Áburðarpokar Verð á áburði hefur áhrif á matvælaverð á Íslandi.
Áburðarpokar Verð á áburði hefur áhrif á matvælaverð á Íslandi. — Morgunblaðið/Kristján
Blikur eru á lofti á erlendum áburðarmörkuðum og er ekki gefið að miklar verðlækkanir á olíu undanfarið muni skila sér í lægra innkaupsverði á áburði til íslenskra söluaðila.

Blikur eru á lofti á erlendum áburðarmörkuðum og er ekki gefið að miklar verðlækkanir á olíu undanfarið muni skila sér í lægra innkaupsverði á áburði til íslenskra söluaðila.

Verð í framvirkum samningum á Norðursjávarolíu fór niður í 81,23 dali í fyrradag og hafði ekki verið jafnlágt síðan í október 2010.

Elías Hartmann Hreinsson, deildarstjóri búvörudeildar SS, sem flytur inn áburð frá Yara, segir verðþróunina koma á óvart.

„Eins einkennilega og það kann að hljóma þá er hráefnisverð og olíu- og gasverð að lækka en samt hafa orðið miklar hækkanir á áburðarverði í Evrópu. Maður skilur þetta ekki,“ segir Elías Hartmann og tekur fram að SS hafi beðið með að panta áburð vegna óvissunnar.

Alls 3,5 milljarðar á ári

Eyjólfur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Fóðurblöndunnar, segir árlega flutt inn 50.000 tonn af áburði fyrir um 3,5 milljarða króna.

Heimsmarkaðsverð áburðar hafi hækkað í erlendri mynt um allt að 20% síðan í nóvember í fyrrahaust.

„Verðið hefur ekki lækkað aftur. Við sjáum enn ekki merki þess að lægra olíuverð muni leiða til lægra áburðarverðs. Kostnaðarverð á köfnunarefnisáburði ræðst að hluta til af verði á gasolíu. Það er orkukostnaðarhlutinn sem hefur þar áhrif. Að öðru leyti eru það aðrir þættir sem hafa áhrif á verð áburðar. Við þykjumst eiga inni lækkun í síðari hlutanum en það eru ekki komin fram merki um það.“ baldura@mbl.is