Oddur lyfsali fæddist á Akureyri 13.11. 1929 og ólst þar upp. Hann var af þekktustu apótekaraætt landsins.

Oddur lyfsali fæddist á Akureyri 13.11. 1929 og ólst þar upp. Hann var af þekktustu apótekaraætt landsins. Foreldrar hans voru Oddur Carl Thorarensen, apótekari á Akureyri, og Gunnlaug, húsfreyja á Akureyri, dóttir Júlíusar Gunnlaugssonar, bónda á Hvassafelli, og Hólmfríðar Árnadóttur, húsfreyju þar.

Oddur Carl eldri var bróðir Stefáns Thorarensen, stofnanda og apótekara í Laugavegs Apóteki í Reykjavík, föður Odds Carls S. Thorarensen, apótekara í Laugavegs Apóteki og framkvæmdastjóra Efnagerðar Reykjavíkur.

Faðir Odds Carls eldri og Stefáns var Oddur Carl Thorarensen, apótekari á Akureyri, sonur Stefáns Thorarensen, sýslumanns og bæjarfógeta á Akureyri, sem var sonur Odds Thorarensen, lyfsala í Nesi við Seltjörn og á Akureyri, og Sólveigar Bogadóttur.

Eiginkona Odds Carls yngsta var Margrét Ingólfsdóttir Thorarensen sem lést 1986 og eignuðust þau fimm börn.

Oddur lauk stúdentsprófi frá MA 1950, stundaði nám við Lyfjafræðingaskóla Íslands 1950-54 og var í verknámi í Akureyrarapóteki og í Laugavegs Apóteki, stundaði nám við Oxford Allé Apotek í Kaupmannahöfn 1954-56, lauk exam. pharm.-prófi við Danmarks farmaceutiske Højskole 1956 og cand. pharm.-prófi þaðan 1960.

Oddur var lyfjafræðngur í Akureyrar Apóteki 1960-63 og apótekari þar frá 1963.

Oddur sat í stjórn Apótekarafélags dreifbýlisins frá stofnun þess og þar til það var lagt niður 1973, var skipaður í lyfjamálanefnd af heilbrigðisráðherra til að skipuleggja heilbrigðismál 1971, var framkvæmdastjóri og stjórnarformaður ýmissa fyrirtækja á Akureyri um árabil, þ.ám. formaður stjórnar Almennu tollvörugeymslunnar hf., Sparisjóðs Akureyrar og Arnarneshrepps og Fasteignafélagsins Valhallar hf.

Oddur lést 10.1. 1992.