Stanislaw Baranczak.
Stanislaw Baranczak.
Pólska ljóðskáldið Stanislaw Baranczak lést fyrir áramót í Bandaríkjunum. Útgáfa á verkum Baranzcaks var bönnuð í Póllandi á áttunda áratugnum og birti hann þau neðanjarðar eftir það.

Pólska ljóðskáldið Stanislaw Baranczak lést fyrir áramót í Bandaríkjunum. Útgáfa á verkum Baranzcaks var bönnuð í Póllandi á áttunda áratugnum og birti hann þau neðanjarðar eftir það. Hann var útilokaður frá háskólakennslu fyrir stuðning við pólska verkamenn, en var boðin staða aftur þegar Samstöðu fór að vaxa fiskur um hrygg.

Verk hans munu alltaf verða mikilvægur hluti pólskrar menningar,“ sagði Malgorzata Omilanowska, menningarmálaráðherra Póllands, við andlát hans.

Skömmu eftir að hann kom til Bandaríkjanna talaði hann um merkimiðann andófsmaður í ræðu í Boston. Hann rifjaði upp sögu eftir pólska höfundinn Stanislaw Lem um samfélag þar sem allir lifðu á kafi í vatni. „Loftbóluhljóð voru eina viðurkennda samskiptaleiðin, í opinberum áróðri var lögð áhersla á kosti þess að vera blautur og að anda af og til yfir vatnsborðinu var nánast talið pólitískt brot – þótt allir þyrftu að gera það af og til.“

Svo hélt hann áfram: „Ég get ekki að því gert að ég hugsa um þessa smásögu í hvert skipti sem ég heyri orðið „andófsmaður“. Á sá sem einfaldlega vill anda að sér fersku lofti skilið að kallast andófsmaður?“

Í ljóði sínu Curriculum Vitae sagði Baranczak að hæfileikar sínir nýttust ekki sem skyldi á Vesturlöndum: „Austur-evrópsk sérfræðikunnátta mín í að segja ekki orð við handtöku eða í að plata ritskoðarann,/endurteknir meistaratitlar í verkamannabústöðunum mínum í að standa í biðröð.“