Verkefnisstjórn ríkisstjórnarinnar og embætti Ríkisskattstjóra stóðu sig vel

Aðgerðin sem kennd hefur verið við leiðréttingu eða forsendubrest heppnaðist vel. Umræða um réttlætingu aðgerðarinnar hafði farið fram og tekist á um hana, eins og vera ber og þeir sem höfðu hið lýðræðislega umboð réðu niðurstöðunni. Því var hugmyndafræðin og rökstuðningur aðgerðarinnar að baki, en spurningar voru um framkvæmdina.

Slíka sögu þekkjum við annars staðar frá. Lengi hefur verið deilt um heilbrigðisþjónustu í Bandaríkjunum, en það ríki ver hlutfallslega meiri fjármunum til hennar en flest önnur ríki. Horft frá íslensku sjónarhorni hefur umgjörðin um hina miklu heilbrigðisþjónustu þótt hafa annmarka. Vafalaust er, að fá má betri þjónustu í veikindum sínum þar vestra en víðast annars staðar. En þá þurfa „tryggingarnar að vera í lagi“ og mikla fjármuni þarf til að standa undir þeim. Margir Bandaríkjamenn eru því illa tryggðir, þótt almenn lágmarksþjónusta sé veitt. Sú er þó fjarri því að vera fullnægjandi.

Norrænu velferðarkerfin, og ekki síst heilbrigðisþjónustan, taka einnig til sín mikið fé og hún gerir ekki mannamun. Þessi þjónusta er í öllum meginatriðum mjög góð og stundum frábær, þar með talin hin íslenska, þrátt fyrir barlóm, sem stundum gengur úr hófi. Í afmörkuðum tilvikum tekst sjálfsagt ekki að veita þjónustu á borð við þá sem dýrustu tryggingar vestra geta tryggt, en um það er ekki að fást. Hin almenna þjónusta gerir meira en bæta það upp.

Obama forseti lofaði að sníða verstu annmarkana af heilbrigðisþjónustunni vestra og steig fyrstu skrefin í þá átt á meðan hann hafði traustan meirihluta á löggjafarsamkundunni. En þótt vafalítið sé að fjölmargt í ákvörðunum hans stefni í rétta átt var undirbúningurinn lélegur. Lögin voru þvælin og illa samin. Opinberar heimasíður sem hrinda áttu verkefninu áfram hrundu hver af annarri og hleyptu illu blóði í almenning. Löggjöfin, sem átti að verða kórónan á ferli forsetans, spillti því fyrir flokki hans í kosningum fyrr í mánuðinum.

Íslenska leiðréttingaraðgerðin var algjör andstæða þessa. Hún var skýr og vel undirbúin. Embætti Ríkisskattstjóra og starfsmenn þess framkvæmdu flókið stórvirkið fumlaust og skipulega og eiga hrós skilið.