[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Brynja Björg Halldórsdóttir brynja@mbl.is Fjölmörg íslensk félög og einstaklingar gætu átt rétt á skattalegum frádrætti nokkur ár aftur í tímann, samkvæmt úrskurði yfirskattanefndar frá síðasta ári.

Fréttaskýring

Brynja Björg Halldórsdóttir

brynja@mbl.is

Fjölmörg íslensk félög og einstaklingar gætu átt rétt á skattalegum frádrætti nokkur ár aftur í tímann, samkvæmt úrskurði yfirskattanefndar frá síðasta ári.

Fram til apríl 2013 var tap félaga á lágskattasvæðum í eigu íslenskra fyrirtækja, svokallaðra CFC-félaga (Contolled Foreign Company), frádráttarbært frá tekjum eiganda þess. Þetta staðfesti yfirskattanefnd í úrskurði sínum síðastliðið sumar. Samkvæmt lögum um yfirskattanefnd tekur fjármála- og efnahagsráðherra ákvörðun um málshöfðun vegna úrskurða yfirskattanefndar eftir að ríkisskattstjóri hefur mælt með slíkri málshöfðun við ráðherra, í því skyni að fá úrskurði yfirskattanefndar hnekkt. Sex mánaða fresturinn er nýlega liðinn og er því ljóst að ráðherra mun ekki fara með málið fyrir dóm.

Af þeim sökum, er það gildandi réttur að þar til tekjuskattslögum var breytt árið 2013, var heimilt að nýta tap af rekstri slíks félags til frádráttar frá öðrum tekjum eiganda félagsins.

Til lágskattaríkja teljast ríki þar sem tekjuskattur er lægri en 2/3 álagðs tekjuskatts á Íslandi. Almennt eru skattskil félaga sem staðsett eru í öðrum ríkjum óháð íslenskum lögum, en gerð var undantekning vegna CFC-félaga.

Kærandi í málinu var hlutafélag sem átti tvö félög staðsett í lágskattaríkjum, sem höfðu ýmist skilað hagnaði eða tapi á rekstrarárinu 2012. Benti kærandi á að samkvæmt norsku CFC-löggjöfinni, sem hefði verið fyrirmynd hinnar íslensku, mætti draga tap af rekstri CFC-félaga frá öðrum tekjum. Ríkisskattstjóri taldi hins vegar að tap hvers CFC-félags mætti aðeins nýta á móti framtíðarhagnaði þess sama félags en ekki öðrum tekjum.

Yfirskattanefnd féllst á rök kæranda og benti á að tekjuskattslögin tiltækju ekki slíkar takmarkanir. Hins vegar hefðu lög nr. 45/2013, sem tóku gildi 11. apríl 2013, kveðið á um sömu takmarkanir og ríkisskattstjóri vísaði til. Nefndin taldi að það hefði þurft að koma sérstaklega fram í lögunum ef til stæði að tapsfrádrátturinn væri aðeins heimill á móti hagnaði CFC-félagsins, sem síðar kynni að koma til skattlagningar hér á landi, en ekki á móti öðrum tekjum.

Geta verið verulegar fjárhæðir

Gunnar Egill Egilsson, lögmaður á Nordik lögmannsstofu, segir erfitt að henda reiður á hversu háar fjárhæðir geti verið um að tefla en ljóst sé að þær geti verið umtalsverðar. Ómögulegt sé að vita fjölda félaga sem gætu átt heimild til frádráttar.

Hann bendir á að eigendur félaga sem hafi farið í gegnum endurskipulagningu eigna gætu átt rétt á slíkum skattafrádrætti, hafi endurskipulagningin leitt til sölutaps á tímabilinu frá því að löggjöf um CFC-félög tók gildi árið 2010 og þar til tekjuskattslögum var breytt árið 2013. Því liggi undir árin 2010 til 2012 og hluti ársins 2013.

Hann segir það skilyrði að rekstrartapið hafi myndast á þessu tímabili og geti það til dæmis hafa myndast vegna sölu eigna með sölutapi. ,,Skattalegt stofnverð eignanna, þ.e.a.s. kaupverðið, skiptir mestu máli um umfang réttindanna. Sé söluverð lægra en kaupverð, markar mismunurinn sölutapið og þar með umfang réttindanna. Ég myndi ætla að það væri sérstök ástæða fyrir einstaklinga og félög, sem hafa átt félög í lágskattaríkum, að kanna vel hvort þau gætu átt rétt á frádrætti.“

Tekjuskattslögin heimila nýtingu skattalegs frádráttar tíu ár fram í tímann. Aðspurður segir Gunnar að áhrifa af þess konar tapi geti því gætt næstu árin. „Eins og staðan er í dag er þetta gildandi réttur miðað við túlkun yfirvalda. Á meðan því hefur ekki verið hnekkt, er þetta tap sem hægt er að nýta.“

Málshöfðun afar sjaldgæf

Að sögn Skúla Eggerts Þórðarsonar, ríkisskattstjóra, var ekki talið efni til að mæla með málshöfðun við ráðuneytið. Þá sé afar fátítt að slíkt sé gert og miklir hagsmunir þurfi að vera í húfi. Skúli minnist þess að síðasta mál þar sem slíkt hafi verið gert, hafi verið Vatnsvirkjamálið, sem Hæstiréttur dæmdi í árið 1994.
Skattafrádráttur
» CFC-félög eru í eigu íslenskra félaga en staðsett í lágskattaríkjum.
»Í slíkum ríkjum er tekjuskattur lægri en 2/3 tekjuskatts á Íslandi.
» Yfirskattanefnd hefur staðfest að skattafrádráttur vegna rekstrartaps slíkra félaga, frá öðrum tekjum eiganda, sé heimill vegna áranna 2010-2013.