[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Höllinni Ívar Benediktsson iben@mbl.is „Mér leið illa yfir leiknum í gær og var ákveðinn í að gera betur í kvöld og það tókst.

Í Höllinni

Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

„Mér leið illa yfir leiknum í gær og var ákveðinn í að gera betur í kvöld og það tókst. Ég var afslappaðri og leyfði leiknum bara að koma til mín, lét leikinn flæða,“ sagði Sigurbergur Sveinsson, landsliðsmaður í handknattleik, sem skoraði sigurmarkið í eins marks sigri íslenska landsliðsins á þýska landsliðinu í síðari vináttuleik liðanna í Laugardalshöll í gærkvöldi, 25:24. Sigurbergur skoraði sigurmarkið þegar rétt rúm ein mínúta var til leiksloka.

Fjörutíu sekúndum síðar varði Björgvin Páll Gústavsson skot frá Stefan Kneer af línunni hinum megin vallarins og innsiglaði þar með sigurinn.

Þetta var löngu planað

„Þetta var löngu planað hjá okkur. Hleypið línumanninum í opið færi og ég tek skotið,“ sagði Björgvin Páll á léttu nótunum um síðustu markvörsluna sína í leiknum í samtali við Morgunblaðið. „Nei, í alvöru sagt þá áttu þeir ekki að fá opið skot af línunni í lokin,“ sagði Björgvin Páll og bætti við. „Ég reyni bara að taka það sem kemur á markið. Heppnin var með mér að þessu sinni. En heilt yfir var þetta góður leikur af okkar hálfu, ekki síst í vörninni,“ sagði Björgvin Páll og bætti við að það væri e.t.v. það jákvæða við landsliðið sem stendur að varnarleikurinn væri betri en stundum áður en hann hefur yfirleitt verið það síðasta sem liðið hefur náð að binda saman fyrir stórmót. „Að varnarleikurinn er góður er jákvætt því við vitum hvað við getum í sóknarleiknum. Á því sviði erum við fljótari að slípa okkur saman eða höfum verið og þegar Aron Pálmarsson bætist í hópinn þá held ég að við getum verið í fínum málum þegar á hólminn verður komið,“ sagði Björgvin Páll Gústavsson, markvörður.

Frábært að fá að byrja

„Það var frábært að fá tækifæri til þess að byrja leikinn í dag og fá góðan tíma til þess að koma mér inn í leikinn,“ sagði Sigurbergur Sveinsson sem var markahæstur í íslenska liðinu í gær ásamt Alexander Petersson með fimm mörk.

„Við vorum betri í þessum leik en á sunnudaginn og vonandi verður áframhaldandi stígandi í leik okkar,“ sagði Sigurbergur sem sagði að stemningin í íslenska liðinu hefði verið mun betri en í viðureigninni við Þjóðverja á sunnudaginn. Það hefði smitast út í leik liðsins. „Frammistaða okkar var flott skref fram á við. Vonandi náum við að bæta okkur leik frá leik þangað til flautað verður til leiks í Katar,“ sagði Sigurbergur Sveinsson en framundan eru þrír vináttuleikir við Svía, Dani og Slóvena í Svíþjóð og í Danmörku á föstudag, laugardag og á sunnudag.