Hjón Páll Ragnar Pálsson og Tui Hirv.
Hjón Páll Ragnar Pálsson og Tui Hirv.
Dämmerung fyrir sópran og strengjasveit, nýtt verk eftir Pál Ragnar Pálsson tónskáld, var flutt í Fílharmóníunni í Berlín í fyrradag af söngkonunni Tui Hirv og strengjasveit þýsk-skandinavísku fílharmóníunnar, Deutsch–Skandinavische...

Dämmerung fyrir sópran og strengjasveit, nýtt verk eftir Pál Ragnar Pálsson tónskáld, var flutt í Fílharmóníunni í Berlín í fyrradag af söngkonunni Tui Hirv og strengjasveit þýsk-skandinavísku fílharmóníunnar, Deutsch–Skandinavische Jugend-Philharmonie. Stjórnandi var Simone Bernandini.

Páll segir að Andreas Peer Kähler, stjórnandi sveitarinnar, hafi pantað verkið í tilefni af áttræðisafmæli eistneska tónskáldsins Arvo Pärt. „Texti verksins er ljóð eftir Melittu Urbancic (1902-1984). Melitta var austurrískur gyðingur sem flúði ásamt fjölskyldu sinni til Íslands árið 1938 og bjó þar til æviloka. Hún var með doktorsgráðu í bókmenntum, leikkona og skúlptúristi en engin leið var fyrir hana til að koma list sinni á framfæri á Íslandi. Ljóð Melittu sáu ekki dagsins ljós fyrr en á síðasta ári þegar verk hennar voru gefin út í þýðingu Sölva Bjarnar Sigurðssonar í bókinni Frá hjara veraldar / Vom Rand der Welt . Stofnun Vigdísar Finnbogadóttir og Háskólaútgáfan gáfu bókina út,“ segir Páll.

Um Deutsch-Skandinavische Jugend-Philharmonie segir hann að hún sé árlegt verkefni eða námskeið sem hljóðfæranemendur víðsvegar að úr heiminum sæki til að þjálfa færni sína í að spila í hljómsveitarspili undir leiðsögn þekktra listamanna. Þema námskeiðsins hafi alltaf verið að kynna norrænar tónbókmenntir fyrir þýskum hlustendum.

Yfir þúsund manns sóttu tónleikana á sunnudaginn var og var verkinu vel tekið, að sögn Páls. Á tónleikunum voru einnig leikin Don Juan eftir Richard Strauss, Karuselli eftir Andreas Peer Kähler og Sinfónía nr. 4 eftir Carl Nielsen.