Brynja Björg Halldórsdóttir brynja@mbl.is Síðasta ár olli bílaumboðum miklum vonbrigðum og eiginfjárstaðan er veik. Umboðin telja þó að mikill viðsnúningur hafi átt sér stað á þessu ári.

Öll helstu bílaumboðin voru með neikvæða afkomu á árinu 2013, ef frá er talin Bílabúð Benna sem skilaði 95 milljóna króna hagnaði. Nemur samanlagt tap BL, Öskju, Toyota, Heklu og Brimborgar 1,7 milljörðum króna.

Velta bílaumboðanna sex stóð nánast í stað en heildarveltan nam 43.200 milljónum árið 2012 og 43.500 milljónum árið 2013.

Eiginfjárhlutfall umboðanna hefur lækkað nokkuð á milli ára. Meðaltalið var 21,2% í lok árs 2012 en aðeins 14,7% ári síðar. Eiginfjárhlutfall Bílabúðar Benna er langsamlega hæst, eða 69,6% um síðustu áramót. Þá var eiginfjárhlutfall Toyota neikvætt um 36% í árslok 2013 en það hafði verið jákvætt um 4,2% ári fyrr. Toyota fór í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu fyrr á þessu ári, eftir því sem fram kemur í síðasta ársreikningi félagsins. Eins og greint hefur verið frá í Morgunblaðinu var hlutafé félagsins aukið úr 222 milljónum í 612 milljónir en fært aftur niður í kjölfarið um 551,5 milljónir til að mæta uppsöfnuðu tapi á rekstrinum.

2014 besta ár frá hruni

„Veltan var ágæt í fyrra en afkoman ekkert sérstök. Árið 2013 var því vonbrigði fyrir bílaumboðin,“ segir Jón Trausti Ólafsson, formaður Bílgreinasambands Íslands og framkvæmdastjóri Öskju. Hann telur marga þætti orsaka dræma sölu í fyrra. „Mikil óvissa ríkti um framgang mála í kringum alþingiskosningar. Sumarið var ágætt en svo kom bakslag um haustið, þegar tilkynnt var um væntanlega skuldaleiðréttingu. Þá myndaðist aftur óþægileg biðstaða, sem hefur alltaf neikvæð áhrif á bílasölu.“

Segir Jón árið 2013 hafa verið erfiðara en 2012 fyrir bílgreinar, vegna óvissu og óstöðugleika í efnahagslífinu. Hins vegar hafi 2014 verið mun betra. „Gengið hefur verið stöðugt allt árið og krónan að styrkjast. Ferðamannavöxtur hefur aukist og atvinnuleysi minnkað. Aðstæður allar eru mun betri og 2014 er besta árið frá hruni fyrir greinina.“

Hann bendir á, að þrátt fyrir 30% aukningu í bílasölu á þessu ári sé salan 20-30% undir því sem eðlilegt þyki til að viðhalda eðlilegri endurnýjun.

„Ég er þó nokkuð bjartsýnn á framhaldið,“ segir Jón. Á hann von á töluverðri endurnýjun á næstu fimm árum.

Brimborg í endurfjármögnun

Brimborg hefur gripið til margvíslegra hagræðingaraðgerða á undanförnum árum. Á síðasta ári voru tvær fasteignir seldar, tvö verkstæði sameinuð, rekstri tveggja verkstæða hætt og starfsfólki fækkað. Þá segir í síðasta ársreikningi að áfram verði „skoðaðir hagræðingarmöguleikar“.

Egill Jóhannesson, forstjóri Brimborgar, sagði í samtali við Morgunblaðið að mikill viðsnúningur hefði orðið í rekstri félagsins á þessu ári. Allar hagræðingaraðgerðir félagsins árið 2013 hefðu tekist mjög vel og efnahagsumhverfið batnað til muna. Þá hefði félagið lokið 2,4 milljarða króna endurfjármögnun á langtímalánum í september síðastliðnum, þannig að greiðslubyrði og vaxtagreiðslur félagsins hefðu lækkað verulega. Því hefði ekki verið þörf á frekari hagræðingaraðgerðum á þessu ári. „Á fyrstu níu mánuðum ársins snerist reksturinn fullkomlega við. Veltuaukning var 21% á milli ára, rekstrarhagnaður jókst um 79% á milli ára og er nú 613 milljónir.“ segir Egill. „Það er greinilegt að kostnaðarniðurskurðurinn, sterkari markaður, sterkari markaðshlutdeild okkar og endurfjármögnunin hefur skilað sér. Við horfum bjartari augum á framtíðina, það er ekki spurning.“