Hópurinn Rannveig, Sigríður, Kolbrún, Antonía, Ásta, Þórhallur og Kjartan Sigurðarbörn, í afmælisveislu Antoníu um helgina.
Hópurinn Rannveig, Sigríður, Kolbrún, Antonía, Ásta, Þórhallur og Kjartan Sigurðarbörn, í afmælisveislu Antoníu um helgina. — Morgunblaðið/Sigurður Aðalsteinsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is „Heilsan er ágæt og ég hef nóg við að vera. Eftir hjartaáfall fyrir allmörgum árum fór ég í aðgerð og þar var dyttað aðeins að mér.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Heilsan er ágæt og ég hef nóg við að vera. Eftir hjartaáfall fyrir allmörgum árum fór ég í aðgerð og þar var dyttað aðeins að mér. Annars eru mér flestir vegir færir miðað við aldurinn,“ segir Antonía Sigurðardóttir á Egilsstöðum sem verður áttræð á morgun, 7. janúar. Slíkt væri ekki í frásögur færandi nema af því að samanlagður aldur Antoníu og sex núlifandi systkina hennar nær með afmæli hennar alls 501 ári. Tveir bræðranna eru látnir.

„Að ná 500 árum eru kannski engin ósköp. Frændsystkin mín á Hallgeirsstöðum í Jökuldal, sem voru alls sextán, komust yfir 1.000 árin nú í sumar,“ segir Antonía.

Heimavöllur á Hjarðargrund

Ættbogi Antoníu kemur úr Borgarfirði eystra og af Jökuldalsheiði. Hún er fædd í Vopnafirði, dóttir Sigurðar Þorsteinssonar og Margrétar Ingibjargar Stefánsdóttur. Framan af voru foreldrar hennar víða í húsmennsku eystra, en fluttust með barnaskara sínum árið 1947 að Teigaseli í Jökuldal. Sveitin sú varð heimavöllur Antoníu sem bjó í áratugi með eiginmanni sínum, Benedikt Hjarðar, að Hjarðargrund, nýbýli úr landi Hjarðarhaga.

„Já, ég get alveg fallist á að Jökuldalurinn hafi breyst mikið með nýja veginum sem þar var lagður fyrir nokkrum árum. Er hann þannig staðsettur að flestir bæirnir í dalnum eru úr augsýn. Og hin breytingin er sú að fólki hefur fækkað mikið í sveitinni.“

Margt féll til í sveitinni og árin þar voru góð, segir Antonía. „Ég var lengi matráðskona við barnaskólann að Skjöldólfsstöðum. Einnig tók ég góðar vinnutarnir mörg haustin í Sláturhúsinu á Fossvöllum.“

Antonía er móðir fjögurra uppkominna barna. Þrjú þeirra búa á Austurlandi, Guðfinna Sigríður, Þorvaldur Sigurgeir og Margrét Ingibjörg, en yngsta dóttirin, Harpa Dögg, á Akureyri. Þá bjó systursonur Benedikts, Guðgeir Þ. Ragnarsson, einnig á Hjarðargrund og er þar bóndi í dag.

Í handavinnu og fer á flandur

Antonía og Benedikt, sem lést 2005, fluttu í Egilsstaði fyrir um 20 árum. Fóru úr moldinni á mölina. „Já, ég uni mér vel hérna. Bærinn gerir vel við eldri borgara hér. Félagsmiðstöðin Hlymsdalir er opin alla virka daga og ég mæti þangað oft. Svo eru vinirnir duglegir að drífa mig með á flandur, ég er alltaf til í það,“ segir Antonía sem tók forskot á sælu afmælisdagsins og bauð góðum gestum til sín á laugardaginn. Þangað mættu börn hennar með fjölskyldum sínum, systkini hennar sem öll búa austur á landi, aðrir ættingjar og vinir. Var glatt á hjalla og gestirnir rúmlega 100 talsins.

Pínulítill hlutur

„Nei, það var ekkert einsdæmi að systkini á bæjum væru níu eða jafnvel sextán. Eðli mannfólksins er alltaf hið sama,“ segir Antonía á Egilsstöðum. „Í gamla daga vantaði pínulítinn hlut sem hefði getað spornað gegn þessum barnafjölda og jafnvel ómegð eins og var á sumum bæjum. En nú erum við komin út á svolítið hálan ís í umræðuefni og best að segja ekki meira.“