Brautryðjandi Örn hefur frá árinu 1977 unnið og flutt út sjávarafurðir sem höfðu áður ekki verið nýttar.
Brautryðjandi Örn hefur frá árinu 1977 unnið og flutt út sjávarafurðir sem höfðu áður ekki verið nýttar. — Ljósmynd/Haukur Már Haraldsson
Örn Erlendsson, forstjóri sjávarafurðafyrirtækisins Triton ehf., stundaði nám í milliríkjaviðskiptum í Austur-Berlín og stofnaði sitt eigið útflutningsfyrirtæki árið 1977.

Örn Erlendsson, forstjóri sjávarafurðafyrirtækisins Triton ehf., stundaði nám í milliríkjaviðskiptum í Austur-Berlín og stofnaði sitt eigið útflutningsfyrirtæki árið 1977. Það sérhæfði sig í og varð brautryðjandi í afurðum eins og niðursoðinni rækju, þorsklifur og nú síðast grásleppu, svo dæmi séu tekin, en grásleppunni hafði um áratugaskeið verið hent, eftir að búið var að kreista úr henni hrognin. Hún er í dag verðmæt útflutningsvara.

Triton flytur út vörur sínar til Evrópu, Norður-Ameríku, fjölmargra landa Asíu og einnig til Rússlands og Úkraínu. Fyrirtækið er enn í eigu fjölskyldunnar og er Ormur Jarl, sonur Arnar, í dag framkvæmdastjóri þess. „Ég er ennþá með skrifborðið mitt og símann í fyrirtækinu, en mæti seint, tek mér langan kaffitíma og fer snemma heim. Annars stunda ég líkamsrækt, geng mikið með hundinn minn og reyni að hreyfa mig sem mest.“

Örn er ræðismaður Malasíu og hefur verið það frá 2002. Eiginkona hans er Renata Erlendsson. Hún er frá Þýskalandi og er löggiltur dómtúlkur og skjalaþýðandi. Sameiginleg börn þeirra eru Ormur Jarl og Rolf Hákon, framkvæmdastjóri niðursuðuverksmiðjunnar Akraborgar ehf., sem vinnur m.a. niðursoðna þorsklifur. Örn á dóttur, Sigríði eða Sirrý, þekkta fjölmiðlakonu, sem er nú með þætti á Rás 1 á sunnudagsmorgnum, og eldri son, Finnboga Rút, sem starfar í utanríkisþjónustunni.

Örn verður að heiman á afmælisdaginn.