Þórdís Sæmundsdóttir
Þórdís Sæmundsdóttir
Þórdís Sæmundsdóttir fæddist í Árnabotni í Hraunsfirði í Snæfellssýslu 13. nóvember árið 1914. Hún fagnar því hundraðasta afmælisdegi sínum í dag. Foreldrar hennar voru Sæmundur Kristján Guðmundsson og Jóhanna Elín Bjarnadóttir.

Þórdís Sæmundsdóttir fæddist í Árnabotni í Hraunsfirði í Snæfellssýslu 13. nóvember árið 1914. Hún fagnar því hundraðasta afmælisdegi sínum í dag.

Foreldrar hennar voru Sæmundur Kristján Guðmundsson og Jóhanna Elín Bjarnadóttir. Systkinin voru tíu talsins og var hún næstyngst þeirra. Þau elstu urðu 92 ára og 93 ára gömul.

Fjölskyldan flutti að Hraunhálsi í sömu sveit. Þórdís byrjaði ung að vinna eins og tíðkaðist í þá daga. Hún vann á sínum yngri árum á Álafossi, fyrst í verksmiðju, síðan á saumastofu. Síðustu áratugina á vinnumarkaðnum starfaði hún sem fiskverkakona í Bæjarútgerð Reykjavíkur. Síðastliðin átta ár hefur hún dvalist á Hrafnistu í Reykjavík.

Hún á einn son, Sæmund Sigurlaugsson, framkvæmdastjóra Hreyfils, fimm barnabörn og níu barnabarnabörn.

Nú eru þeir um 34 Íslendingarnir sem hafa náð 100 ára aldri og eru á lífi. Einstaklingar fæddir árið 1915 eru nú um 29 talsins en þeir geta orðið 100 ára á næsta ári. „Það sem er sérstakt við þann hóp er að karlmenn eru 12 talsins, sem er mun hærra hlutfall en undanfarin ár,“ segir Jónas Ragnarsson sem heldur úti vefsíðu um langlífi Íslendinga.