[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Yahya Hassan. Bjarki Karlsson þýddi. Mál og menning, 2014. 169 bls.

Auðvelt er að skilja þá undrun, forvitni og hrifningu sem þessi kröftuga frumraun dansk-palestínsks unglings, Yahya Hassan, hefur vakið í Danmörku, og ekki bara í bókmenntaheimum heldur í samfélaginu öllu. Að ljóðabók, fyrsta bók kornungs skálds af jaðrinum, seljist í 100.000 eintökum er vitaskuld stórmerkilegt. En Hassan stígur hér fram og nánast öskrar á lesendur ævisögu sína – öskrar því ljóðin eru öll í hástöfum, án greinarmerkja, sem fljótlega vill verða þreytandi við lesturinn – og er ekkert dregið undan í þeirri hörmungasögu.

Skáldið fæddist í Danmörku af palestínskum foreldrum og greinir í ljóðunum frá skefjalausu heimilisofbeldi, því hvernig innflytjendur leika á félagslega kerfið og hræsnisfullri trúariðkun múslíma, en jafnframt er fjallað um innrætingu öfgamanna, innbrot, fíkniefnasölu og neyslu, vistun á unglingaheimilum og máttlaust skólakerfi. Smám saman kemst ljóðmælandinn í kynni við bókmenntir, fyrir tilstilli að því er virðist hugulsamra starfsmanna stofnana sem treysta honum, en hann heldur áfram að brjótast inn, selja fíkniefni og ögra í raun öllum í kringum sig. Mynd er dregin upp af fólki án róta. Í Danmörku er fjölskyldan aðskotadýr en einnig í flóttamannabúðunum í Palestínu þar sem gargað er á börnin: DRULLIÐ YKKUR AFTUR TIL DANMERKUR... (44)

Árekstur menningarheima strax í æsku birtist til að mynda í ljóðinu „Utan dyra“ og ofbeldið er sínálægt:

ÉG SAT Í FATAHENGINU MEÐ EPLASKÍFU Í HENDINNI / OG KENNDI SJÁLFUM MÉR Í RÓ OG NÆÐI / AÐ BINDA SKÓREIMAR / APPELSÍNUR MEÐ NEGULNÖGLUM / HANGANDI ÚR LOFTINU Í RAUÐRI SNÚRU / EINS OG HOLSTUNGNAR VÚDÚDÚKKUR / SVONA MAN ÉG LEIKSKÓLANN / HIN HLÖKKUÐU TIL AÐ JÓLASVEINNINN KÆMI / EN ÉG VAR JAFN HRÆDDUR VIÐ HANN / OG VIÐ PABBA MINN

Bjarki Karlsson, sem hefur getið sér orð fyrir traust tök á bundnu máli, þýðir þessi flæðandi talmálsljóð Hassans og gerir það vel. Spyrja má þó um sumar lausnir, eins og þegar orðið öndvegissúla birtist í annars frekar fátæklegum götumálsorðaforða ljóðmælandans (ÞESSI SKÍTAHRÆÐSLA VAR EINS OG ÖNDVEGISSÚLA / Í RASSGATINU Á MÉR (27)), því kappkostað er við að halda andblæ frumtextans við yfirfærsluna á íslensku, með tilheyrandi meðvituðum málvillum. Sú ákvörðun að þýða ekki orðið pedagóg, sem birtist oft í textanum, stangast þó á við það. Hefði þess í stað ekki mátt tala um félags- eða uppeldisfræðinga, þar sem pedagóg er (blessunarlega) fáheyrt orð í íslensku?

Krafturinn er helsti kostur ljóða Hassans, og bersöglin er áhrifamikil. Skyldleikinn við rapp er mikill og bókmenntasagan þekkir svona gos, og sum hafa verið skáldlegri – nægir að nefna Majakovskí hinn rússneska og bítskáldin amerísku. En þetta er afhjúpandi texti og þótt á köflum hefði mátt stytta og slípa, þá er það í raun ekki í eðli þessa orðaflæðis, þessarar ævisögu í talljóðsformi, þar sem lýst er árekstri menningarheima með eftirminnilegum hætti. Svona lýkur bókinni, og „Langljóði“ sem er 34 blaðsíður:

... / ÉG BARA ER KLIKKAÐI SONURINN / ÉG BARA ER BÚNA SKIPTA ÚT JOGGINGBUXUM / FYRIR SIÐMENNTAÐAR / OG PASSLEGAR GALLABUXUR / ÉG BARA RÆÐST Á YKKUR MEÐ ORÐUM / OG ÞIÐ BARA VILJIÐ SVARA MEÐ ELDI / ÉG BARA ER KAFIR ÉG BARA ER MUNAFIQ / ÉG BARA ER HUNDUR / ÉG BARA ER SKÍTUGUR SÁL MÍN ER FÁTÆK / OG OFAN Í MISGERÐINA ÉG MÓKI Í VORSÓLINNI

Einar Falur Ingólfsson

Höf.: Einar Falur Ingólfsson