Malbikun á Miklubrautinni Sænskir undirverktakar LoftOrku eru önnum kafnir í góða veðrinu að endurnýja malbik.
Malbikun á Miklubrautinni Sænskir undirverktakar LoftOrku eru önnum kafnir í góða veðrinu að endurnýja malbik. — Morgunblaðið/Ernir
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Hreinn Haraldsson vegamálastjóri segir að næg verkefni verði fyrir þá fjármuni sem ríkissjóður bætir við vegafé í ár, ekki síst við viðhaldsverkefni.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Hreinn Haraldsson vegamálastjóri segir að næg verkefni verði fyrir þá fjármuni sem ríkissjóður bætir við vegafé í ár, ekki síst við viðhaldsverkefni. Nú verði settur kraftur í að gera áætlun um viðhald vegamannvirkja á þessu ári.

Vegirnir hafi verið að drabbast niður vegna of lítils viðhalds á undanförnum árum. Lagðar hafa verið 5 milljarðar í viðhaldið á ári og sífellt minna verið hægt að gera fyrir þá fjárhæð. Það hefur bitnað á viðhaldi bundins slitlags á uppbyggðum vegum og jafnvel enn frekar á viðhaldi malarvega sem orðið hafa útundan.

Viðbótin í ár er 850 milljónir kr. Hreinn segir að Vegagerðin hafi ágætis yfirlit yfir ástand vegakerfisins. Nú verði sest yfir það hvað þurfi að hafa forgang í sumar. Fyrir utan almennt viðhald á yfirborði vega þurfi einnig að huga að viðhaldi brúa og ræsa sem sum hver eru að gefa sig.

Dugar ekki fyrir snjómokstri

Á fjárlögum eru hækkaðar fjárveitingar til þjónustu í vegakerfinu um 250 milljónir kr. Hreinn segir að ekki sé hægt að gera raunhæfar áætlanir um snjómokstur, veðrið ráði miklu um kostnaðinn. Sem dæmi má nefna að í byrjun síðasta árs var rúmlega 900 milljóna króna halli á vetrarþjónustu frá árinu á undan. Mikill snjór var á fyrrihluta ársins og hálka fram á vor. Þótt haustið væri gott dugðu framlög ársins ekki fyrir kostnaði ársins við snjómokstur og hálkuvörn þannig að skuldin var komin í um 1600 milljónir í árslok. Í fjáraukalögum var hallinn minnkaður með því að færa 850 milljónir af fjárveitingum sem ætlaðar voru til vegagerðar að iðnaðarsvæðinu á Bakka við Húsavík sem ekki fór af stað á árinu og 300 milljónir til viðbótar voru teknar af nýframkvæmdalið ársins. Hreinn segir að áfram sé skuld á vetrarþjónustuliðnum og útkoma hans ráðist af veðrinu á nýbyrjuðu ári.

Framlag til nýframkvæmda var aukið um 470 milljónir kr. Hreinn segir að hluta af því sé þegar ráðstafað til stórverkefna sem eru í gangi. Á hann við þær 300 milljónir sem teknar voru af ónotuðu fjármagni til nýframkvæmda á síðasta ári og færðar í snjómokstur. Viðbótin er því aðeins um 170 milljónir. Stóru verkefnin eru Norðfjarðargöng, Vestfjarðavegur í Kjálkafirði og Álftanesvegur.

Áfram verði bætt í

Í drögum að samgönguáætlun sem ekki hefur verið afgreidd var gert ráð fyrir 3 milljarða króna viðbót við ráðstöfunarfé Vegagerðarinnar á þessu ári. Hreinn vekur athygli á því að samkvæmt fjárlögum hafi fengist um helmingur af því en vonar að þetta sé upphafið að einhverju meira og haldið verði áfram að bæta í á næstu árum.