Hvetja Einar Guðlaugsson og dóttir hans Guðlaug Einarsdóttir voru einu stuðingsmenn landsliðins í forkeppni ÓL í Króatíu fyrir þremur árum.
Hvetja Einar Guðlaugsson og dóttir hans Guðlaug Einarsdóttir voru einu stuðingsmenn landsliðins í forkeppni ÓL í Króatíu fyrir þremur árum. — Ljósmynd/Marlon Janicek
„Okkur barst boð frá Katar um að senda 20 manns frá Íslandi til þess að fylgjast með heimsmeistaramótinu og styðja við bakið á íslenska landsliðinu.

„Okkur barst boð frá Katar um að senda 20 manns frá Íslandi til þess að fylgjast með heimsmeistaramótinu og styðja við bakið á íslenska landsliðinu. Stjórn Handknattleikssambandsins tók þá ákvörðun að þiggja boðið,“ segir Einar Þorvarðarson, framkvæmdastjóri HSÍ, um ferð 20 íslenskra stuðningsmanna landsliðsins á heimsmeistaramótið sem hefst í Katar 15. janúar.

„Stjórnin ákvað að þiggja boðið og að verðlauna með því þá aðila sem þéttast hafa staðið á bak við starfið hjá okkur í sjálfboðavinnu og hafa fylgt íslenska landsliðinu út á síðustu stórmót,“ segir Einar og bætir við að í þessum hópi séu engir stjórnarmenn HSÍ.

„Okkur þykir fyrst og fremst gott að geta gert eitthvað fyrir þá sem þétt standa við bakið á okkur. En vissulega er ekki einfalt að velja í svona hóp,“ segir Einar ennfremur um ferðina sem hefst 14. janúar í Keflavík og lýkur 2. febrúar á sama stað, daginn eftir að heimsmeistaramótinu lýkur.

„Þessu boði fylgja engin fjárhagsleg útlát fyrir Handknattleikssambandið. Allur kostnaður við ferðir og uppihald er greiddur af mótshöldurum í Katar. Okkur hjá HSÍ þykir fyrst og fremst ánægjulegt að geta gert eitthvað fyrir þá sem vinna fyrir okkur og styðja við bakið á landsliðinu okkar í mótbyr jafnt sem meðbyr,“ segir Einar Þorvarðarson, framkvæmdastjóri Handknattleikssambands Íslands.

Auk þessa greiða mótshaldarar í Katar ferðir og gistingu fyrir 13 íslenska fjölmiðlamenn sem hyggjast sækja mótið. iben@mbl.is