Petr Cech
Petr Cech
Petr Cech, markvörðurinn frábæri sem hefur verið í herbúðum Chelsea frá árinu 2004 og hefur um árabil verið talinn í hópi bestu markvarða heims, mun verja mark Tékka þegar þeir mæta Íslendingum í undankeppni Evrópumótsins í Plzen á sunnudaginn.

Petr Cech, markvörðurinn frábæri sem hefur verið í herbúðum Chelsea frá árinu 2004 og hefur um árabil verið talinn í hópi bestu markvarða heims, mun verja mark Tékka þegar þeir mæta Íslendingum í undankeppni Evrópumótsins í Plzen á sunnudaginn. Hann býst við mjög erfiðum leik gegn Íslendingum en þjóðirnar hafa báðar komið mjög á óvart og hafa unnið alla þrjá leiki sína í riðlinum.

„Íslenska liðið er mjög vel skipulagt. Það er sterkt og þeirra helsta vopn er liðsvinnan. Leikmenn leggja að hart að sér fyrir liðið, ekki bara í vörninni heldur í sóknarleiknum líka,“ sagði Cech við fréttamenn fyrir æfingu tékkneska landsliðsins í Prag í gær.

Cech er skærasta stjarna Tékkana en þessi tæplega 2 metra hái markvörður leikur á sunnudaginn sinn 112. landsleik.

Hollandssigur hjálpaði

„Ólíkt öllum spám þá unnum við sigur á Hollendingum og sá sigur gaf okkur byr undir báða vængi sem nýttist í leikjunum á móti Tyrklandi og Kasakstan,“ sagði Cech, sem á þessu tímabili hefur mátt sætta sig við að vera markvörður númer tvö hjá Chelsea á eftir Belganum Thibaut Courtois, sem varði mark Belganna gegn Íslendingum í gærkvöld. gummih@mbl.is