Húnn Snædal skrifaði til gamans á jólakort fyrir 30 árum: Á þessum jóla darradans dálítið er ég lúinn ég hlakka því til þrettándans þá eru jólin búin. Hetjutenórarnir héldu norður og sungu í Hofi á Akureyri.

Húnn Snædal skrifaði til gamans á jólakort fyrir 30 árum:

Á þessum jóla darradans

dálítið er ég lúinn

ég hlakka því til þrettándans

þá eru jólin búin.

Hetjutenórarnir héldu norður og sungu í Hofi á Akureyri. Ármann Þorgrímsson orti:

Hátíðarstund í Hofi var

heimsóttu okkur snillingar.

Tóku þar lagið tenórar

táruðust allar kellingar.

Gústi Mar bætti um betur:

Æpir tenór ofurhátt

alveg blár í framan.

Svo Eyfirðingar eiga bágt

allir gráta saman.

Davíð Hjálmar Haraldsson hafði orð á því á Leirnum á laugardaginn að hann hefði séð í Bændablaðinu að Kótelettufélag togarajaxla vildi að sauðfé yrði kynbætt til að af því fengjust fleiri kótelettur. – „Góð hugmynd hjá þeim félögum,“ segir hann.

Jaxlarnir sem eru á

úthafsveiðidollunni

heimta nú að hafa þrjá

hryggi á sömu rollunni.

Sigurlín Hermannsdóttir hafði lög að mæla þegar hún gerði þessa athugasemd: „Ef farið er út í að endurbæta rollurnar er eins gott að gera það almennilega.

Umbreytt fyrir ofan þind,

úrvals tækifæri,

og gott að hafa á hverri kind

kannski átta læri.“

Og Gústi Mar. var með á nótunum:

Ána hanna ætti svo

að ekki skorti kviðum.

Hefði skjátan hausa tvo

og helming meira af sviðum.

Ármann Þorgrímsson slær á létta strengi. Lagboðinn er „Jólasveinar einn og átta“:

Alþingismenn allir saman

aftur vitja stólanna

eru þykkri ögn að framan

eftir veislur jólanna.

Ekki finnst þó öllum gaman

óttast stöðu skjólanna

lítið skilja læknadramann

og leiðist nöldur skólanna;

Og hringt er ekki í Hólakirkju

helgum bjöllum sjólanna.

Jón Arnljótsson er á þjóðlegum nótum:

Ef þú ljóða listir kannt,

lofar fljóðin ungu,

er þá sjóði orða vant

ei á þjóðar tungu.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is