Ingjaldur Hannibalsson fæddist í Reykjavík 17.11. 1951. Hann lést á heimili sínu í Reykjavík 27. október 2014.
Foreldrar hans voru Hólmfríður Ingjaldsdóttir, kennari, og Hannibal Valdimarsson, alþingismaður og síðar ráðherra. Hann var einkabarn móður sinnar. Hann ólst upp í vesturbæ Reykjavíkur, gekk í Melaskóla, Hagaskóla og Menntaskólann í Reykjavík. Ingjaldur lauk stúdentsprófi 1971 með ágætiseinkunn, prófi í eðlisfræði og stærðfræði frá HÍ 1974, M.Sc.-prófi 1975 og Ph.D.-prófi 1978 í iðnaðarverkfræði frá Ohio State University en ritgerð hans fjallaði um loðnuveiðar; „Optimal allocation of boats to factories during the capelin season in Iceland“. Ingjaldur starfaði á áttunda áratugunum sem stundakennari við MR. Hann starfaði sem aðastoðarkennari og við rannsóknir meðan á dvöl hans við Ohio State University stóð.
Ungur að árum vann Ingjaldur í farskrárdeild Flugleiða. Að námi loknu varð hann deildarstjóri tæknideildar Félags íslenskra iðnrekenda. Árið 1978 hóf Ingjaldur stundakennslu við Háskóla Íslands og varð fastráðinn dósent árið 1982 í hlutastarfi. Á níunda áratugnum var hann forstjóri Iðntæknistofnunar, forstjóri Álafoss og framkvæmdastjóri Útflutningsráðs Íslands. Árið 1993 varð hann dósent í fullu starfi við Háskóla Íslands og varð prófessor við skólann í Viðskipta- og hagfræðideild árið 1997.
Eftir Ingjald liggja fjölmargar greinar og erindi á fræðisviði hans, svo og um fjármál, skipulag og rekstur háskóla.
Ingjaldur sinnti fjölmörgum trúnaðarstörfum innan Háskóla Íslands og var m.a. formaður viðskiptaskorar 1994-1996 og 2006-2007, deildarforseti Viðskipta- og hagfræðideildar 2007-2008 og deildarforseti Viðskiptafræðideildar 2008-2014. Hann var formaður stjórnar Reykjavíkurapóteks 1996-1999 og fulltrúi í fjármálanefnd háskólaráðs Háskóla Íslands frá 1996 og varð formaður nefndarinnar 1997. Þá sat hann í stjórn Rannsóknaþjónustu Háskóla Íslands frá 1996 og var formaður hennar 1996-1999, í stjórn Endurmenntunarstofnunar Háskóla Íslands 1997-2001 og formaður stjórnar Tækniþróunar hf. Frá árinu 1998 sat hann í stjórn Tungumálamiðstöðvar Háskóla Íslands og frá 1999 í stjórn Reiknistofnunar Háskólans. Hann var framkvæmdastjóri rekstrar- og framkvæmdasviðs Háskóla Íslands 2001-2003. Hann var mikilvirkur í húsnæðismálum Háskólans og sat í skipulags- og húsnæðisnefnd 2001-2003, var m.a. í byggingarnefndum um Öskju og Háskólatorg þar sem hann var formaður. Þá var hann í nefnd um byggingu fyrir Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum og sat í stjórn Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. frá árinu 2005. Hann var formaður skipulagsnefndar háskólaráðs frá 2007. Hann sat í stjórnum annarra fyrirtækja og stofnana, ráðgjafanefndum og faglegum dómnefndum.
Ingjaldur hlaut viðurkenningu Háskóla Íslands árið 2003 fyrir lofsvert framlag til stjórnunar rekstrar og framkvæmda við Háskólann.
Ingjaldur hafði unun af tónlist og var heimshornaflakkari. Hann hafði nýlokið því markmiði sínu að heimsækja öll 193 þátttökulönd Sameinuðu þjóðanna, verkefni sem tók hann 49 ár en síðustu 63 löndin heimsótti hann á síðustu tíu árum.
Ingjaldur sagði frá ferðum sínum í viðtölum við Morgunblaðið og í útvarpsþáttum sumar.
Útför Ingjalds fer fram frá Hallgrímskirkju í dag, 13. nóvember 2014, og hefst athöfnin kl. 15.
„Mér finnst fólk alls staðar eins, fólkið er gott. Ef maður er kurteis og brosandi þá fær maður aðstoð og fólk er vingjarnlegt á móti.“ Þetta var niðurstaða Ingjalds Hannibalssonar eftir að hann hafði heimsótt öll 193 lönd Sameinuðu þjóðanna. Ingjaldur fór ekki blindandi í þessi ferðalög, hann kynnti sér sögu landanna sem hann heimsótti, menningu og atvinnusögu og hann bar virðingu fyrir fólki sem tilheyrði öðrum kynþáttum og aðhylltust önnur trúarbrögð en hans eigin. Hann setti sig gjarnan í samband við fólk sem bjó í löndunum og öðlaðist þannig dýpri þekkingu og innsýn í lífið í viðkomandi landi en gerist og gengur. Hann hafði stórar hugmyndir um að sameina yfirgripsmikla þekkingu sína á háskólarekstri og þekkingu á heiminum til að byggja upp háskólamenntun í þriðja heiminum. Af því verður ekki, bókin sem hann ætlaði að skrifa um ferðalögin verður heldur aldrei skrifuð.
Ingjaldur lifði viðburðaríku lífi, hann kryddaði ferðalög sín til framandi landa með viðkomu á tónlistar- og óperuhátíðum í Evrópu og Bandaríkjunum, hann var sem sagt óforbetranlegur óperuunnandi. Óperusýningarnar sem hann hefur séð um ævina skipta hundruðum ef ekki þúsundum. Hann fór gjarnan í ferðir til New York og annarra heimsborga og kom þá heim eftir langa helgi hæstánægður, búinn að sjá fjórar óperur, fara á eina tónleika og sjá tvö leikrit. Þegar hann var á Íslandi stundaði hann tónleika og leikhús í frítíma sínum, sá flestar leiksýningar sem boðið var upp á í leikhúsum höfuðborgarinnar og sá auðvitað allar óperusýningar sem hér hafa ratað á svið. Ingjaldur var eigið Wagnerfélag og hafði einhver ráð með að útvega annars torfengna miða á óperusýningar í Bayreuth og nutum við góðs af því.
Tónlistaráhugann fékk Ingjaldur í æsku, en hann minntist oft á tónleika, óperur og söngleiki sem hann hafði séð í bernsku með móður sinni. Ingjaldur lærði að spila á píanó og átti alla tíð hljóðfæri.
Þó að Ingjaldur kæmi víða við í atvinnulífinu var Háskóli Íslands sá vinnustaður sem hann helgaði lengst af starfskrafta sína. Hann bar skólann einlæglega fyrir brjósti og var óþreytandi í margvíslegum og óeigingjörnum störfum sínum fyrir skólann.
Ingjaldur var góðum gáfum gæddur, hann var afburðanámsmaður og hafði mikla þekkingu á mörgum sviðum. Hann lá ekki á skoðunum sínum og oft spruttu upp heitar rökræður í kringum Ingjald, það var alltaf skemmtilegt og uppbyggjandi.
Ingjaldur hafði hjarta úr gulli og vildi öllum vel.
Ingjaldur hefur verið hluti af lífi okkar og fjölskyldu okkar í áratugi. Minningin um hann tengist ekki síst stórhátíðum og merkisdögum í lífi okkar og hans. Við vorum viðstödd hátíðahöldin í Columbus, þegar Ingjaldur útskrifaðist með doktorspróf, en þá bauð hann fjölda manns á indónesískan veitingastað. Þá þegar var tilkominn áhugi hans á framandi menningu og mat og höfðingsskapur hans orðinn augljós. Eftir að móðir Ingjalds lést hefur hann verið með okkur á jólum og um áramót, oftast á heimili okkar en einnig erlendis.
Hans verður sárt saknað sem hluta af fjölskyldunni.
Karólína Eiríksdóttir,
Þorsteinn Hannesson.
Ýmsum þótti slík nálgun á vandamál hins daglega lífs dálítil einföldun. Á sama hátt taldi Ingjaldur að markviss gæðastjórnun í fiskiðnaði gæti skilað greininni verulegum verðmætum. Víst er að stjórnun var Ingjaldi hugleikin, stjórnun þar sem hámörkun var höfð að leiðarljósi. Sjónarmið Ingjalds hafa náð fram að ganga, ef til vill vegna þrotlausrar kennslu Ingjalds.
Það var svo fyrir 16 árum að leiðir okkar Ingjalds lágu saman á starfsvettvangi. Lengstan þann tíma var Ingjaldur deildarforseti Viðskiptafræðideildar ellegar skorarformaður. Það var gott að vinna undir stjórn Ingjalds, hann var þægilegur og sanngjarn yfirmaður, afskiptalaus ef hann treysti fólki, og studdi fólk til góðra verka. Hann ætlaðist til þess að nemendur ynnu fyrir einkunnum. Við göntumst með það hvor ætti stærri skúffu á „kvörtunarskrifstofu“ Stúdentaráðs.
Það má með sanni segja, að eftir að Ingjaldur réðst til fullra starfa hjá Háskóla Íslands, að hann hafi helgað skólanum alla sína krafta. Ekki aðeins í þágu deildar, heldur ekki síður húsbyggingum og fjármálum skólans. Hann var vel að sér um fjárhagslega uppbyggingu háskóla um víða veröld og ekki síður um útfærslur bygginga.
Stundum velti ég fyrir mér hvort Ingjaldur hafi komið í úthverfi borgarinnar, sem hann bjó í og starfaði, þessi víðförli maður. Heimsborgarinn var miðborgarmaður og vesturbæingur. Þrátt fyrir drjúg störf sín fyrir Háskólann átti Ingjaldur sér áhugamál. Ungur að árum vann hann í farskrárdeild Flugleiða hf. Þar velti hann fyrir sér hámörkun tekna, eins og nútíma farskrárkerfi gera, en hann lærði líka að nýta sér þekkingu á fargjöldum í þágu áhugamáls síns.
Ingjaldur náði að ljúka við að heimsækja öll lönd hinna Sameinuðu þjóða á síðasta sumri, 193 að tölu, sennilega víðförlasti Íslendingur fyrr og síðar. Annað áhugamál átti Ingjaldur. Það var tónlist. Hann var tíður gestur í tónleikahúsum og leikhúsum víða um heim. Á ferðalögum sínum munaði Ingjald ekki um að sjá og heyra 2-3 viðburði á dag. Hver stund nýtt til fulls. Ingjaldur var um margt gæfumaður. Hann var heimsborgari, en þó einstæðingur og Íslendingur. Ef hann hefði verið fjölskyldumaður, hefðu skyldur verið aðrar og minna um ferðalög. Að leiðarlokum þakka ég Ingjaldi ágæt kynni og samstarf í full 40 ár. Hann varð áhrifavaldur í lífi mínu og fyrir það kann ég honum þakkir. Far þú vel, kæri vinur. Guð geymi og varðveiti minningu um góðan dreng. Minningin heiðrast í vitund þinni.
Vilhjálmur Bjarnason.
Á þessum árum unnum við Ingjaldur oft náið saman og ég kynntist honum vel og urðum við góðir vinir. Hann var um margt sérstakur og er öllum eftirminnilegur sem kynntumst honum eða áttu við hann samskipti þótt í smáu væru. Hreinn og beinn á velli og í framgöngu, einlægur og laus við fordóma. Ingjaldur naut samveru við fólk, var mikill listunnandi og ódeigur í félagsmálum tengdum tónlist. Hann lét sig sjaldan vanta á samkomur innan háskólans og var virkur þátttakandi í ráðstefnum og fundum. Hlýr og góður maður, en samt ávallt einn með sjálfum sér.
Ingjaldur bar hag Háskóla Íslands mjög fyrir brjósti og var háskólinn hans annað heimili. Og hann setti sannarlega svip sinn á staðinn. Öll verk vann hann af elju og samviskusemi, var í senn vandvirkur og vinnusamur og með afbrigðum nákvæmur. Og jafnlyndur var hann og lagði ekki illt orð til nokkurs manns. Þegar litið er til baka er af fjölmörgu að taka. Ég minnist þess að Páll Skúlason, þáverandi rektor, fól okkur Ingjaldi að fara yfir og endurskoða niðurröðun í Náttúrufræðahús áður en hafist var handa við að ljúka þeirri byggingu og sömuleiðis að fara yfir húsnæðisþarfir einstakra deilda í aðdraganda þess að ákvörðun var tekin um byggingu Háskólatorgs og Gimlis. Við áttum ótal fundi með starfsfólki og fyrir kom að skoðanir voru skiptar og sýndist sitt hverjum, en ætíð nálgaðist Ingjaldur viðfangsefnin af fagmennsku, lipurð og stillingu. Og hann var fastur fyrir, ef því var að skipta, en á rökstuddum grunni og með jafnaðargeði. Ég er samt ekki frá því að stundum hafi hann tekið málin inn á sig þótt aldrei hefði hann orð á því eða léti það trufla sig.
Mjög gott orð fór af Ingjaldi sem kennara og umsagnir nemenda á einn veg; sanngjarn kennari og vel skipulagður sem gerði sér far um að þekkja nemendur og virkja þá til þátttöku í umræðum um námsefnið.
Ingjaldur ferðaðist víðar um veröldina en nokkur annar Íslendingur hefur gert. Hann hafði í sumar er leið heimsótt öll lönd sem aðild eiga að Sameinuðu þjóðunum, en löndunum hafði fjölgað nokkuð frá því hann lagði fyrst upp í ferðina fyrir 40 árum eða svo – og ég er ekki frá því að hin seinni árin hafi hann gert nokkurt átak í því að loka hringnum. Fyrir lá hjá Ingjaldi að taka þetta ævintýri saman er hann lauk lífsferð sinni skyndilega laugardaginn 25. október sl. okkur öllum að óvörum.
Við Systa munum sakna Ingjalds og erum einkar þakklát fyrir að hafa eignast vináttu hans. Hvort sem var í starfi eða einkalífi var hann einstaklega ljúfur og góður maður með hárfína kímnigáfu. Við kveðjum góðan vin og samstarfsmann og vottum ættingjum hans og vinum okkar dýpstu samúð.
Þórður Kristinsson.
Ingjaldur hafði þá nýlega sótt þekkingu á gæðahringum beint til Japans, enda var það skoðun hans að tungumálakunnátta og það að nota hana til að skoða heiminn og sækja þekkingu væri eitt það mikilvægasta sem við gætum gert í lífinu. Þegar ég leitaði til Ingjalds á háskólaárunum voru ráðleggingar hans skýrar, það skipti mestu máli að vera talandi og skrifandi á erlendu tungumáli. Ég tók ráðleggingar hans alvarlega, herti upp hugann og fór í skiptinám til Írlands og lærði þar að tala og skrifa ensku, sem hefur skipt sköpum í námi og starfi.
Sjálfur sagði Ingjaldur að hann hefði lært af ferðalögunum að brosið skipti mestu máli, bros væri alþjóðlegt tungumál. Ingjaldur notaði brosið þó ekki aðeins á ferðalögum og í tungumálaerfiðleikum. Bros og jákvæðni fylgdi honum líka í starfi. Hann var alltaf boðinn og búinn að aðstoða, bæði okkur samstarfsmenn sína og nemendur. Það þýddi þó ekki að hann gerði ekki kröfur, hann ætlaðist til þess að við mættum undirbúin til náms og starfa. En hann var til staðar ef eitthvað raunverulega bjátaði á og það tók verulega á hann ef hann af einhverjum ástæðum ekki gat orðið að liði. Ég naut þessa stuðnings bæði í veikindum á síðasta ári, en ekki síður óbeint þegar grunnskólanám mitt brotlenti. Þá studdi hann móður mína í baráttunni við grunnskólann með þeim orðum að ég ætti að sjálfsögðu rétt á menntun og að hún yrði bara að halda áfram að berjast fyrir þeim rétti. Í huga Ingjalds var það ekki valmöguleiki að gefast upp.
Það kemur til með að taka langan tíma að venjast því að geta ekki leitað til Ingjalds á skrifstofuna löngu eftir að aðrir eru farnir heim. Að hafa ekki tækifæri til þess að þakka honum í persónu fyrir þau áhrif sem hann hafði á námsframvindu mína sem svo auðveldlega hefði getað farið út af sporinu ef ég hefði ekki fengið stuðning og í því ljósi er ég sérstaklega þakklát fyrir að menntun mín skyldi á endanum leiða mig til starfa hjá Viðskiptafræðideild, undir stjórn Ingjalds Hannibalssonar.
Margrét Sigrún
Sigurðardóttir.
Við eigum ekki margar myndir af þér hér heima en það kemur ekki að sök því að í huga okkar eigum við kærar minningar sem auðvelt er að kalla fram. Stundum er þar kersknisblik í augum þínum, stundum ákveðni eða jafnvel þrjóska en alltaf þessi einlægni sem prýddi þig alla tíð.
Minningarnar birtast okkur jafnskýrar sem ljósmyndir; úr MR og skólalífinu þar, frá heimsóknum á Melabrautina og svo síðar Tjarnarmýri til vin- og samstarfskonu þinnar Huldu, mömmu Auðar. Smávandræðin við laufabrauðsgerðina á Melabrautinni þar sem þú þurftir að sjá borðmunstrið í gegnum kökurnar og svo stundin sem þú hjálpaðir Auði við að velja tónlist í jarðarför Huldu.
Myndirnar eru líka margar frá samstarfi ykkar Helga; frá fundunum á Iðntæknistofnun, þú að keyra á saabinum í misgóðu skyggni, andlit erlendu gestanna þar sem þú sem gestgjafinn sást til þess að þeir „fengju“ örugglega að smakka hákarl og brennivín, fundirnir í Ferðamálasetri Íslands þar sem þú varst sjórnarformaður, hressi ráðstefnustjórinn á hátíðarkvöldverði á KEA, spekúlantinn í gamla herberginu þínu í Odda og spjallið um samstarfið milli viðskiptadeilda HÍ og HA.
Hjartfólgnustu minningar okkar um þig eru samt héðan af Möðruvallastrætinu. Þú lengdir gjarnan ferðir þínar hingað norður til þess að ná að sitja með okkur hjónum seinnipart dags og borða með okkur kvöldmat. Kínverski Moutai-snafsinn sem Helgi fékk gefins frá kínverku samstarfsfólki var þá dreginn fram og þú fékkst þér einn og svo var sest yfir bjór eða léttvín og spjallað. Þú sagðir okkur frá heimsferðum þínum, skipulagi næstu áfanga og óperuferðum. Rætt var um HÍ, háskólatorg og viðskiptafræði. Svo var spjallað og spjallað þar til tími var kominn til að ná síðustu vél suður aftur. Stundum þegar svo bar við hjá okkur þá bárum við undir þig mikilvæg málefni og alltaf gátum við reitt okkur á að þú ráðlegðir okkur af heilindum.
Líf þitt var á svo margan hátt sérstakt. Þú virtist geta skipt því upp í mismunandi reiti þar sem þú gast farið á milli og fundið gleði í hverjum fleti án þess að flétta þá of mikið saman. Deildarformennskan, kennslan, rannsóknir, háskólinn og umhyggjan fyrir viðskiptafræðináminu fóru í einn reitinn, ferðirnar, menningin, vinirnir hér og vinirnir þar í aðra. Öllu þessu sinntir þú af krafti og einurð en alltaf á þeim tíma sem þú taldir henta. Þú hafðir einmitt náð að ljúka heimsferðalagi þínu og varst byrjaður að skipuleggja það að minnka við þig vinnuna með það fyrir augum að skrifa heimsferðasögu þína þegar kallið kom svo óvænt. Og þá tók við hjá þér enn eitt ferðalagið á áður óþekktan stað. Við kveðjum þig vinur.
Auður Eir Guðmunds-
dóttir og Helgi Gestsson.
Kveðja frá Háskóla Íslands
Starfsfólk og stúdentar við Háskóla Íslands kveðja í dag kæran samstarfsmann, kennara og vin. Framlag Ingjalds Hannibalssonar til Háskóla Íslands var afar margbrotið.Ég átti því láni að fagna að kynnast Ingjaldi í gegnum mörg verkefni. Þeirra stærst var bygging Háskólatorgs, sem hýsir þjónustueiningar fyrir stúdenta og er miðstöð starfsfólks og stúdenta, og Gimli, sem hýsir starfsemi félagsvísinda- og hugvísindasviða. Ingjaldur var formaður bygginganefndar og vann þrekvirki. Hann lá yfir öllum teikningum, samningum og fjármálum af mikilli nákvæmni og velti fyrir sér hverju smáatriði í innréttingum. Ingjaldur átti að öðrum ólöstuðum mestan þátt í að framsýn hugmynd Páls Skúlasonar, fyrrverandi rektors, um Háskólatorg sem hjarta háskólasamfélagsins varð að veruleika með fjárhagslegum tilstyrk Háskólasjóðs Eimskipafélagsins og Happdrættis Háskóla Íslands. Í dag er erfitt að ímynda sér háskólalífið án Háskólatorgs.
Síðustu ár voru trúnaðarstörf Ingjalds fyrir skólann einkum tengd skipulags- og byggingamálum. Hann var formaður skipulagsnefndar og í bygginganefnd vegna nýbyggingar fyrir Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum. Þá tók hann þátt í þarfagreiningu vegna nýs húsnæðis Heilbrigðisvísindasviðs sem fyrirhugað er á spítalalóðinni og einnig þarfagreiningu fyrir Menntavísindasvið. Áhrifa Ingjalds mun þannig gæta í mörgum framtíðarverkefnum.
Ég kynntist Ingjaldi fyrst 1993 vegna skipulagningar húsnæðis fyrir Lyfjafræðideildina í Haga. Síðar lágu leiðir okkar saman í stjórn Reykjavíkurapóteks og í fjármálanefnd háskólans en hann var formaður beggja nefnda. Á þessum tíma var Reykjavíkurapótek í eigu Háskóla Íslands, en þar fengu stúdentar þjálfun í lyfjaframleiðslu sem fór fram á 4. hæðinni við Austurstræti 16. Í þessu verkefni, eins og öðrum, setti Ingjaldur sig vel inn í alla faglega þætti og þarfir skólans, og jafnframt þær breytingar sem voru að verða á rekstri apóteka og lyfjaframleiðslu í landinu.
Nú er skarð fyrir skildi. Horfinn er á braut maður sem lagði mikið af mörkum og setti svip á umhverfið með rösku göngulagi, alltaf að flýta sér á leið til næsta verks, og óstýrilátum hármakka. Eitt sinn gaf ég honum kínverska greiðu úr uxahorni og sandalviði en hún dugði skammt til að temja víðförult hárið.
Ingjaldur var sérlega greiðvikinn og ávallt fús að miðla af fróðleik og reynslu. Hann var gjafmildur, og færði okkur á rektorsskrifstofu iðulega gæðakonfekt eftir utanlandsferðir. Hann var vinsæll kennari og naut virðingar stúdenta. Ég veit að MBA-nemendur höfðu hlakkað sérstaklega til að fara undir fararstjórn hans til Kína næsta vor. Ingjaldur gat verið harður samningamaður en undir niðri sló viðkvæmt og næmt hjarta. Ingjaldur Hannibalsson bar ekki tilfinningar utan á sér.
Fyrir hönd Háskóla Íslands þakka ég Ingjaldi ósérhlífni, metnað og tryggð í störfum fyrir skólann. Ég þakka honum jafnframt dýrmæta samfylgd og elskulega. Hans verður sárt saknað.
Kristín Ingólfsdóttir.
„Dáinn, horfinn“, harmafregn!
Hvílíkt orð mig dynur yfir!
(Jónas Hallgrímsson)
Skyndilegt andlát Ingjalds Hannibalssonar skellur eins og bylmingshögg á vini hans og vandamenn, samstarfsfólk og nemendur, og á Háskóla Íslands allan. Ingjaldur hefur um árabil verið einn af burðarstólpum háskólans. Hann var í fullu fjöri, nýbúinn að leggja heiminn að fótum sér með heimsókn til allra landa Sameinuðu þjóðanna, tilbúinn að takast á við ný verkefni og ævintýri. Eitt þeirra var að skrifa bók um ferðir sínar byggða á myndum sem hann tók hvarvetna sem hann fór. Þótt fráfall hans sé sorglegra en tárum taki, þá geta vinir hans og vandamenn huggað sig við tvennt. Ingjaldur var góður maður, gegnheill og traustur með einstaklega jákvæða lífsafstöðu. Fólk er eins í öllum löndum, sagði hann, og fólk er gott. Og Ingjaldur skilur eftir sig mikið og gott ævistarf, þótt hann hafi enn átt ólokið við margt. Sjálfur naut ég þess að eiga Ingjald að nánum samstarfsmanni í átta ár sem rektor háskólans. Hann var stoð mín og stytta í öllu sem laut að fjármálum. Ég hefði ekki getað hugsað mér betri starfsfélaga. Ingjaldur var mörgum kostum búinn; ég nefni þrjá: Hann var afburða skýr og góður kennari og þessi kostur naut sín sannarlega þegar flókin fjármál háskólans voru annars vegar. Hann var keppnismaður og vildi sífellt ná meiri árangri; honum var ekki í mun að skara fram úr öðrum heldur að gera betur. Hann var ósérhlífinn og öðrum til fyrirmyndar í öllu samstarfi. Þriðji kosturinn sem ég vil nefna voru heilindi hans í öllum samskiptum. Honum mátti treysta á hverju sem gekk. Hann bar hag háskólans sem einnar heildar fyrir brjósti og lét aldrei sérhagsmuni villa sér sýn á það sem mestu skipti. Hann yfirvegaði skoðanir sínar og breytti þeim ef hann uppgötvaði rök til þess eða sá hlutina í nýju ljósi. Þegar við fórum að vinna saman hafði hann efasemdir um að háskólatorg væri skynsamleg hugmynd. En svo sá hann hvílík breyting gæti orðið á háskólanum við slíka byggingu og varð allra manna áhugasamastur um hana. Hann stýrði undirbúningi og framkvæmdum við Háskólatorgið sem tókust einstaklega vel og sköpuðu nýjar forsendur fyrir tengslum fólks og samskiptum. Ingjaldur hafði afar þægilega og góða nærveru og hafði unun af því að vera í góðum félagsskap. Hann naut líka óskiptrar virðingar, sennilega í mun ríkari mæli en honum sjálfum var ljóst. Hann var hógvær en með heilbrigðan metnað til að láta gott af sér leiða í lífinu. Það tókst honum svo sannarlega. Ég votta vinum hans, aðstandendum, samstarfsfólki og nemendum dýpstu samúð.
Flýt þér, vinur, í fegri heim.
Krjúptu að fótum friðarboðans
og fljúgðu á vængjum morgunroðans
meira að starfa guðs um geim.
(Jónas Hallgrímsson)
Páll Skúlason.
Ingjaldur var drengur góður, skarpgreindur og vandaður til orðs og æðis. Hann unni fögrum listum, ekki síst tónlist, og nærði hugann með því að hverfa inn í heim lista og menningar, hvenær sem tækifæri gafst. Hann lá ekki á skoðunum sínum og var þá í senn hreinskiptinn og skemmtilegur húmoristi.
Fáir áttuðu sig betur á því en Ingjaldur, hve mikilvæg tungumálakunnátta og menningarþekking er fámennri þjóð, sem á heill sína og hagsæld undir farsælum samskiptum við umheiminn. Ingjaldur Hannibalsson var víðsýnn maður og heimsborgari af bestu gerð. Hann stundaði doktorsnám í Bandaríkjunum, fór fyrir Útflutningsráði, og var víðförulli en nokkur annar Íslendingur. Sem framkvæmdastjóri Útflutningsráðs sinnti hann landkynningu, þar sem hann þurfti að átta sig á hvað við hefðum að gefa og færa öðrum þjóðum í menningu og viðskiptum. Alþjóðleg reynsla sýndi svo ekki varð um villst að vits er þörf þeim er víða ratar, og að ein mikilvægasta forsenda jákvæðra samskipta og árangurs í margbrotnum og ögrandi heimi er að búa yfir nægri þekkingu og innsæi til að geta nálgast viðmælanda sinn á hans forsendum. Af þessum sökum var Ingjaldi mikið í mun að stúdentar í öllum fræðigreinum ættu þess kost að tileinka sér erlend tungumál og læra um menningu annarra þjóða, svo þeir gætu hver á sínu sviði náð þeim árangri sem þeir stefndu að og aukið um leið hróður sinn og Íslands um víða veröld.
Ingjaldur hafði áhuga á nýbreytni í vísindum og atvinnulífi, og sá tækifæri í því að fræðaheimur og atvinnulíf leiddu saman hesta sína. Hann vildi veg Háskóla Íslands og alls vísindastarfs í landinu sem mestan, og hann hvatti nemendur og aðra, sem sýndu frumleika og áræði, til að fara ótroðnar slóðir. Ingjaldur áttaði sig einnig á því, hve miklu skiptir að háskólinn sé frjótt og gjöfult samfélag, þar sem nemendur og kennarar blanda geði og skiptast á skoðunum. Háskólatorg var liður í því að skapa þann vettvang.
Ingjaldur kom strax auga á þau tækifæri sem felast í Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur. Hann hafði mikinn metnað fyrir hönd stofnunarinnar og studdi okkur með ráðum og dáð, m.a. í nefnd um nýbyggingu fyrir stofnunina.
Það er bágt að þurfa að sætta sig við að Ingjaldur okkar sé horfinn sjónum, það er mikill missir, sem stöðugt leitar á hugann. Megi minningin um framlag hans og mannkosti lifa, og verða öðrum fyrirmynd.
Vigdís Finnbogadóttir,
Auður Hauksdóttir
og samstarfsfólk.
Ingjaldur var einn af leiðtogunum á hæðinni. Hann var okkar eini Íslendingur, en hann gegndi mörgum hlutverkum. Hann kynnti mörg okkar fyrir klassíski tónlist og leiddi okkur inn í undraheim Bose-hljómflutningstækjanna. En þegar hávaðinn á hæðinni fór fram úr hófi (eins og gerðist á stundum) fór Ingjaldur á stúfana, bankaði á dyrnar og sagði að nú væri tími til lestrar og náms.
Aðalnámsgrein hans var iðnaðarverkfræði en hann hafði ríka hæfileika til allrar greiningar. Þessu var hann alltaf tilbúinn að deila með okkur og ræða. En Ingjaldur hafði líka mikla skipulagshæfileika. Þetta gerði hann að sjálfsögðum leiðtoga þegar við fórum í útilegur og byggðum heilu tjaldborgirnar með hertjöldum sem við fengum að láni.
Ingjaldur gat átt það til að vaka lengi frameftir til að ræða við Þjóðverjana, Mexíkanana og Japanana á níundu hæðinni um ólíkustu málefni svo sem að móta lög um erfðarétt mismunandi landa. Í hita umræðunnar fyllti hann einu sinni stórt glerílát í herbergi mínu af rakkremi svo tarantúlan mín slyppi út, en þetta voru heimkynni hennar. Við fundum hana reyndar nokkrum dögum seinna í herbergi nágranna okkar á hæðinni, Angeliku Plank.
Að lokinni útskrift héldum við sambandi okkar. Á heimshornaflakki sínu kom Ingjaldur nokkrum sinnum til Washington D.C., ýmist einn eða með nemendum sínum. Hann var einnig gestgjafi minn í sex af heimsóknum mínum til Íslands. Þar fræddi hann mig um allt frá íslenska hestinum (ekki smáhestum), eldfjöllum og Bláa lóninu að rauðu kókflutningabílunum á jólum.
Það stóð til að Ingjaldur kæmi aftur, ásamt nemendum sínum, að heimsækja mig við Háskólann í Georgetown í tengslum við námskeið, en hann fór frá okkur áður en til þess kæmi. Ingjaldur var góður maður, náinn vinur og mikilhæfur einstaklingur í háskólasamfélaginu. Hann beitti sér aldrei gegn þeim er minna máttu sín, hann var skapandi, hann gerði alla umgengni ánægjulega. Ég sakna hans nú þegar.
Michael Czinkota,
Washington D.C.
Deildarfólki gafst tækifæri til að þakka honum fyrir þegar hann lét af starfi deildarforseta í lok júní á þessu ári. Það var skömmu áður en hann hélt af stað í sína 10. heimsreisu sem var lokahnykkur í því að heimsækja öll 193 lönd Sameinuðu þjóðanna. Hann lauk ætlunarverki sínu og kom heim í ágúst sl. sem sannkallaður heimsborgari. Okkur gafst við heimkomuna annað tækifæri til að samfagna með honum og fengum að launum ferðasögu sem við seint munum gleyma.
Á þessu haustmisseri var Ingjaldur að kenna þrjú námskeið og undirbúa það fjórða sem byggðist sérstaklega á alþjóðlegum tengslum hans. Námskeiðið verður að hluta kennt erlendis og það hryggir okkur að Ingjaldi skuli ekki hafa auðnast að fylgja því alla leið. Hugur okkar er einnig hjá þeim nemendum sem verða nú að klára námskeiðin án hans leiðsagnar. Þó er ljóst að áhrifa hans mun gæta áfram meðal þess hóps og meðal allra þeirra fjölmörgu nemenda sem hann hefur kennt á sínum langa starfsferli.
Fullbókað er í enn eina ferð til Kína sem Ingjaldur var að skipuleggja fyrir MBA-nemendur. Þessar ferðir eru öllum þeim sem í þær hafa farið mjög eftirminnilegar og eru til vitnis um vandvirkni í vinnubrögðum Ingjalds. Hver stund var skipulögð og dagskráin þétt. Öllu hagað þannig að hver dagur nýttist til fulls. Auk heimsókna til háskóla var farið í fjölmörg fyrirtæki og skoðaðir sögustaðir. Við erum mörg sem eigum góðar minningar úr ferðum sem Ingjaldur skipulagði og fór fyrir.
Hinn 24. október sl. var síðasti vinnudagur Ingjalds. Síðan þá hefur ekki verið ljós í skrifstofunni hans. Við höfum verið svo vön því að hafa hann á þönum innan skólans, ýmist á leið í kennslu eða á fundi, auk þess að hitta nemendur og nemendahópa. Hann var einnig ávallt boðinn og búinn að gefa okkur samstarfsfólkinu góð ráð. Að hann sé horfinn á braut í sína hinstu ferð er mjög óraunverulegt og það er skarð fyrir skildi. Að missa hann svona skyndilega er okkur þungbært.
Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands er ein fjölmennasta deildin í skólanum. Mikið starf hefur verið unnið á síðustu árum og Ingjaldur fór fyrir hópnum. Hann gaf lausan tauminn og tók þátt í gleðinni þegar góðum áföngum var fagnað. Hann stóð hins vegar vaktina fremstur ef þurfti að takast á við erfiðleika og vandamál. Þetta gerði hann með miklu jafnaðargeði og þrautseigju og umfram allt af mikilli gæsku gagnvart öllum sem komu að málum. Allt þetta starf og fórnfýsi þökkum við fyrir og við munum halda vel í minninguna um það sem liðið er.
Við kveðjum Ingjald Hannibalsson með söknuði, blessuð sé minning hans. Aðstandendum og vinafólki sendum við innilegar samúðarkveðjur.
Fyrir hönd Viðskiptafræðideildar Háskóla Íslands,
Runólfur Smári Steinþórsson, deildarforseti.
Í dag kveðjum við Ingjald Hannibalsson, prófessor í viðskiptafræði. Góður félagi er fallinn frá í blóma lífsins og skilur eftir sig skarð sem erfitt verður að fylla.
Ingjaldur var öflugur og góður samstarfsmaður. Hann hóf störf við Háskóla Íslands 1978. Framan af sinnti hann öðrum störfum samhliða en frá 1993 helgaði hann skólanum alfarið krafta sína. Á löngum og farsælum ferli hefur Ingjaldur markað djúp spor í sögu Háskóla Íslands og þeirra fræðigreina sem hann lagði stund á, í kennslu, rannsóknum og annarri uppbyggingu. Langt mál væri að telja öll hans trúnaðarstörf í tengslum við stjórnun, byggingarsögu og uppbyggingu undangenginna áratuga sem standa sem minnisvarði um hans mikla framlag til skólans. Fyrir þau störf erum við innilega þakklát.
Ingjaldur var forseti bæði Viðskipta- og hagfræðideildar og síðar Viðskiptafræðideildar um árabil. Sem stjórnandi var Ingjaldur mikill fagmaður, skipulagður, samviskusamur og afkastamikill og vann öll verk fumlaust og af röggsemi. Hann var alltaf tilbúinn til rökræðna, sanngjarn og hrokalaus.
Við minnumst góðs félaga, glaðlegs og félagslynds sem einstaklega gott var að umgangast og vinna með. Við minnumst yfirvegaðs og jafngeðja samstarfsmanns sem sannarlega var seinþreyttur til vandræða. Við minnumst frábærs kennara sem sinnti nemendum af alúð og gaf rausnarlega af tíma sínum, t.d. til ferðalaga með nemendum. Við minnumst áhugamanns um uppbyggingu og miðlun rannsókna á sviði félagsvísinda, m.a. sem annar af aðalhvatamönnum félagsvísindaráðstefnunnar Þjóðarspegilsins, ásamt Friðriki H. Jónssyni heitnum.
Ingjaldur var mikill heimshornaflakkari og án efa víðförlastur Íslendinga. Hann var afar stoltur þegar hann lauk því mikla ætlunarverki sínu að heimsækja öll aðildarríki Sameinuðu þjóðanna í sumar. Ákveðið hefur verið að koma á fót styrktarsjóði í minningu Ingjalds við Háskóla Íslands. Mun sjóðurinn styrkja nemendur til námsferða.
Samstarfsmenn Ingjalds við Háskóla Íslands minnast Ingjalds með djúpu þakklæti. Hans verður sárt saknað af vinum, samstarfsfólki og nemendum.
Félagsvísindasvið Háskóla Íslands sendir nánustu aðstandendum hans innilegustu samúðarkveðjur.
Fyrir hönd Félagsvísindasviðs,
Daði Már Kristófersson sviðsforseti.
Á þessum tíma fjölgaði starfsmönnum stofnunarinnar talsvert og sértekjur hennar jukust verulega. Áður hafði Ingjaldur unnið hjá Félagi íslenskra iðnrekenda og var þar í forsvari við að innleiða umbætur í rekstri fyrirtækja á sviði framleiðni og gera þau samkeppnishæfari, meðal annars í kjölfar aðlögunar inngöngu Íslands í EFTA. Ingjaldur beitti sér alla tíð fyrir umbótum og innleiddi þær þannig að þær voru samstarfsmönnum hans til heilla og farsældar. Þannig beitti hans sér fyrir mótun og uppbyggingu Útflutningsráðs Íslands sem framkvæmdastjóri og hann var öflugur samstarfsmaður í ýmsum stjórnum og í nefndum á sviði mennta- og atvinnumála samfélagsins. Við Háskóla Íslands var hann frumkvöðull að fjölda viðfangsefna skólanum til framdráttar.
Það var gott og gaman að heyra ummæli um hann frá samstarfsmönnum hans þegar hans var minnst á síðasta Þjóðarspegli Háskóla Íslands um síðustu mánaðamót.
Verkefnaflóran sem hann hafði tekið að sér var með ólíkindum en lýsti vel þeirri atorku sem einkenndi Ingjald alla tíð. Uppbygging sem hann studdi og hafði forgöngu um verður háskólalífinu og íslensku samfélagi til framdráttar um langan tíma. Með þessum fáu orðum viljum við minnast góðs samstarfsmanns og félaga og þakka fyrir framlag hans til þess starfs sem Nýsköpunarmiðstöð Íslands sinnir og hann hafði áhrif á.
Fyrir hönd Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands,
Karl Friðriksson
og Þorsteinn Ingi Sigfússon.
Ingjaldi var falið það verkefni að sameina þær stofnanir sem þjónustuðu atvinnulífið á einn stað og úr varð Iðntæknistofnun. Hlutverk þeirra sem þar hófu samstarf voru ólík, og ekki síður bakgrunnur starfsmanna og sérþekking.
Að óreyndu hefði mátt ætla að skortur á innsýn og misskilningur myndi leiða til árekstra en raunin varð önnur. Þarna varð til starfsvettvangur sem einkenndist af gagnkvæmri virðingu.
Áhersla var lögð á að starfsmenn heimsæktu þau fyrirtæki og stofnanir sem þeim var ætlað að þjóna – og varð sú áhersla forgangsatriði. Iðntæknistofnun varð að þverfaglegu tengslaneti, bæði hér og erlendis. Starfsmenn kynntust aðstæðum á vettvangi og úr varð gagnvirkt samstarf, þar sem ólík menntun og reynsla einstaklinga var metin jafngild. Starfið fólst eins mikið í að kynnast aðstæðum og uppfylla óskir og að veita ráðgjöf og leiðbeina.
Verkefnin voru afar mismunandi. Á Keldnaholti var ákveðið að setja á stofn rannsóknarsetur í líftækni þar sem m.a. var ætlunin að rannsaka eiginleika hitakærra örvera og koma þeim í verð. Á sama stað var þróað vinnuvélanámskeið, útfærðar verklagsreglur fyrir þrif á vinnustöðum, þróun á málningu sem dró úr hættunni á alkalískemmdum. Meira að segja var fenginn sérfræðingur frá Kauphöllinni í London til að fjalla um leikreglur hlutabréfamarkaða. Nýsköpun náði að hans mati til allra þátta atvinnustarfsemi en ekki aðeins til sjálfrar tækninnar, sem þá var hið almenna viðhorf.
Ingjaldur var einarður talsmaður markmiðssetningar og eftirfylgni. Á þessum tíma var viðvarandi verðbólga. Algengt var að stjórnendur opinberra stofnana færu aðeins fram úr fjárhagsáætlunum og drægju þar með úr skaðsemi verðminni krónu fyrir þá sem fjárveitinguna fengu. Hann lagði á hinn bóginn mikið upp úr því að áætlanir væru teknar alvarlega og að eftir þeim væri farið. Nokkuð sem var einkennandi fyrir starfshætti hans alla tíð. Ingjaldur hafði líka mikla trú á mikilvægi menntunar. Ef þeir sem með honum störfuðu áttu eftir að ljúka námi þá var hann tilbúinn til að aðstoða og hliðra til ef þess þurfti með.
Hér hef ég beint athyglinni sérstaklega að samstarfi okkar fyrr á árum í tengslum við Iðntæknistofnum. En atorka, einlægni og skilvirkni eru orð sem lýsa ævistarfi hans öllu, bæði í vinnu og frítíma. Í þau þrjátíu ár sem við höfum þekkst, unnið saman og ekki síst í þeim fjölmörgu ferðum sem við höfum farið saman um heiminn er einlægni og hlýja það sem eftir stendur í minningunni. Hans er sárt saknað.
Örn D. Jónsson.
Ingjaldur var einn nánasti samverkamaður minn í Háskóla Íslands undanfarin ár og áratugi. Sérstaklega var samstarf okkar náið eftir að Félagsvísindasvið Háskóla Íslands var stofnað árið 2008. Auk deilda sem áttu rætur í gömlu Félagsvísindadeild komu lagamenn og viðskipta- og hagfræðingar inn á hið nýja svið. Ég var forseti sviðsins fyrstu fimm árin; í stjórn þess sátu auk þess deildarforsetarnir sex og fulltrúi nemenda. Ingjaldur sat þar sem forseti Viðskiptafræðideildar þennan tíma. Hann var afar þarfur liðsmaður – og raunar var sviðið almennt heppið með deildarforseta. Það var ekki sjálfgefið að nýtt svið – myndað af ólíkum deildum – yrði sterk og jákvæð eining. En það tókst. Ingjaldur átti ekki minnstan þátt í því. Hann var óvenju áhugasamur, hugkvæmur og skipulegur – og barðist vel fyrir sína deild, Félagsvísindasvið og Háskólann allan. Alltaf lagði hann gott til mála. Oftast voru tillögur hans skynsamlegar. Segja má að Ingjaldur hafi helgað líf sitt uppbyggingu Háskóla Íslands.
Við Ágúst Einarsson áttum árangursríkt samstarf við Ingjald um bygginguna á Gimli. Páll Skúlason, þáverandi rektor, beitti sér fyrir byggingu Háskólatorgs. Við félagsvísindamenn lögðum áherslu á að nýtt húsnæði fyrir félagsvísindi yrði byggt samhliða – enda húsnæðisskortur þar mikill. Hugmyndin um að byggja á bílastæðinu við Odda mætti andstöðu: sumir töldu of þétt byggt. Samt varð ofan á að byggja þar og jafnframt að tengja Odda, Gimli, Lögberg og Háskólatorg þannig að innangengt yrði milli allra þessara bygginga. Í upphafi var gert ráð fyrir að Gimli yrði bara tvær hæðir þannig að ekki yrði skyggt á Odda; þegar hæðirnar tvær voru komnar sáu flestir að skynsamlegt væri að bæta þriðju hæðinni við. Ingjaldur var í forystu um þessar framkvæmdir – hann var vakinn og sofinn um hönnun bygginganna – og fjármögnun. Nýju byggingarnar og tengingin milli þeirra ollu straumhvörfum í starfi félagsvísindamanna í HÍ – og raunar skólans alls. Þær urðu sannkallað hjarta Háskólans. Sérstakt áhugamál Ingjalds var seminarstofan G-101 í Gimli: hún byggðist á bestu fyrirmyndum úr fremstu háskólum Bandaríkjanna. Frá upphafi kölluðum við ýmsir hana Ingjaldsstofu – nú fær hún það heiti formlega. Þann virðingarvott á Ingjaldur sannarlega skilinn.
Ingjaldur tók mikinn þátt í félagslífi háskólamanna og var jafnan hrókur alls fagnaðar. Hann var líka mikill áhugamaður um tónlist. Við hjónin hittum hann gjarnan á sinfóníutónleikum og óperusýningum – ekki síst eftir að Harpa reis. Frú Hjördís og Ingjaldur höfðu bæði sótt óperur í öllum helstu óperuhúsum veraldar. Gaman var að hlusta á lærðar og ástríðufullar samræður þeirra um efnið.
Ingjaldur Hannibalsson var ekki bara fyrsta flokks samstarfsmaður. Hann var líka frábær félagi og góður drengur. Hans er sárt saknað – en góð verk og minningar lifa.
Ólafur Þ. Harðarson.
Innan Háskóla Íslands barðist Ingjaldur fyrir því að tungumál væru kennd við deildir og greinar þar sem nám lýtur að alþjóðasamskiptum og viðskiptum því hann taldi að með hæfni í tungumálum öðlaðist fólk menningarlegt innsæi og slíkt væri forsenda farsælla samskipta. Ingjaldur lagði mörg lóð á vogarskálar tungumálanáms og -kennslu við skólann. Hann beitti sér mjög fyrir því að Tungumálamiðstöð Háskóla Íslands varð að veruleika en þar gefst nemendum við allar deildir og starfsmönnum skólans kostur á að stunda nám í tungumálum. Framlag hans til stefnumótunar og starfsemi miðstöðvarinnar verður seint fullþakkað.
Ingjaldur hafði sérstakt dálæti á löndum Asíu, ekki síst Kína sem hann heimsótti fjölmörgum sinnum. Hann var stjórnarformaður Asíuseturs Íslands sem komið var á laggirnar árið 2005 og sat í stjórn Konfúsíusarstofnunarinnar Norðurljósa allt frá stofnun hennar árið 2008. Ingjaldur sýndi kínverskum fræðum ævinlega mikinn stuðning og tók m.a. virkan þátt í samstarfinu við Ningboháskóla um sameiginlega námsgráðu í viðskiptatengdri kínversku sem nú er í bígerð.
Samstarfsfólk Ingjalds, ekki síst við í Deild erlendra tungumála, hefur misst góðan vin, mikilvægan talsmann tungumála, kíminn, hugmyndaríkan og ávallt uppbyggilegan kollega. Hans verður minnst með virðingu og þakklæti.
F.h. samstarfsfólks við Deild erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda við Háskóla Íslands,
Hólmfríður Garðarsdóttir, deildarforseti.
Kveðja frá verkefnastjórn NLSH
Haustið 2009 var skipuð verkefnastjórn um byggingu Nýs Landspítala. Fulltrúi Háskóla Íslands var Ingjaldur Hannibalsson, sem við kveðjum nú hinsta sinni. Helsta verkefni þessa verkefnahóps, sem Ingjaldur starfaði með, var að skilgreina og framkvæma forval og samkeppnisgögn að forhönnunar- og deiliskipulagssamkeppni vegna byggingar Nýs Landspítala við Hringbraut. Kom strax vel í ljós reynsla Ingjalds af öðrum byggingarverkefnum á háskólasvæðinu, en mikilvægt var að taka ákvörðun strax á frumstigum hvort núverandi hús læknadeildar yrði hluti af heildaruppbyggingunni eður ei. Sú varð raunin. Ingjaldur lagði sig allan fram í þessu verkefni, þekking hans var hópnum dýrmæt, og sumarið 2010 þegar verkefnastjórnin lét af störfum og NLSH ohf. tók við tilnefndi HÍ Ingjald sem annan af tveimur fulltrúum sínum í byggingarnefndina til að gæta hagsmuna Háskóla Íslands. Nú liggur fyrir forhönnun og eru allar skipulagsáætlanir samþykktar fyrir nýtt hús heilbrigðisvísindasviðs, sem Ingjaldur ásamt öðru fagfólki vann að á árum 2010-1013. Við sem störfuðum með Ingjaldi þökkum honum fyrir góð kynni, fagmennsku og áreiðanleika. Sendum við ættingjum, vinum og samstarfsfólki samúðar- og kærleikskveðjur. Hvíl í friði.
Gunnar Svavarsson.
Það voru forréttindi að fá að kynnast því flókna kerfi sem Háskólinn er, undir handleiðslu hans og manni þykir vænna um stofnunina vegna þess. Ingjaldur unni Háskólanum. Ráðleggingar og ráðgjöf eru sennilega það verðmætasta sem Ingjaldur gaf mér, bæði varðandi nám og störf, og alveg ljóst að ég væri ekki það sem ég er í dag nema fyrir hans ráð.
Við Ingjaldur kynntumst árið 2001 og naut ég þeirra forréttinda að fá að vinna náið með honum um nokkurra ára bil. Þá skapaðist með okkur djúpstæð vinátta, sem maður kannski stundum áttar sig á aðeins of seint. Minnast má margs, en sérstaklega ýmissa ferða, til dæmis í Saabinum á mikilvæga fundi, í flugvélum milli landa og í Gautaborgaróperuna, sem og nokkrar en of fáar mjög góðar máltíðir. Ingjaldur kunni að njóta lífsins á fallegan hátt.
Það sem stendur upp úr er náttúrlega að hafa fengið að taka þátt í því með honum að breyta Háskólanum, skipulaginu og byggingunum. Það mun minna mann á hans verk alla tíð, enda helgaði hann líf sitt háskólanum, bæði innra starfi á mörgum sviðum og hinni ytri umgjörð stofnunarinnar. Sú þrautseigja og hjálpsemi sem hann sýndi og veitti í öllu sem hann gerði er ákaflega mikilvægt framlag til þess að gera heiminn aðeins betri.
Ásgeir Brynjar Torfason.
Við fundum fljótt að okkur gekk vel að vinna saman. Þótt Ingjaldur hyrfi til fyrri starfa í Viðskipta- og hagfræðideild samdist svo um að við Silla, skrifstofustjóri á Framkvæmda- og tæknisviði HÍ, gætum leitað til hans þegar með þyrfti. Silla þekkti Ingjald frá fyrri tíð sem nemandi í MBA námi við HÍ þar sem Ingjaldur gegndi mikilvægu hlutverki í kennslu og skipulagi námsins.
Það var ósjaldan sem við þurftum að leita til Ingjalds um málefni sem snertu sviðið. Hann var verkfræðingur en í honum lúrði arkitekt og hann sagði oftar en einu sinni við okkur að hann hefði vel getað hugsað sér að verða arkitekt á sínum tíma. Það var því ákaflega gott að leita til Ingjalds þegar kom að þarfagreiningu á húsnæði fyrir ýmsar einingar skólans, skipulagsmálum, lóðamálum, kostnaðargreiningu og yfirleitt öllum verkefnum á vegum Framkvæmda- og tæknisviðs. Djúphygli, yfirvegun og trúnaður einkenndi ávallt aðkomu hans að sameiginlegum verkefnum okkar.
Ingjaldur hafði sem kunnugt er mikla ánægju af ferðalögum um heimsins álfur og ljómaði nánast eins og barn á jólum þegar hann greindi frá ævintýrunum sem hann hafði lent í. Þá var áhugi hans á klassískri tónlist og óperum mjög mikill en hann hafði hins vegar lítinn sem engan áhuga á íþróttum eða dægurtónlist. Í mesta lagi hefði hann getað hugsað sér að hlusta á einstaka lag með Bítlunum. Að þessu hlógum við oft og gerðum góðlátlegt grín hvert að öðru fyrir mismunandi smekk. Við þekkjum engan annan sem fór tvisvar til þrisvar á ári í helgarferðir til Evrópu eða Bandaríkjanna, jafnvel í báðar heimsálfur í sömu ferð, til að hlusta á klassíska tónlist eða óperur. Hæfileika Ingjalds til að skipuleggja ferðalög var við brugðið og hreint ótrúlegt hvað hann náði að komast yfir í hverri ferð. Þessi hæfileiki nýttist í fjölmörgum nemendaferðum sem hann skipulagði og tók þátt í. Það var því ekki úr lausu lofti gripið að hann var stöku sinnum kallaður „Fargjaldur“.
Andlát Ingjalds bar fyrirvaralaust að og er enn óraunverulegt í okkar huga. Það er eins og enn heyrist ákveðið fótatak hans á ganginum fyrir utan skrifstofur okkar í Aðalbyggingu, við lítum upp og í dyragættinni stendur Ingjaldur, rétt til að athuga hvernig við höfum það, hvort eitthvað sé í fréttum eða til að seilast í súkkulaðirúsínurnar í skápnum hans Guðmundar. Ingjaldur bjó yfir mikilli þekkingu og reynslu, var fljótur að hugsa og koma auga á skynsamlegar lausnir. Við erum ákaflega þakklát fyrir að hafa átt hann sem góðan samstarfsmann, fræðara og vin öll þessi ár.
Guðmundur R. Jónsson.
Sigurlaug I. Lövdahl.
Ingjaldur var góður yfirmaður, hreinskiptinn og sagði sínar skoðanir umbúðalaust. Hann hafði mikinn metnað fyrir hönd Útflutningsráðs og var óþreytandi að minna okkur á að við værum að vinna að framgangi íslensks samfélags. Ingjaldur gerði miklar kröfur, bæði til sjálfs sín og samstarfsmanna sinna. Þrátt fyrir að vera áberandi nærsýnn var hann afar glöggskyggn. Það var til dæmis lífsins ómögulegt að skila til hans skýrslu án þess að hann kæmi með skarplegar tillögur að endurbótum. Ingjaldur var eldsnöggur að setja sig inn í flóknar aðstæður og það var ótrúlegt að sjá hann brjótast í gegnum hnausþykka, flókna doðranta og draga saman niðurstöður á góðri íslensku á skömmum tíma. Hann var líka leiftursnöggur að reikna og kom iðulega með rétt svör á undan samstarfsmönnunum sem þurftu að leita á náðir reiknivéla og tölva.
Ingjaldur hafði góða kímnigáfu og tók því ekki illa þó að við samstarfsmennirnir værum stundum að gantast á vinnustaðnum, jafnvel þótt gríninu væri beint að honum sjálfum. Sem víðsýnn stjórnandi vissi hann að glettni og gleði eru orkulindir sem auðga samskipti og ýta undir skapandi lausnir. Það er til dæmis ógleymanlegt atvik þegar við „fótósjoppuðum“ myndir af honum í prufueintaki af ársskýrslu Útflutningsráðs. Ingjaldur hélt í fyrstu að þetta væri endanlegt eintak af skýrslunni og rauk fram til að koma í veg fyrir að svo hörmulegt og ímyndarspillandi kynningargagn færi í dreifingu. Þegar hann gerði sér grein fyrir því að við vorum að fíflast í honum, hló hann manna hæst. Sömuleiðis láku tárin niður kinnarnar á Ingjaldi þegar við kvöddum hann með smá leiksýningu er hann hætti hjá Útflutningsráði.
Þó að Ingjaldur væri glaðlyndur og legði mikið upp úr góðum starfsanda, hikaði hann aldrei við að etja starfsmönnum saman til að skerpa á umræðunni um mikilvæg mál. Það var eitt af verkfærum hans til að ná fram hámarksárangri í viðkomandi verkefnum. Ingjaldur var almennt mjög lausnarmiðaður í starfi sínu og var sífellt að leita nýrra leiða til að auka árangur og gagnsemi Útflutningsráðs Íslands. Þar má til dæmis nefna verkefnið „Útflutningsaukning hagvöxtur“ sem var írskt að uppruna en Ingjaldur fékk leyfi til að innleiða og laga að íslenskum aðstæðum. Nú, mörgum árum síðar, er þetta verkefni enn flaggskipið í menntaáætlun Íslandsstofu, arftaka Útflutningsráðs.
Það húmaði skjótt að Ingjaldi Hannibalssyni. Eftir sitja ljóslifandi myndbrot af lærdómsríku samstarfi við skemmtilegan félaga sem mun aldrei líða okkur úr minni. Við þökkum samfylgdina og vottum aðstandendum samúð.
Helga Eysteinsdóttir og Jón Þorvaldsson, f.h. starfsfólks Útflutningsráðs Íslands.°
Ég endurnýjaði síðan kynni mín við hann þegar ég hóf nám hjá honum í meistaranámi í alþjóðaviðskiptum og markaðsfræði. Ingjaldur hafði lítið breyst í útliti á þeim áratug sem liðinn var frá því hann kenndi mér síðast nema hárið stóð aðeins hærra upp í loftið. Þar sem við deildum miklum áhuga á Kína og ég hafði stundað nám í Austur-Asíufræðum ákvað ég að skrifa meistararitgerðina hjá honum. Við áttum góða fundi á skrifstofu hans þar sem Kína var oft til umræðu. Honum þótti ekkert tiltölumál þótt ég þyrfti að verja ritgerðina í gegnum Skype hinum megin á hnettinum. Hann var með þá tækni alla á takteinum og gekk það snurðulaust fyrir sig.
Hann var stoltur af því að hafa heimsótt öll lönd heimsins og á skrifstofu hans var stórt kort þar sem var samviskusamlega merkt inn á hvert landið á fætur öðru sem hann kláraði. Ég sagði honum að þessar heimsóknir allar væru efni í góða bók sem ég hlakkaði til að lesa.
Ég sat með honum í afmælisnefnd, hollvinasamtökunum og nú síðast í sjálfsmatsnefnd Viðskiptafræðideildar þar sem hann stýrði fundum af röggsemi eins og honum var lagið. Hann hafði mikinn metnað fyrir hönd Viðskiptafræðideildarinnar og vildi sjá deildina vaxa og dafna.
Sjálfsagt þykir hann hafa verið sérviskulegur í sumu en ég hafði ávallt gaman af því að spjalla við hann enda var hann vel að sér um margt. Síðast þegar við ræddum saman var það um mögulegt rannsóknarefni fyrir mig á kínverskum vörumerkjum. Þegar Ingjalds nýtur ekki lengur við þarf að finna þeirri hugmynd nýjan farveg. Hann hvarf alltof fljótt af sjónarsviðinu en hann náði þó markmiði sínu að klára listann með löndunum öllum.
Aðstandendum votta ég samúð.
Margrét Kristín
Sigurðardóttir.