Ekki leiddist mér að sjá gömlu hetjurnar, Ásgeir Sigurvinsson og Pétur Guðmundsson, saman á sviðinu síðasta laugardagskvöld. Voru þeir þá valdir inn í Frægðarhöll ÍSÍ af framkvæmdastjórn ÍSÍ. Þangað eiga þeir fullt erindi.
Ekki leiddist mér að sjá gömlu hetjurnar, Ásgeir Sigurvinsson og Pétur Guðmundsson, saman á sviðinu síðasta laugardagskvöld. Voru þeir þá valdir inn í Frægðarhöll ÍSÍ af framkvæmdastjórn ÍSÍ. Þangað eiga þeir fullt erindi. Ásgeir er einn fárra erlendra leikmanna sem valdir hafa verið leikmenn ársins í Þýskalandi og Pétur Guðmundsson fyrsti Evrópubúinn sem valinn var í nýliðavali NBA.

Báðir voru þeir í hæstu hæðum þegar ég var að byrja að stunda íþróttir og fylgjast með. Færa má rök fyrir því að Pétur sé reyndar alltaf í hæstu hæðum. Ég hef nokkrum sinnum verið spurður síðustu dagana hversu hár Pétur sé. Hann mældist 218 cm og er eftir því sem ég best veit, næsthávaxnasti Íslendingur sem vitað er um. Einungis Jóhann Kristinn Pétursson, sem ýmist var kallaður Jóhann risi eða Jóhann Svarfdælingur, var hávaxnari en Pétur.

Jürgen Klinsmann , einn snjallasti sóknarmaður sem Þjóðverjar hafa eignast, sagði við Skapta Hallgríms hér í Morgunblaðinu árið 1994 að Ásgeir væri sá besti sem hann hefði spilað með. Í sjónvarpsþætti sem Stöð2 gerði árið 1989 sagði Erwin Magic Johnson við þá Einar Bollason og Heimi Karlsson að Pétur væri falleg manneskja. Magic er einn sigursælasti leikmaður í sögu NBA.

Nú er það merkilegt eitt og sér að hafa spilað með leikmönnum á borð við Klinsmann og Magic. Hvað þá að hafa öðlast virðingu þeirra. Þess má geta að tvö þeirra liða sem Ásgeir og Pétur spiluðu með eru nú ríkjandi meistarar. Bayern München í Þýskalandi og San Antonio Spurs í NBA-deildinni í Bandaríkjunum.