framkvæmdir við hátæknisetur Alvotech í Vatnsmýri ganga vel.
Stórhýsi Framkvæmdir við hátæknisetur Alvotech í Vatnsmýri ganga vel. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Baldur Arnarson baldura@mbl.is Ríflega 300 umsóknir hafa borist um 35 störf hjá Alvotech, systurfyrirtæki Alvogen, vegna nýs hátækniseturs í Vatnsmýri.

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Ríflega 300 umsóknir hafa borist um 35 störf hjá Alvotech, systurfyrirtæki Alvogen, vegna nýs hátækniseturs í Vatnsmýri.

Halldór Kristmannsson, framkvæmdastjóri hjá Alvogen, segir um 5 þúsund manns hafa heimsótt umsóknarvefinn fyrstu vikuna eftir að störfin voru auglýst 29. október sl. „Við erum afar ánægð með mikinn áhuga umsækjenda, enda eru þetta fremur sérhæfð störf. Það er stefnt að því að framkvæmdum ljúki í ársbyrjun 2016 og að þá verði flutt inn í húsnæðið. Það má segja að framkvæmdin sé nánast hálfnuð í dag.

Eftir áramót hefst vinna innanhúss og þá fer þetta smám saman að taka á sig mynd. Við ráðum í 35 störf núna og höldum svo áfram eftir áramót og munum ráða alls um 50 Íslendinga á næstu mánuðum. Í heildina reiknum við með að Hátæknisetrið skapi um 200 ný störf, sem verða að mestu leyti fyrir háskólamenntaða Íslendinga,“ segir Halldór um starfskröfurnar.

Hafa þegar byggt upp sölunet

Að sögn Halldórs hófst þróun lyfja Alvotech fyrir um tveimur árum í samvinnu við svissneskan samstarfsaðila. Hann segir langtímaverkefni að þróa líftæknilyf. „En við erum komin af stað og höfum nú þegar byggt upp sölunet og þekkingu á sölu slíkra lyfja í Mið- og Austur-Evrópu undanfarin ár,“ segir Halldór.

Um 50 manns starfa nú hjá Alvogen á Íslandi. Hátæknisetrið verður um 13.000 fermetrar að stærð.