[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fótbolti Víðir Sigurðsson vs@mbl.

Fótbolti

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

„Þetta er afar kærkomið verkefni fyrir okkur og sjaldan sem við fáum svona tækifæri til að vinna með framtíðarmönnunum okkar,“ sagði Heimir Hallgrímsson, annar landsliðsþjálfara karla í knattspyrnu, við Morgunblaðið.

Hann og Lars Lagerbäck fara til Orlando á Flórída næsta mánudag en Ísland mætir þar Kanadamönnum í tveimur vináttulandsleikjum föstudaginn 16. og mánudaginn 19. janúar.

„Stundum er það þannig að þegar undankeppni stórmóts er hálfnuð, eru möguleikar á að komast áfram strax orðnir litlir og þá er farið að huga að því að gefa framtíðarmönnum tækifæri í seinni hlutanum. Nú er hinsvegar staðan önnur, hver leikur er úrslitaleikur og því ekkert svigrúm fyrir tilraunastarfsemi í mótsleikjunum. Þess vegna eru þessir leikir við Kanada enn dýrmætari núna,“ sagði Heimir.

Þar sem ekki er spilað á opinberum landsleikjadögum verða fjölmargir lykilmenn beggja liða fjarri góðu gamni. Ljóst er að tíu af þeim 24 leikmönnum sem voru í landsliðshópnum í leikjunum við Belgíu og Tékkland í nóvember verða uppteknir með félagsliðum sínum í Evrópu, og af hinum fjórtán fá einhverjir ekki frí vegna æfingaferða og undirbúningsleikja sinna liða.

Sum félög segja nei

„Við fáum þá ekki alla, það er alveg ljóst. Félögin geta neitað okkur um leikmennina og sum hafa þegar gert það. Við sendum út tilkynningar til félaga um 40 leikmenn sem við óskuðum eftir að væru lausir, og í þessari viku vinnum við úr því og birtum endanlegan hóp fyrir ferðina á föstudag. Það er hinsvegar ekki sjálfgefið að við tökum alla sem eru á lausu og má vel vera að við sleppum einhverjum af þeim eldri, sem við þekkjum vel og vitum hvað geta. Ég býst við því að við horfum frekar til yngri leikmanna og gefum þeim tækifæri,“ sagði Heimir og játti því að eflaust kæmu einhverjir þeirra úr síðasta 21-árs landsliði Íslands sem komst í umspil EM í haust.

Fimm æfingar í Orlando

Hann sagði að góður tími myndi gefast til æfinga í Orlando. „Já, við verðum þarna í heila viku og getum því æft þriðjudag, miðvikudag, fimmtudag, laugardag og sunnudag, auk þess að spila leikina á föstudag og mánudag.“

Ljóst er að eftirtaldir leikmenn verða ekki með í Orlando: Kári Árnason, Ragnar Sigurðsson, Emil Hallfreðsson, Aron Einar Gunnarsson, Gylfi Þór Sigurðsson, Birkir Bjarnason, Kolbeinn Sigþórsson, Jóhann Berg Guðmundsson, Alfreð Finnbogason, Ólafur Ingi Skúlason og Hörður B. Magnússon. Þeir verða allir uppteknir með sínum félagsliðum.

Nokkrir hinna verða ekki með en þó má búast við því að meirihluti eftirtalinna leikmanna, sem fóru til Belgíu og Tékklands, fari til Orlando: Hannes Þór Halldórsson, Theódór Elmar Bjarnason, Ari Freyr Skúlason, Jón Daði Böðvarsson, Rúrik Gíslason, Birkir Már Sævarsson, Ögmundur Kristinsson, Ingvar Jónsson, Hallgrímur Jónasson, Sölvi Geir Ottesen, Viðar Örn Kjartansson, Helgi Valur Daníelsson og Hólmar Örn Eyjólfsson.

Kanadamenn verða líka án margra leikmanna sem spila í Evrópu en á síðu kanadíska knattspyrnusambandsins kemur fram að lið þeirra verði byggt á U23 ára landsliðinu ásamt nokkrum eldri leikmönnum.

Karlalandslið Íslands
» Íslenska liðið mætir Kanada í vináttulandsleikjum í Orlando 16. og 19. janúar.
» Ísland leikur við Kasakstan á útivelli í undankeppni EM 28. mars og mætir Eistlandi í vináttulandsleik á útivelli 31. mars.
» Síðan er leikið við Tékka í EM á Laugardalsvelli 12. júní en fjórir síðustu leikirnir fara fram í haust.