Teikning Svona mun ný bygging Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum við HÍ líta út.
Teikning Svona mun ný bygging Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum við HÍ líta út. — Ljósmynd/arkitektur.is
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þórunn Kristjánsdóttir thorunn@mbl.is Framkvæmdir við hús Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum við Háskóla Íslands hefjast á næstunni. Auglýst var eftir tilboðum í verkið um liðna helgi.

Þórunn Kristjánsdóttir

thorunn@mbl.is

Framkvæmdir við hús Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum við Háskóla Íslands hefjast á næstunni. Auglýst var eftir tilboðum í verkið um liðna helgi. Húsið mun rísa á horni Suðurgötu og Brynjólfsgötu í Reykjavík. Það mun standa næst gömlu Loftskeytastöðinni ekki langt frá þar sem grafinn var grunnur undir Hús íslenskra fræða, en framkvæmdunum var frestað.

Styrkir að utan

„Það sem skapar þessu verkefni algjöra sérstöðu er mikið sjálfsaflafé,“ segir Auður Hauksdóttir, forstöðumaður Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum við Háskóla Íslands.

Fjölmargir aðilar, jafnt erlend sem innlend fyrirtæki, félagasamtök, stofnanir og einstaklingar, leggja fjármuni til byggingarinnar auk Reykjavíkurborgar, ríkisins og Háskóla Íslands. Áætlað er að húsið verði fullbyggt 15. nóvember 2016.

Á afmælisári Vígdísar árið 2010 safnaðist til að mynda töluvert fjármagn. Þess má geta að Færeyingar styrktu verkefnið með myndarlegum hætti en stærsta erlenda framlagið kemur frá A.P. Möller-sjóðnum í Danmörku, röskar 200 milljónir króna.

Auður óttast ekki að þessi framkvæmd eigi eftir að hljóta sömu örlög og Hús íslenskra fræða þar sem verkefnið sé fjármagnað að fullu. Nú þurfa tilboðin hins vegar að verða í samræmi við kostnaðaráætlun.

Auður bendir á að bygging stofnunar Vigdísar og Hús íslenskra fræða séu ekki bara mikilvægar táknmyndir fyrir metnað Íslendinga fyrir bókmenntum og tungu og því að stuðla að jákvæðum samskiptum við umheiminn, heldur skapi saman stórkostleg tækifæri fyrir íslenskt fræðasamfélag til að láta muna um sig á alþjóðavettvangi. Þannig gætu þær orðið ómetanleg lyftistöng fyrir okkur öll. Í þessu samhengi bendir hún á að fjöldi ráðstefnugesta komi hingað til lands vegna fræðastarfseminnar, og dvelji hér í lengri eða skemmri tíma.

Auður segir að þar sem Vígdísarstofnun sé alþjóðleg miðstöð tungumála og menningar séu miklar væntingar til hennar á heimsvísu. Það hafi m.a. komið glögglega fram í máli Irinu Bokovu, aðalframkvæmdastjóra Unesco, sem hafi sótt Ísland heim sl. vor.

Það brautryðjendastarf sem Vigdís hafi unnið á heimsvísu sem velgjörðarsendiherra tungumála hjá menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna hafi lagt grunninn að þessu verkefni.

Efla vísindastarf og nýsköpun

Byggingin verður á fjórum hæðum og við hana verður skjólgott torg þar sem hægt verður að bjóða upp á ýmsa viðburði utan dyra fyrir almenning svo sem ljóða- eða menningarhátíðir eða jafnvel útileikhús. Í byggingunni fer fram kennsla í öllum þeim 14 erlendu tungumálum sem kennd eru við Háskólann auk rannsóknarstarfs og fræðslu til leikra sem lærðra. Þá mun byggingin hýsa alþjóðlega tungumálamiðstöð, sem mun starfa undir merkjum Unesco, menningar- og vísindastofnunar Sameinuðu þjóðanna. „Þarna skapast sérstök skilyrði til að efla vísindastarf og nýsköpun m.a. í menningartengdri ferðaþjónustu. Þar verður hægt að taka á móti stórum hópum og fræða ferðamenn á erlendum málum um tengsl annarra þjóða við íslenska menningu,“ segir Auður Hauksdóttir forstöðumaður stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur.