Sigurbjörg „Rödd ljóðanna er í senn einlæg og kátleg, djúp og margræð.“
Sigurbjörg „Rödd ljóðanna er í senn einlæg og kátleg, djúp og margræð.“ — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Sigurbjörgu Þrastardóttur. Teikningar eftir Birtu Fróðadóttur. JPV útgáfa, 2014. 81 bls.

Það er við hæfi að heiti nýrrar ljóðabókar Sigurbjargar Þrastardóttur, Kátt skinn (og gloría) vísi til húðarinnar á þetta glaðhlakkalegan hátt, þar sem húðin er eitt stærsta líffæri mannslíkamans og sá ljóðheimur skáldsins sem hér birtist er afar líkamlegur. Þetta er líka vel lukkað verk; heildsteypt og marglaga, og hefur skáldið sjaldan eða aldrei verið í viðlíka leiftrandi stuði í bókum sínum. Rödd ljóðanna er í senn einlæg og kátleg, djúp og margræð.

Líkamlegur tónninn er sleginn strax í fyrsta ljóði bókarinnar: „Ynni / ég þér / yfirleitt // yxu þykkri sneiðar / um bein mín / og safar byltust í hvítu leðri / bei bí...“ (5) Í öðru á að nota nagla í vegg til að „kanna kjöthita baks“ og í enn einu ljóði hrífst mælandinn af „spakmælum sem lúta að lekum / skrokkum, er sérlegur sökker fyrir / latneskum orðum sem smjúga / merg ...“ (15)

Og í þessum líkamlegu og holdlegu myndum er kynlíf nærri, hvort sem amma í rútuferð stingur upp í ljóðmælanda „umslagi fullu af sæðishvítum sauðarosti“ eða ort virðist um fullnægingu eins og í „Að koma“:

Ránfuglsgoggar útúr mér

allri, síðu, mjóbaki, bringu,

kinnum, þverhníptum

lærum, stokkstrekki vöðva til að

fipa þá illa fiðraða en þeir

ydda sér

leið svo klofni

magaveggir og hráar

legkökur bíði síns

tíma, haldi ró (16)

Annað ljóð og ekki óskylt, „Brjóstin mín“, er fyrst upptalning á ítölskum orðum sem notuð eru til að lýsa hraða og áherslum í tónlist, svo koma íslenskar útleggingar þeirra: „Hratt ekki um of, hægt ekki um of, allgreitt með reisn...“ og romsan endar á: „... með gleði, líflega, minni hreyfing, ljúflega, marserandi // dolente – með sársauka“. Og auðvelt er að sjá fyrir sér ástarleiki og atlot.

Ljóðin eru þannig mörg um skynjun og viðbrögð, líkama og snertingu; ástin er nálæg og aðrar tilfinningar en líka galgopalegur húmor. En þótt ljóðin séu líkamleg þá fjalla þau um margt og vísa í fleira. Eitt er um sebrahest sem mætir í jarðarför, annað um stimpla æskunnar á Akranesi, þá er ort um flugfreyjur Ryanair, drauma, teikningu (í „Dieter teiknar, ekki Roth“), Guðrúnu Gjúkadóttur, og eitt besta ljóðið nefnist einfaldlega „Idjót“. Þar er ort um idjót sem eltir ljóðmælanda alla daga, veru sem aðeins ljóðmælandinn sér, sem hann bæði elskar og hatar, sem er gott að eiga „þegar dagarnir gliðna, þegar draumar / bresta, þegar ung kona stendur / andspænis óyfirstíganlegum vanda“, þetta er „karlkyns idjót, nóterið“ og „[enginn getur sorðið idjótið / mitt (enda tilfinningalaust) en hann / getur snöggtekið / mig, þetta virkar óréttlátt en virkar]“. Enda er ekki kvartað yfir þessu einskonar sjálfi, hann er „sá eini sem / veit í hvernig myrkri ég vil sofa /og er fullkomlega háður mér um mat“ (34).

Sigurbjörg nær sífellt áhrifaríkari tökum á þeirri íþrótt að skapa orð og setja ný saman. Í þessari bók eru stokkstrekktir vöðvar, kona liggur þyngdardreifð, glósólir kvikna, ein er orðsjúk og tærhúðuð og þolir ekki orðskáa heri, talað er um rótblinda hæðni, snertimörk og kjötsúld.

Finna má fyrir samtali skáldsins við kollega, til að mynda við absúrdisma Kristínar Ómarsdóttur og hversdagsfurður Gyrðis Elíassonar (út úr ljóðskógi kemur gangandi íkorni), og alltaf á jafningjagrundvelli.

Þótt Sigurbjörg geti leikið sér að laufléttu þuluformi, eins og í „Gloría“ þar sem nafnorð sem hefjast flest á stafnum k vella fram, er henni líka lagið að skapa knappar og áhrifaríkar myndir eins og í „Útey“, þar sem vísað er í fjöldamorðin í Noregi. Þar titra lífið og dauðinn efst í himingrænum trjákrónum, „valdar / greinar svigna ekki / nema um nætur (undan öllu sínu oki) / hinar tréna í hljóði / við hverja innöndun fugls, hvern væng sem vaknar / í eybláum svalanum og blóðtærum / himninum ...“ (44)

Birta Fróðadóttur hefur gert kápumynd og fínlegar teikningar, áhrifaríkar myndir sem tala vel með ljóðunum. Þær eru eins og arkitektúrískir uppdrættir af hverfum eða samgöngukerfum, en um leið myndir af fuglslegum furðuverum sem tengjast heildstæðum ljóðheiminum á áhugaverðan hátt.

Einar Falur Ingólfsson

Höf.: Einar Falur Ingólfsson