Tungumelar Landið sem Ístak var að þróa er á milli Leirvogsár og Köldukvíslar, austan við Vesturlandsveg.
Tungumelar Landið sem Ístak var að þróa er á milli Leirvogsár og Köldukvíslar, austan við Vesturlandsveg. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Landsbankinn, eigandi Ístaks, hefur auglýst til sölu land á Tungumelum í Mosfellsbæ sem ætlað er sem athafnasvæði. Landið er alls rúmir 122 hektarar að stærð og skipulagt að hluta.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Landsbankinn, eigandi Ístaks, hefur auglýst til sölu land á Tungumelum í Mosfellsbæ sem ætlað er sem athafnasvæði. Landið er alls rúmir 122 hektarar að stærð og skipulagt að hluta. Höfuðstöðvar Ístaks eru í eina húsinu sem þar hefur risið.

Verktakafyrirtækið Ístak keypti spildu úr landi Leirvogstungu fyrir nokkrum árum og hóf þróun atvinnusvæðis. Skipulag var komið vel á veg fyrir hluta svæðisins fyrir bankahrun en ekki tókst að selja neinar lóðir. Ístak byggði sjálft höfuðstöðvar sínar á svæðinu og er það eina húsið sem risið er.

Tungumelar eru austan Vesturlandsvegar, við rætur Mosfells. Ístak lék skipuleggja tvö svæði, samtals rúma 42 hektara. Lagðar voru götur og stofnaðar lóðir á hluta svæðisins. Meirihluti landsins er þó óskipulagður og að stærstum hluta afmarkaður sem óbyggt svæði í gildandi aðalskipulagi.

Breyttar forsendur hjá Ístaki

Við þróun „Athafnalands“, framtíðarathafnasvæðis, var haft í huga að sinna þörfum fyrirtækja sem þurfa lóðir undir stór hús fyrir starfsemi sína. Ístak hugðist reisa hús sem sniðin væru að starfsemi fyrirtækjanna og selja þeim pakkann. Slík athafnahverfi eru þekkt víða erlendis og í kynningu Ístaks á sínum tíma kom fram að með því væri hægt að minnka kostnað hvers og eins fyrirtækis við vegi og ýmsar lagnir.

Landsbankinn sem nú er eigandi Ístaks hefur falið Eignamiðlun að selja landið. Hugmyndin er að selja það í heilu lagi, að sögn Guðlaugs I. Guðlaugssonar hjá Eignamiðlun.

Óskar Jósefsson, framkvæmdastjóri Ístaks, segir þegar hann er spurður um ástæðu sölunnar að breyttar forsendur séu í rekstri fyrirtækisins. Það hafi fyrst og fremst verið í verktöku fyrir aðra en ekki að þróa land og selja. Þetta verkefni hafi því verið ákveðið stílbrot. Ístak hefur lagt í ákveðinn kostnað við kaup á landinu og jarðvegsskipti og lóðir.

Óskar segir að lóðirnar verði seldar kvaðalaust af hálfu fyrirtækisins en það geti vitaskuld byggt húsin þar ef kaupendur kjósi það. Þótt hugmyndin sé að selja allt landið í einu lagi segir Óskar að litið verði með jákvæðum huga á aðrar hugmyndir sem fram kunni að koma.