Víkverji endaði árið 2014 og hóf 2015 með því að stútfylla vit sín af kverkaskít og kvefpest. Ekki er mælt með slíku. Það kemur í veg fyrir mannamót og almenna lífshamingju og upplifun um áramót.

Víkverji endaði árið 2014 og hóf 2015 með því að stútfylla vit sín af kverkaskít og kvefpest. Ekki er mælt með slíku. Það kemur í veg fyrir mannamót og almenna lífshamingju og upplifun um áramót. Til mótvægis sturtaði Víkverji í sig hóstasafti, hálstöflum, norskum brjóstdropum, tei, hitalækkandi töflum, verkalyfjum, ákavíti, koníaki og rommi. Allt var þetta samkvæmt læknisráði, nema kannski þetta síðasta, en Víkverji dreif sig á heilsugæsluna rétt fyrir áramótin og lét kanna hvort streptókokkar hefðu tekið sig upp eftir langvarandi dvala. Svo reyndist ekki vera og Víkverji var útskrifaður með þeim orðum að hann ætti að fara vel með sig og nota viðeigandi meðul og gömul húsráð við kvefi.

Svo kvefaður var Víkverji að hann treysti sér ekki út fyrir hússins dyr til að sprengja flugelda, nokkuð sem hefur ekki gerst síðan á ofanverðri síðustu öld. Skal það viðurkennast að tilfinningin var bara býsna góð að vera inni í hlýjunni og njóta flugeldanna þaðan, svo ekki sé talað um aukið öryggi. Skotgleði landsmanna ríður ekki við einteyming og má teljast kraftaverk að enginn hafi látið lífið við þessar aðstæður. Víkverji tekur undir með móður lítillar stúlku sem fékk flugeld í andlitið um áramótin, að við mættum ekki bíða eftir banaslysi til að herða reglur um sölu og meðferð flugelda.

Að allt öðru. Einn dáðasti tónlistarmaður þjóðarinnar, Gunnar Þórðarson, varð sjötugur síðasta sunnudag. Víkverji saknaði þess að sjá þátt í Sjónvarpinu um Gunnar og hans verk að kvöldi afmælisdagsins, frekar en þá hrútleiðinlegu heimildarþætti sem sýndir voru. Heiða Ólafs bjargaði heiðri RÚV þennan dag með prýðisþætti um lög Gunnars á Rás 2, sem fluttur var á milli útvarps- og sjónvarpsfrétta á sjöunda tímanum. Gunni Þórðar hefur samið yfir 700 lög, líkt og fram kom á baksíðu Moggans sl. laugardag, og margar af helstu perlum íslenskrar dægurtónlistar. Svo er hann magnað óperuskáld. Toppmaður, Gunnar Þórðarson!