6. janúar 1887 Íslendingafélagið í Kaupmannahöfn minntist þess að öld var liðin síðan Bjarni Thorarensen skáld og amtmaður fæddist. „Þetta er víst fyrsta 100 ára minningarhátíð sem haldin hefur verið eftir íslenskan mann,“ sagði...

6. janúar 1887

Íslendingafélagið í Kaupmannahöfn minntist þess að öld var liðin síðan Bjarni Thorarensen skáld og amtmaður fæddist. „Þetta er víst fyrsta 100 ára minningarhátíð sem haldin hefur verið eftir íslenskan mann,“ sagði Norðurljósið.

6. janúar 1904

Grímudansleikur var haldinn í Reykjavík í fyrsta sinn. „Búningar voru mjög fallegir, einkum á kvenþjóðinni,“ sagði í vikublaðinu Ingólfi, sem taldi þetta allgóða skemmtun.

6. janúar 1923

Halldór Kiljan Marie Pierre Laxness var „skírður og fermdur og gerðist meðlimur hinnar heilögu kaþólsku kirkju,“ eins og Halldór sagði sjálfur, en hann var þá í St. Maurice klaustri í Clervaux í Lúxemborg.

6. janúar 1967

Þátturinn Munir og minjar var á dagskrá Sjónvarpsins í fyrsta sinn. Hann naut mikilla vinsælda. Umsjónarmaðurinn, Kristján Eldjárn þjóðminjavörður, var kosinn forseti Íslands árið eftir.

6. janúar 1968

Rannsóknastöð Hjartaverndar í Reykjavík var formlega tekin í notkun. Fyrsti yfirlæknirinn var Ólafur Ólafsson, síðar landlæknir.

Dagar Íslands | Jónas Ragnarsson