Tómas Árnason fæddist á Hánefsstöðum við Seyðisfjörð 21. júlí 1923. Hann lést á Landspítalanum í Fossvogi á aðfangadag jóla, 24. desember 2014.

Foreldrar hans voru hjónin Árni Vilhjálmsson, f. 9.4. 1893, d. 11.1. 1973, útgerðarmaður og síðar erindreki Fiskifélags Íslands, og Guðrún Þorvarðardóttir, f. 7.1. 1893, d. 26.10. 1957, húsmóðir. Systkini Tómasar eru: 1) Vilhjálmur, f. 15.9. 1917, d. 8.3. 2006, 2) Þorvarður, f. 17.11. 1920, d. 1.7. 1992, og 3) Margrét, f. 1.10. 1928.

Tómas stundaði nám í Alþýðuskólanum á Eiðum 1939-1941 og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1945. Fjórum árum síðar útskrifaðist hann sem lögfræðingur frá lagadeild Háskóla Íslands og stundaði framhaldsnám í alþjóðaverslunarrétti við Harvard Law School í Bandaríkjunum 1951-1952.

Tómas kvæntist hinn 25.6. 1949 Þóru Kristínu Eiríksdóttur frá Norðfirði, f. 13.3. 1926, d. 14.1. 2007. Foreldrar hennar voru hjónin Guðný Vigdís Þórarinsdóttir, f. 24.1. 1905, d. 5.5. 1983, og Eiríkur Ármannsson, f. 29.2. 1892, d. 28.8. 1967, skipstjóri og útgerðarmaður. Synir Tómasar og Þóru eru a) Eiríkur, f. 8.6. 1950, maki Þórhildur Líndal, f. 28.1. 1951, synir þeirra eru 1) Páll, f. 6.5. 1974, hann á þrjú börn, 2) Tómas, f. 19.6. 1978, maki Gréta Bentsdóttir og eiga þau þrjú börn, og 3) Jóhannes, f. 15.7. 1983, sambýliskona Kristín Alda Jónsdóttir og eiga þau eitt barn, b) Árni, f. 25.10. 1955, maki Margrét Birna Skúladóttir, f. 29.6. 1955, börn þeirra eru 1) Berglind Þóra, f. 25.7. 1978, maki Þorsteinn Ástráðsson og eiga þau tvö börn, 2) Björn Steinar, f. 15.3. 1981, og 3) Guðný Anna, f. 28.3. 1988, sambýlismaður Björn Atli Davíðsson, c) Tómas Þór, f. 16.8. 1959, maki Helga Jónasdóttir, f. 10.2. 1959, börn þeirra eru 1) Þóra, f. 22.12. 1982, 2) Jónas, f. 1.11. 1985, 3) Tómas Helgi, f. 1.10. 1990, og 4) Arnhildur, f. 24.5. 2000, og d) Gunnar Guðni, f. 18.2. 1963, maki Sigríður Hulda Njálsdóttir, f. 13.3. 1962, dætur þeirra eru 1) Kristín María, f. 29.10. 1990, 2) Þórdís Björk, f. 23.11. 1993 og 3) Hildur Margrét, f. 17.10. 1996.

Tómas rak málflutningsskrifstofu á Akureyri 1949-1951 og 1952-1953, auk þess að starfa sem erindreki framsóknarfélaganna og blaðamaður við Dag. Tómas hóf störf í utanríkisráðuneytinu 1953 sem deildarstjóri varnarmáladeildar til 1960. Þá rak hann málflutningsskrifstofu í Reykjavík ásamt Vilhjálmi bróður sínum 1960-1972 og var framkvæmdastjóri Tímans 1960-1964. Á árunum 1972-1978 var Tómas framkvæmdastjóri Framkvæmdastofnunar ríkisins og aftur 1983-1984. Hann var alþingismaður Austurlands fyrir Framsóknarflokkinn 1974-1984 en hafði áður tekið nokkrum sinnum sæti á þingi sem varamaður. Frá 1978 til 1979 gegndi Tómas embætti fjármálaráðherra og á árunum 1980-1983 embætti viðskiptaráðherra. Tómas var skipaður bankastjóri við Seðlabanka Íslands 1985 og gegndi því starfi til 1993.

Tómas verður jarðsunginn frá Dómkirkjunni í Reykjavík í dag, 6. janúar 2015, og hefst athöfnin kl. 15.

Tengdafaðir minn kær,Tómas Árnason, lést á aðfangadag jóla, á 92. aldursári.

Þótt hallað hafi undan fæti síðustu vikurnar hélt hann reisn sinni alla tíð. Fallegur maður og glæsilegur, annt um útlit sitt – keppnismaður sem bar höfuðið hátt.

Hann var skemmtilegur maður, brosleitur, og hafði gaman af að segja sögur úr æsku sinni og sögur úr samtímanum, sumar voru reyndar sagðar oftar en aðrar. Það gerði hins vegar ekkert til enda voru þær græskulausar og báru – að mínu mati – vott um lífsánægju hans meira en nokkuð annað.

Þegar ég fór að venja komur mínar á heimili tengdaforeldra minna, Þóru og Tómasar, á Hraunbrautinni fyrir óralöngu síðan þá kynntist ég í fyrsta sinn hinum sanna pólitíska anda, enda húsbóndinn í framvarðasveit Framsóknarflokksins. Þetta einkenndi vissulega heimilisbraginn en Þóra hélt vel utan um fjölskylduna alla á stóru og athafnamiklu heimili þeirra hjóna.

Útivist átti vel við tengdaföður minn, hann stundaði frjálsar íþróttir frá unga aldri, kleif fjöll á sumrin en stundaði skíði á vetrum. Þá bættist laxveiðin við. Hann var snillingur með veiðistöngina, mýktin og áreynsluleysið áberandi, og svo var hann sérlega fiskinn. Ég minnist eins dýrðarmorguns þegar hann vildi sýna mér og leiðbeina, hvernig hann færi að þessu, þar sem við stóðum við fallegan, spegilsléttan hylinn. Auðvitað náði hann laxinum – með sinni leikni.

Óhætt er að segja að tengdafaðir minn hafi verið mikill golfari enda eyddi hann ófáum stundum í góðra vina hópi á golfvöllum hérlendis og erlendis. Það var einmitt á golfvellinum í Bournemouth sem ég komst að raun um að 18 holu golfhringur er ekki „leikur einn“ heldur fjögurra klukkustunda gangur yfir hóla og hæðir fyrir utan einbeitinguna sem „sveiflan“ krefst. Tómas var í essinu sínu eftir þennan leik og rifjaði upp allar holur vallarins, hvaða kylfur hann notaði á hverri holu og hve höggin voru mörg. Ég var agndofa en skil þetta heldur betur núna 25 árum síðar!

Við stórfjölskyldan eigum minningar um ógleymanlegar samverustundir við Selá í Vopnafirði mörg sumrin, þegar synir okkar voru ungir að árum, og síðar við Svarthöfða í Borgarfirði og þá bættust við tengdadætur og barnabörnin. Glatt var á hjalla og „hamagangur á Hóli“ þegar fjórar kynslóðir komu saman í litla veiðihúsinu, eins og gerðist síðast í sumar sem leið. Ég sé í hugskoti mínu Tómas langafa horfa yfir hópinn sinn, glaðan en nokkuð vegmóðan. Og nú er hann allur.

Á kveðjustund er margs að minnast eftir langa samleið en það sem stendur upp úr öllum minningunum er þó þakklæti mitt til Tómasar fyrir hve góður tengdafaðir hann var mér. Hafi hann kæra þökk fyrir það, sem og allt annað, sem hann var fjölskyldu okkar Eiríks.

Þórhildur Líndal.

Nú þegar komið er að kveðjustund erum við þakklátar fyrir allar þær góðu minningar sem við eigum um afa Tómasi og teljum við okkur heppnar að hafa átt svona flottan afa.

Það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar við hugsum til baka eru töfrabrögðin hans afa en það var ósjaldan sem hann töfraði fram pening úr eyrum okkar auk þess sem töfrasýningar hans voru ómissandi hluti af barnaafmælum okkar í mörg ár.

Afi hafði alltaf frá mörgu að segja og þótti okkur stundum ótrúlegt hversu minnugur hann var á hvert einasta smáatriði. Má þar nefna síddina á skálmum fermingarbuxna hans og hve langan tíma það tók hann upp á sekúndu að hlaupa hringinn í kringum íþróttavöllinn. Jafnvel þó að við höfum heyrt sumar sögurnar nokkuð oft þótti okkur gaman að hlusta á þær og það verður að viðurkennast að þegar kom að því að skrifa heimildarritgerð fyrir skólann var ekki hægt að velja sér þægilegri viðmælanda. Þá hóf hann frásögnina á orðunum „og skrifaðu nú“ og flæddi ritgerðin því næst frá honum fullmótuð án þess að við þyrftum nokkuð að hafa fyrir hlutunum.

Afi stundaði ýmsar íþróttir frá unga aldri, allt frá frjálsum íþróttum og fimleikum yfir í skíði og var hann duglegur að deila með okkur afrekum sínum. Seinni ár átti golfið hug hans allan og naut hann þess að spila með bæði fjölskyldu og vinum. Við höfðum sérstaklega gaman af því að hitta þá Svein vin hans á golfvellinum í Grafarholti fyrir um tveimur árum. Þeir félagar spöruðu ekki hrósyrðin hvor um högg annars og litlu máli virtist skipta úr hvorum golfpokanum kylfur voru notaðar. Afi hafði einnig gaman af bæði lax- og rjúpnaveiði og okkur eru minnisstæðar allar laxveiðiferðirnar sem við fórum í Svarthöfða. Upp úr stendur ferðin sem við fórum á áttræðisafmæli afa en þann daginn veiddust hátt í tuttugu laxar og áttum við þar yndislega tíma saman.

Afi Tómas fylgdist vel með afkomendum sínum hvort sem var í námi, starfi eða lífinu sjálfu. Hann var duglegur að hringja til að fá fréttir en eyddi þó aldrei óþarfa mínútum í símann. Afi var ávallt stoltur af sínu fólki og þurfti oft ekki mikið til. Við vorum til dæmis hinir mestu tæknisnillingar í hans augum þó oftar en ekki þyrfti lítið annað að gera en að stinga í samband eða kveikja á því tæki sem var „bilað“ þá stundina.

Það var alltaf jafn notalegt að koma í Efstaleitið til afa, hvort heldur sem var að fara í sund þar sem afi kíkti á okkur af svölunum eða setjast niður með kaffi og randalínu og hlusta á sögurnar hans. Á aðventunni vorum við vanar að fara og hjálpa afa að setja upp jólatréð og skreyta fyrir jólin. Þetta árið var engin undantekning þar á en jafnvel þó að afi hafi ekki náð að sjá jólatréð nema á mynd vitum við að honum þótti gott að vita að það beið hans heima.

Okkur þótti einstaklega vænt um elsku afa Tómas. Blessuð sé minning hans.

Kristín María, Þórdís Björk og Hildur Margrét.

Elsku afi Tómas kvaddi þennan heim á aðfangadag jóla 91 árs gamall. Þegar við systkinin sitjum saman og hugsum um afa hrannast upp minningar. Við munum eftir afa sem miklum rútínumanni sem byrjaði alla daga með morgunleikfimi, einhvers konar eigin útfærslu á Müllers-æfingum, þar sem hver vöðvi líkamans var vandlega þjálfaður. Hann lagði frá unga aldri áherslu á heilbrigt líferni en þó ekki svo að hann neitaði sér um Jaffakökur eða Creme Caramel sem hann hafði mikið dálæti á. Afi var mikill sögumaður og sagði okkur gjarnan sögur frá uppvaxtarárum sínum og þar munum við sérstaklega eftir sögum af hundinum Gosa og þeirra ævintýrum. Ekki skemmdi fyrir góðri sögu að fara með hana oftar en einu sinni og hafði afi sjálfur jafngaman af frásögninni í hvert sinn. Frásagnir hans enduðu gjarnan með innilegum og smitandi hlátri svo við barnabörnin gátum ekki annað en hrifist með þótt við hefðum heyrt söguna oft áður. Svona munum við eftir afa, glaðlyndum og heillandi og alltaf stutt í strákslega glampann í augunum. Hann hafði gaman af töfrabrögðum og var ávallt til í að galdra fyrir okkur barnabörnin. Sérstakt yndi hafði hann af því að sjá viðbrögð okkar við því þegar hann lét smápening hverfa og birtast aftur á ýmsum stöðum. Í seinni tíð fannst okkur gaman að sjá hann framkvæma sömu töfrabrögð, núna fyrir langafabörnin, með sömu innlifun og gleði og við munum eftir úr okkar bernsku.

Afi elskaði England og sérstaklega Bournemouth og eigum við öll góðar minningar þaðan. Það var hans annað heimili þar sem hann gat sameinað golfáhugann og samveru með fjölskyldu og vinum. Við urðum oftar en ekki þeirrar gæfu aðnjótandi að vera boðið út með afa. Mikið sem okkur fannst við vera heppin að fá að fara með þessum glæsilega manni út á hina ýmsu veitingastaði hvort sem var erlendis eða hér heima. Séntilmaður fram í fingurgóma, það var hann afi okkar. Innanlandsferðirnar voru ekki síðri og þar standa upp úr árlegar veiðiferðir austur í Selá, sem voru ævintýri frá upphafi til enda. Afi var mikil veiðikló og kenndi okkur að meta stangveiði ásamt „high-tea“ á árbakkanum með aðstoð prímusar. Í lok hvers veiðidags safnaðist fjölskyldan saman í litla heita eldhúsinu í veiðihúsinu þar sem farið var yfir hetjusögur dagsins, og var þar afi oftar en ekki fremstur í flokki. Þessar ferðir tengdu okkur sterkum böndum sem og allir þeir atburðir sem afi og amma stóðu fyrir, svo sem hið árlega þorrablót með félagsvist, laufabrauðsgerð og ótal fleiri samkomur fjölskyldunnar.

Þegar við sitjum hér og hugsum til afa kemur orðið kærleikur aftur og aftur upp í hugann og sá kærleikur sem ríkti milli afa og ömmu er okkur mjög minnisstæður. Elsku afi, mikið eigum við eftir að sakna þín en við vitum að þú ert sáttur við hvíldina og við það að vera sameinaður ömmu Þóru á ný. Takk fyrir allt, við munum bera kærleik þinn áfram í hjörtum okkar.

Berglind Þóra, Björn

Steinar og Guðný Anna Árnabörn.

Göldrótti frændi er horfinn á braut. Hann fullyrti í stofunni í Stefánshúsinu að ég væri með túkall í vinstra eyranu. Ég þóttist nú vita betur og þvertók fyrir það. Hann seildist þá til og dró þaðan þessa fjármuni og rak framan í mig til sannindamerkis. Það var ekki ónýtt að eiga slíkan frænda.

Hann er sá maður sem ég man fyrstum eftir þegar hann bjargaði okkur, mömmu og Ernu, úr hellirigningu í berjamó „inn í landi“ – fyrir sex áratugum. Ímynd hans er síðan órjúfanlega tengd Seyðisfirði. Af öllum hugstæðum Hánefsstaða-galdrafrændum var hann nánastur. Þau, hann og móðir mín, Björg Hermannsdóttir, voru fædd sama sumarið á Hánefsstöðum. Feður þeirra stunduðu útgerð þar frá Hánefsstaðaeyrinni – ásamt afa þeirra. Þegar þau voru á fyrsta ári mátti engu muna að þau misstu feður sína í sjóslysi í Hornafjarðarósi. Starfsævi feðra þeirra var – ef svo má að orði komast – samsíða alla tíð.

Þau frænd- og leiksystkini ólust upp við leik og störf, mest í kringum Hánefsstaðaútgerðina, Tommi á Háeyri, hún á Hrauni. Af samskiptum þeirra eru ýmsar spaugilegar sögur – ekki alltaf á einu máli um þjóðmálin og mátti engu muna að hún hrinti honum í sjóinn af Hánefsstaðabryggjunni í einni rimmunni – sex ára. Þau gengu saman í skóla á kreppuárunum í litla skólahúsinu á Þórarinsstaða-eyrum, löngum sessunautar. Þegar hún var svo komin í MA, reif Tommi sig upp frá Eiðum; stóðst ekki mátið, sagði hann mér, hætti við að fara í íþróttaskóla og þau urðu samferða gegnum stærðfræðideild MA. Sú þúfa velti nokkru hlassi.

Síðan eru liðnir mannsaldrar og nú að leiðarlokum fylgir kveðja hennar og þeirra systra frá Hrauni.

Hjalti Þórisson.

Föðurbróðir minn Tómas Árnason hefur kvatt okkur með reisn og er nú genginn á vit bræðra sinna, forfeðra og formæðra. Já og til hennar Þóru sinnar. Tommi frændi var einn af þessum mönnum sem náðu háum aldri án þess að verða gamall. Hann varðveitti strákinn í sér alla tíð og kunni að leika sér. Ég hitti hann síðast í nýliðnum nóvember á tónleikum og merkti þá að hann var orðinn gamall maður, þreyttur og saddur lífdaga, en samt fallegur og brosandi eins og jafnan.

Það er langur vegur frá Hánefsstaðaeyrum við Seyðisfjörð árið 1923 til ársfunda Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Alþjóðabankans í Toronto haustið 1981. Er hér var komið sögu var Tommi á hátindi síns ferils sem stjórnmálamaður, viðskiptaráðherra í ríkisstjórn Gunnars Thoroddsen, mættur á þessa ársfundi ásamt fleiri ráðherrum úr þeirri ríkisstjórn. Við hjónakornin vorum í framhaldsnámi þar í borg þegar Tommi og Þóra komu á þessa stóru fundi heimsviðskiptanna og auðvitað kom ekki annað til greina af þeirra hálfu en að bjóða okkur í móttöku þar sem ég þurfti að fá lánuð jakkaföt og slaufu til að vera nægjanlega fínn. Endurgjaldið var bæjarferð með lélegri leiðsögn af minni hálfu um Toronto og nágrenni á bílaleigubíl sem ég ók en Tommi borgaði. Þannig var hann alltaf gagnvart mér og mínum, gaf meira en hann fékk á móti og velti því ekki fyrir sér.

Tommi var klókur maður í jákvæðustu merkingu þess orðs og sýndi ógjarnan þau spil er hann hafði á hendi. Hann framdi töfrabrögð í jólaboðum bernsku minnar sem ég gleymi aldrei og ég furða mig enn á því hvað hann gerði við hin horfnu spil. Er á ævi okkar leið fékk ég að sjá fleiri af spilunum hans þegar við fórum að tala saman og kynnast sem fullvaxta menn. Hann var meiri keppnismaður en gerist og gengur. Fyrir utan fimleika, frjálsar íþróttir, skíðamennsku og laxveiði, var það golfið sem átti hug hans og bræðra hans. Þar fengu þeir útrás fyrir strákinn í sjálfum sér og voru alltaf að keppa. Það eru mikil forréttindi að hafa fengið að upplifa einlæga vináttu þeirra bræðra og fá að vera með í leiknum. Það var alltaf sett upp keppni. Tommi vann oftast, enda frábær golfari. Ég gleymi aldrei gleðinni þegar Tommi fékk örninn á átjándu holunni á Turnberry í Skotlandi. Við pabbi vorum í hollinu á eftir og Tommi stóð úti á stéttinni við flötina er við komum í hús með léttan drykk og opinn reikning á barnum fyrir okkur hina.

Lífsgildi Tomma voru skýr, áreiðanleiki, festa og kímni í ríkum mæli. Hugsjónamaður var hann og mikill reglumaður, trúði á samvinnu- og manngildishugsjónina. Það versta við andlát hvers og eins er óafturkræfnin sem því fylgir. Nú hittum við Tomma frænda ekki aftur í frændagolfinu þar sem keppt hefur verið um sama bikarinn síðan árið 1966. Þeir Árnasynir frá Hánefsstöðum verða samt með okkur hinum í anda um sinn.

Samúðarkveðjur frá okkur Helgu til ykkar kæru frændur og til fjölskyldna ykkar. Þá viljum við einnig votta Möggu frænku samúð okkar af þessu tilefni.

Árni Vilhjálmsson.

„Glaðr ok reifr

skyli gumna hverr

unz sinn bíðr bana.“

(Hávamál)

Það er ekki sólskin yfir byggðinni á Seyðisfirði nú um stundir. Vinur okkar, Tómas Árnason, fór á vit feðra sinna á aðfangadag jóla.

Kunningsskapur okkar hófst við fótbolta- og skíðaiðkanir á Seyðisfirði fyrir 80 árum, en varð um síðir að vináttu sem entist ævilangt.

Seyðisfjörður bar á bernskuárum okkar enn þess merki að hafa verið einn mesti menningarbær landsins, en hafði ekki farið varhluta af heimskreppunni. Blómlegt atvinnulíf hafði verið lagt í rúst, en við börnin vorum svo lánsöm að mega vera þátttakendur í öllum daglegum endurreisnarstörfum. Sem strákar byrjuðum við í saltfiski eða við heyannir fyrir 10 ára aldurinn og Tómas var orðinn háseti á Magnúsi fljótlega eftir fermingu. Hann hóf nám í Eiðaskóla, ætlaði þaðan til framhaldsnáms við íþróttakennaraskóla úti á Fjóni, en stríðið og hernámið komu í veg fyrir það. Hann hefði örugglega orðið góður íþróttakennari, jafn barngóður og hvetjandi sem hann var.

Þess í stað beindi stríðið honum til Akureyrar. Á samvistarárum okkar í MA héldum við áfram sambandi okkar við íþróttaiðkan, en þar byrjuðum við einnig að karpa í pólitík og síðan með vaxandi þunga í háskólanum, hann, forpokaður framsóknarmaðurinn, var í „Bondepartiet“ en ég, íhaldsmaðurinn, í Vöku.

Við höfum síðan ævinlega verið miklir og hreinir andstæðingar í pólitík og notið þess til hins ýtrasta að finna veikleikamerki hvor hjá öðrum vegna afstöðu til þjóðmála á hverjum tíma og þá ekki legið á liði okkar með skammfæringar. Allt í kerskni, og þó?! Stundum kvað svo rammt að, að við skildum í fússi og maður reiknaði ekki með að talast við næstu vikurnar. Þá var gott þegar síminn hringdi um kvöldmatarleytið: „Sæll vinur, hvað segirðu gæskur? Eigum við ekki að skrá okkur á Hvaleyrina kl. 9:10 á morgun?“ Það er gott að eiga svona andstæðing að vini.

Það er merkilegt, þegar litið er um öxl, að sjá samveru okkar byggjast á hverjum vettvangi íþróttanna á eftir öðrum og fá um leið möguleika á að styrkja vináttuna í lifandi átökum um hversdagsleg og pólitísk málefni.

Síðast voru það laxveiðar og ekki síst golfíþróttin, sem við höfum stundað reglulega saman síðustu 60 árin, þar af liðlega 35 ár með félögum okkar Eiríki Smith og Gísla Sigurðssyni, bæði hér heima og erlendis.

Tómas var auk þess framúrskarandi skákmaður og hann sýndi það á skákborði þjóðmálanna, náði yfirburðastöðu í endataflinu, útsjónarsamur og klár.

Við Bitten áttum góðar stundir með þeim Þóru, bæði heima og heiman. Þau voru tíðir aufúsugestir í íbúð sem við áttum hlut í um skeið í Bournemouth. Þóra lézt 2007 og Tómas varð í raun aldrei samur eftir.

Þegar sól hætti að skína á Seyðfirðinga í haust hætti Tómas að mæta á Jómfrúnni á fimmtudögum. Hann gaf í skyn að hann ætti skammt eftir og kviði því í engu, sannfærður um endurfundi við gengna ástvini. „Ég skrái rástíma um leið og þú kemur yfrum, vinur.“

Á Þorláksmessu sagði hann mér að dag væri að lengja.

Vertu sæll, gæskur.

Við Bitten þökkum samveruna.

Sveinn Snorrason.

Tómas Árnason hóf ungur afskipti af stjórnmálum, enda alinn upp við framsóknarstefnuna frá æskuárum sínum við Seyðisfjörð. Fólkið á Hánefsstöðum var enda eindregið flokksfólk og dugnaðarfólk að hverju sem það gekk. Tómas var steyptur í sama mót og þótti fylginn sér og ákveðinn í umræðu um landsmálin, en aldrei illskeyttur eða ódrengilegur. Átti hann sér því ýmsa harða andstæðinga en einnig góða samstarfsmenn og félaga úr ýmsum flokkum þó hart væri tekist á í stjórnmálunum, t.d. þann tíma sem Tómas sat á þingi. Sérstaklega var kært með þeim Eysteini Jónssyni og unnu þeir náið saman.

Tómas vann mikilsvert og ósérhlífið starf fyrir Ísland og Framsóknarflokkinn um áratuga skeið og var óbilandi við að afla hófsamri framfarastefnu fylgis. Hann gegndi fjölmörgum trúnaðarstörfum fyrir flokkinn og naut trausts flokksmanna. Innti hann öll þau störf af hendi af dugnaði og myndugleik, jafnt þingmennsku, trúnaðarstörf í forystu flokksins og ráðherradóm, og hvað það annað sem óskað var af honum. Fyrir það vil ég þakka sérstaklega.

En Tómas var einnig íþróttamaður góður, enda alinn upp í hugsjónum ungmennahreyfingarinnar, spjótkastari og vel liðtækur kylfingur fram á síðustu ár. Hann var reyndur og vel menntaður lögfræðingur, reglumaður og hress og léttur samstarfsmaður. Rætur hans lágu alla tíð til Seyðisfjarðar, þar sem hann var í miklum metum og átti góða vini.

Ég votta aðstandendum Tómasar innilega samúð við fráfall hans. Minning hans lifir.

Sigmundur Davíð

Gunnlaugsson.

Helgi jólanna birtist okkur með sama margbreytileika og lífið sjálft. Kynslóðir koma, kynslóðir fara, syngjum við um áramót og þannig kveðjum við góðan vin, Tómas Árnason, sem hefur tekið þátt í að móta meiri breytingar í landinu en flestir núlifandi menn.

Á Hánefsstöðum fæddist hann og sleit barnsskónum. Þar vandist hann vinnu til lands og sjávar. Leiðin lá til mennta, en þá var enginn menntaskóli á Austurlandi. Hann fór til Akureyrar og gekk oft á tíðum hluta leiðarinnar. Á leiðinni var gist á bæjum og meðal annars hjá Jóni í Möðrudal. Hann var sögumaður og lýsti hvernig Tómas stökk yfir bæinn. Hvað sem því líður bjó Tómas að þeim líkamlega styrk sem hann öðlaðist á yngri árum. Hann tók þátt í íþróttum og vann mörg afrek. Íþróttir og heilbrigt líferni átti hug hans.

Það var mikil lífsreynsla að vera samferðamaður Tómasar í stjórnmálum á Austurlandi. Við vorum kjörnir samtímis til Alþingis 1974 og áttum náið samstarf þar til hann lét af þingmennsku. Áður hafði hann tekið virkan þátt í störfum Framsóknarflokksins og gegnt mörgum trúnaðarstörfum. Ungur hreifst hann af Eysteini Jónssyni og var náinn samstarfsmaður hans og vinur. Eysteinn leitaði til hans með erfið verkefni sem Tómas sinnti af trúmennsku. Þeir stunduðu saman útivist og varð frægt þegar Tómas bar hann fótbrotinn heim.

Á þessum árum ríkti mikil bjartsýni í sjávarútvegi. Það var almenn trú að fiskvinnsla yrði burðarás í byggðunum, togarar voru keyptir og frystihús byggð. Tómas var þá einn af framkvæmdastjórum Framkvæmdastofnunar. Það var framfarahugur í bæjum og þorpum á Austurlandi og vilji til uppbyggingar. Kröfur voru gerðar til Tómasar sem reyndi sitt besta til að aðstoða. Á fundum var þörfin fyrir uppbyggingu í atvinnu- og samgöngumálum aðalumræðuefnið. Eitt sinn á fundi sagði ágætur prestur að vegurinn í sveitinni væri svo hættulegur að hann þyrfti að biðja fyrir slysalausri för sóknarbarnanna á hverjum sunnudegi, en hann gæti ekki sagt það sama um þingmenn. Blessunarlega komumst við leiðar okkar trúir því að allir væru jafnir fyrir Guði og stuttu síðar var vegurinn bættur.

Tómas var kunnugur öllum aðstæðum á Austurlandi. Þekkti marga sem hann kynnti mig fyrir. Var aufúsugestur á heimilum þar sem við þáðum veitingar og gistingu. Margir af góðvinum hans urðu vinir mínir. Það er ómetanlegt að fá slíka leiðsögn í upphafi starfa. Tómas hafði kynnst þessu fólki á uppvaxtarárum, í starfi og á ferðalögum með Eysteini og Vilhjálmi frænda sínum. Einnig átti hann og kona hans mikinn frændgarð.

Segja má að Tómas hafi fyllt skarð Eysteins þegar hann var kjörinn á þing 1974. Eftir það tókst gott samstarf milli hans og Ólafs Jóhannessonar. Hann bar traust til Tómasar, sérstaklega í efnahags- og fjármálum. Því miður voru þau ekki alltaf höndluð af ábyrgð og var það Tómasi raun. Sem fjármála- og viðskiptaráðherra vildi hann standa fastar á aðhaldssömum skoðunum. Margt hefði farið betur ef hann hefði fengið meiru ráðið.

Tómas var gæfumaður í lífinu. Synir hans fjórir og aðrir afkomendur hafa glatt hann með umhyggju og farsælum störfum. Hann var stoltur af uppruna sínum og fjölskyldu. Við Sigurjóna kveðjum Tómas með virðingu og þakklæti. Einnig þakka ég hans góðu störf fyrir Framsóknarflokkinn, Austurland og þjóðina alla. Fjölskyldu hans votta ég samúð og bið góðan Guð að blessa minningu hans.

Halldór Ágrímsson.

Tómas Árnason var einn af þremur bankastjórum Seðlabanka Íslands á árunum 1985 til 1993. Jóhannes Nordal var mestallt tímabilið formaður bankastjórnarinnar. Bankastjórarnir skiptu með sér deildum og verkefnum bankans. Ég var stóran hluta þessa tímabils í hagfræðideild bankans en hún var ekki á verksviði Tómasar. Við áttum eigi að síður margvísleg samskipti. Ég minnist þess að tölvumál bankans voru að minnsta kosti um hríð á verksviði hans. Hann sagði þau átaksill og mátti það örugglega til sanns vegar færa því á þeim tíma, og kannski enn, höfðu margir sterkar skoðanir á eigin þörfum í því sambandi og fylgdu þeim eftir með miklum tilfinningum. En Tómas var vel úr garði gerður til að eiga við það, því þótt hann gæfi lítið eftir af skoðunum sínum var hann einstaklega ljúfur maður og lipur í mannlegum samskiptum. Sú minning lifir einnig í bankanum að hann hafi verið áhugasamur um starfsmenn og málefni þeirra.

Tómas hafði auðvitað sínar skoðanir á stjórn efnahagsmála. Hvað stjórn peningamála varðar var hann kannski minna á aðhaldshliðinni en sumir aðrir en það held ég að hafi ekki komið í veg fyrir að hann styddi nauðsynlegar en erfiðar aðgerðir þegar því var að skipta. Ég minnist þess að skömmu eftir að Tómas kom í bankann var ég fenginn til að fara yfir einhverja þætti í gengis- og peningamálum með honum. Ég held að honum hafi þótt ég helst til harður í afstöðu minni. Hann þekkti lítið til mín og spurði víst hina bankastjórana á eftir hvort ég væri einhver hægri maður.

En þrátt fyrir mismunandi áherslur var alltaf gott að ræða við Tómas um þessi mál sem önnur. Þau samtöl urðu mun fleiri eftir að ég kom aftur í bankann 1991. Þá voru spennandi tímar þar sem verið var að þróa peninga- og gjaldeyrismarkaði í aðdraganda losunar fjármagnshafta sem lauk undir miðjan tíunda áratuginn. Hann studdi umbæturnar en mig minnir að Tómas hafi verið einn af þeim sem skynjuðu hættur í því að fara of geyst í losun haftanna. Síðar kom fram að hann taldi að of langt hefði verið gengið í því að gefa fjármálakerfinu lausan tauminn. Í ljósi sögunnar verður ekki sagt annað en að þar hafi Tómas haft nokkuð til síns máls.

Eftir að ég varð seðlabankastjóri á árinu 2009 átti ég við margvísleg tækifæri samtöl við Tómas. Til viðbótar við hið efnislega þótti mér gott að skynja stuðning hans og hlýju. Fyrir það vil ég þakka. Meira er þó vert að minnast framlags Tómasar til Seðlabankans á miklum umbrotatímum. Ég votta afkomendum Tómasar samúð mína.

Már Guðmundsson.

Það er gangur lífsins að samferðamennirnir kveðja. Á aðfangadag hringdi Eiríkur Tómasson í mig og sagði mér lát föður síns. Tómas Árnason var einn af eftirminnilegum samferðamönnum mínum. Hans er gott að minnast. Við áttum samleið í stjórnmálum á Austurlandi um árabil . Okkar kynni hófust á sjöunda áratugnum á síðustu öld þegar hann tók sæti á framboðslista fyrir austan. Það var gott að starfa með Tómasi, með okkur tókst gott samstarf og vinátta sem ég vil þakka að leiðarlokum. Hann var eftirminnilegur, létt yfir honum, en jafnframt var hann baráttumaður. Hann var glæsilegur maður og kvikur á velli og íþróttaiðkanir áttu sinn þátt í því. Hann var afreksmaður í íþróttum á unga aldri og tilheyrði gullaldarliði Ungmenna- og íþróttasambands Austurlands í frjálsum íþróttum með spjótkast sem aðalgrein. Það kom í ljós þegar við fórum að ferðast saman um Austurlandskjördæmi að tengingar hans í gegnum íþróttirnar voru miklar og traustar og á vegi okkar urðu margir góðvinir hans af þeim vettvangi frá fyrri árum. Í öðru lagi var hann Seyðfirðingur og átti þar djúpar og sterkar rætur frá sínum uppvexti á Hánefsstöðum þar sem hans foreldrar og ættmenn bjuggu.

Tómas var reglusamur maður í öllu tilliti og mátti mjög margt af honum læra í þeim efnum. Hann var vinnusamur og vildi hafa góða reglu á öllum hlutum. Honum var falinn mikill trúnaður á þeim sviðum sem hann gaf sig að. Hann sat í stjórn Framsóknarflokksins um árabil sem ritari og gjaldkeri, var framkvæmdastjóri Framkvæmdastofnunar ríkisins, sem nú er Byggðastofnun, á árunum 1974-1978 og fjármála- og viðskiptaráðherra á árunum 1978-1983. Árið 1984 dró hann sig út úr stjórnmálum og gerðist einn af bankastjórum Seðlabanka Íslands. Þetta er ófullkomin upptalning af minni hálfu og nær aðeins til þess tíma sem við vorum samstarfsmenn í stjórnmálum, en ég tók sæti hans á Alþingi í upphafi árs 1985 þegar hann hætti á þeim vettvangi. Hann gegndi fjölmörgum trúnaðarstöfum af ýmsu tagi, enda munaði um hann þar sem hann lagði hönd að verki. Tómas var virtur lögfræðingur með víðtæka reynslu á því sviði. Síðustu árin sat hann á friðarstóli og hélt heilsu og kröftum fram undir þennan dag og áttu íþróttaiðkanir drjúgan þátt í því, en hann stundaði golf seinni árin af krafti og var liðtækur í því sem öðru er hann tók sér fyrir hendur.

Síðast bar fundum okkar Tómasar saman í Mjóafirði á yndislega fallegum sumardegi þegar við fylgdum Vilhjálmi Hjálmarssyni til grafar. Vilhjálmur var frændi hans, vinur og samstarfsmaður. Það voru mikil forréttindi að fá að starfa með þeim báðum og ómetanlegt fyrir þá sem voru að stíga sín fyrstu skref í stjórnmálum. Fyrir þetta vil ég þakka og eftir standa minningarnar. Við Margrét færum aðstandendum hans innilegar samúðarkveðjur.

Jón Kristjánsson.

Tómas Árnason er mér ákaflega minnisstæður sem stjórnmálamaður. Ég kynntist honum fyrst á árunum upp úr 1980 þegar ég sat þingflokksfundi Framsóknarflokksins af og til bæði sem varaþingmaður og vararitari. Tómas var þá ritari flokksins og viðskiptaráðherra. Þegar hann stóð upp og hélt tölu í þingflokknum talaði hann af rökfestu og einurð um málefnin, en um leið og rökræðum eða umræðum var lokið – skipti hann gjarnan um gír og sló á létta, ljúfa strengi. Þetta er ákaflega mikilvægur eiginleiki sem væri gott að fleiri ættu í fórum sínum sem feta stíg stjórnmálanna. Það þarf festu og dugnað til að stýra málefnum áfram inni á þingi og í ríkisstjórn, en síðan verður fólk að kunna að njóta lífsins með félögum og vinum í léttu spjalli um daginn og veginn.

Ætíð þegar leitað var til Tómasar tók hann á móti beiðninni af ljúfmennsku og einlægni. Fyrir rúmum tveimur árum gengum við Vigdís Hauksdóttir á hans fund til að biðja hann um að skipa heiðurssæti á lista framsóknarmanna í Reykjavík suður. Hann tók okkur með mikilli alúð og gestrisni og gerði stundina eftirminnilega. Hann mætti síðar á kosningafundi glaður og reifur.

Stuttu síðar vorum við að undirbúa ráðstefnu um Rannveigu Þorsteinsdóttur, fyrsta kvenkyns þingmann Framsóknarflokksins og mikla baráttukonu m.a. fyrir auknum réttindum kvenna. Enn var leitað í smiðju Tómasar. Ég hafði frétt það að Tómas hefði verið skólabróðir hennar í lögfræðideild háskólans og að þau hefðu útskrifast saman árið 1949. Það ár varð þeim reyndar báðum gjöfult, Tómas gekk í hjónaband og Rannveig var kjörin á þing.

Minningabrotin sem hann flutti á ráðstefnunni voru í senn skemmtileg og fræðandi. Léttleiki og lífsgleði einkenndi hann sem og hæfileikinn að segja vel frá. Þessi útskrift þótti söguleg því að aldrei hafði svo „gamall“ einstaklingur – hvað þá kona – lokið háskólanámi. Þótt Rannveig væri af annarri kynslóð en strákarnir í deildinni, sátu þau Tómas saman í stjórn Orators, félags lögfræðinema. Hann hefur þá þegar verið kominn með þroskað umburðarlyndi og víðsýni.

Hin síðari ár vorum við nágrannar í húsinu Breiðabliki. Þar eins og annars staðar naut hann virðingar og var sambýlið við Tómas einkar ánægjulegt og gefandi, hvort sem það var á húsfundum, þorrablótum, sundi eða aðventuhátíðum. Einhverntíma í spjalli okkar tjáði hann mér að hann hefði ritað niður endurminningar sínar, en hann vildi ekki að þær yrðu gefnar út fyrr en að sér gengnum.

Tómas hélt andlegu atgervi til hinsta dags og lifði lífinu lifandi. Að áliðnu hausti/vetri sá ég hann síðast en þá var hann á leið ásamt fjölskyldumeðlimum í sumarhúsaferð yfir helgi.

Heimili Þóru og Tómasar var alla tíð rómað fyrir glæsileik og snyrtimennsku. Ég var snortin af því hvað honum tókst að halda heimilinu fallegu þó að hans ágæta kona væri horfin á braut.

Blessuð sé minning þessa sómamanns.

Sigrún Magnúsdóttir.

HINSTA KVEÐJA
Tómas langafi. Hann var skemmtilegur, góður og kunni alls kyns töfrabrögð. Hann varð 91 árs. Hann var skemmtilegur langafi. Ég mun aldrei gleyma honum.
Eva María Tómasdóttir,
8 ára.