Við kynningu á skuldaleiðréttingaraðgerðum ríkisstjórnarinnar var sagt að umsókn um leiðréttingu yrði jafn einföld og að panta sér pizzu.

Um fátt hefur meira verið rætt á undanförnum misserum en aðgerðir ríkisstjórnar varðandi leiðréttingu verðtryggðra húsnæðislána sem samþykktar voru af Alþingi á vordögum. Markmið þessara aðgerða á að vera að leiðrétta þann forsendubrest sem fram kom í verðtryggingarvísitölum á árunum 2008 og 2009. Leiðréttingin tekur lögum samkvæmt til verðtryggðra fasteignaveðlána sem veitt voru einstaklingum og nýtt voru í heild eða að hluta til öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota hér á landi á framangreindu tímabili. Til tíðinda dró á blaðamannafundi forsætisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra á dögunum þar sem niðurstöður aðgerðarinnar voru tilkynntar. Ákvarðanirnar hafa nú verið gerðar aðgengilegar flest öllum umsækjendum á vef ríkisskattstjóra. Sitt sýnist hverjum um útkomuna en jafnframt hefur runnið upp fyrir flestum að boðuð aðgerð er loks að eiga sér stað.

Athygli hefur vakið fréttaflutningur þess efnis að nokkur fjöldi einstaklinga sem sóttist eftir leiðréttingu lána sinna mun verða synjað um leiðréttingu eða útreikningur mun leiða í ljós að lækkun höfuðstóls mun ekki eiga sér stað. Þá er ljóst að ótal álitaefni munu vakna þegar einstaklingar taka að rýna í forsendur útreikninga. Öll nótt er þó ekki úti fyrir þá sem telja á sig hallað í þeim efnum því í 14. gr. laga um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána er að finna heimild fyrir einstaklinga til að kæra ákvörðunina um fjárhæð leiðréttingarinnar til sérstakrar úrskurðarnefndar. Sé fjöldi umsækjenda sem fær höfnun jafn mikill og greint hefur verið frá er margt óljóst varðandi það ferli sem taka mun við. Þeir sem vilja leita réttar síns skulu rökstyðja kröfu sína skilmerkilega og leggja fram öll nauðsynleg gögn til stuðnings kærunni, brýnt er að þar sé vandað til verksins. Úrskurðarnefndinni ber svo að fara eftir stjórnsýslulögum við afgreiðslu kærunnar sem tryggja ætti vandaða málsmeðferð og rökstuddar niðurstöður. Það eitt að stjórnsýslulög gilda um kærumeðferð og úrskurði nefndarinnar leiðir til þess að málsmeðferð í hverju máli getur orðið löng og svifasein en ljóst er að málin geta skipt þúsundum þegar upp er staðið.

Við kynningu á skuldaleiðréttingaraðgerðum ríkisstjórnarinnar var sagt að umsókn um leiðréttingu yrði jafn einföld og að panta sér pizzu. Þrátt fyrir einfalt umsóknarferli er hins vegar ljóst að fæstir þeirra sem panta sér pizzu gera ráð fyrir að takast á hendur stjórnsýslukæru í kjölfarið, þegar sendingin uppfyllir ekki þær væntingar sem til hennar voru gerðar. Óhætt er að fullyrða að kæruferlið verður flóknara en pizzupöntun en vonandi tekst stjórnvöldum vel upp við að leiðbeina neytendum í því ferli sem framundan er. Frestur til að kæra niðurstöður leiðréttingarinnar er þrír mánuðir frá dagsetningu ákvörðunar og frestar kæra framkvæmd leiðréttingar.

Úrskurðir kærunefndarinnar eru endanlegir á stjórnsýslustigi en heimilt er að bera niðurstöðu hennar undir almenna dómstóla, sem munu eiga lokaorðið líkt og í öðrum réttarágreiningi. Það gæti því farið svo að lokaniðurstöður leiðréttingarinnar liggi ekki fyrir fyrr en að tveimur til þremur árum liðnum. Miðað við umfang málsins og þá miklu hagsmuni sem eru í húfi hjá einstaklingum gæti jafnvel farið svo að endanleg niðurstaða kæmi enn síðar.