Óðinn Sigþórsson
Óðinn Sigþórsson
Eftir Óðin Sigþórsson: "„Af þessu leiðir að engin ný rekstrarleyfi í laxeldi verða gefin út á næstu árum.“"

Framkvæmdastjóri Landssambands fiskeldisstöðva er við sama heygarðshornið í grein sem hann ritar í Morgunblaðið 23. desember sl. Í greinarskrifum sínum verður framkvæmdastjóranum tíðrætt um umhverfisslys þegar þrjú þúsund eldislaxar sluppu úr sjókví í Norðfirði að hausti til fyrir rúmum áratug síðan. Af þeim atburði dregur hann rangar ályktanir. Þá komu eldislaxarnir fram í laxveiðiám allt frá Breiðdal í Vopnafjörð. Við mat á fjölda þeirra laxa sem þá veiddust verður að hafa í huga að um takmarkaðar tilraunaveiðar í ánum var að ræða. Allt styður þetta reynslu Norðmanna að strokulaxar leita aftur á eldissvæðið og einnig í nálægar laxveiðiár. Af þessu verður aðeins dregin sú ályktun að hið sama eigi við um þá laxa sem sluppu úr sjókvíum í Patreksfirði haustið 2013. Þá verður einnig að hafa í huga að rannsóknir hafa leitt í ljós að farleiðir laxa eru langar og laxinn heldur sig sem næst í 6-7 gráðu heitum sjó.

Hversu margir sluppu?

Framkvæmdastjórinn segir í grein sinni að fjöldi strokulaxanna skipti ekki höfuðmáli hér. Þessu er ég algjörlega ósammála og hef gagnrýnt hversu slælega þessi atburður var rannsakaður. Fyrirtækið tilkynnir til Fiskistofu að 200 laxar hafi sloppið og bætir svo við töluna nokkur hundruð löxum nú í sumar þegar búið er að veiða umfram þann fjölda. Framkvæmdastjórinn beinir því til mín í skrifum sínum að ég „færi fram gild rök“ um fjölda strokulaxanna. Er bæði ljúft og skylt að verða við þessari ósk hans. Sé miðað við að þeir 400 laxar sem veiddust séu helmingur þeirra laxa (50% veiðiálag) sem lifðu af sjávardvölina og afföll í sjó hafi aðeins verið 90% (10% endurheimtur) hafa a.m.k. 7000 laxar sloppið. Þess má geta í þessum samanburði að 6% endurheimtur seiða sem sleppt er í veiðiár teljast með besta móti. Í framangreindu dæmi eru gefnar forsendur þekktar og laxeldið látið njóta vafans þótt allar líkur bendi til þess að mun fleiri laxar hafi sloppið og hluti þeirra hafi leitað í laxveiðár á liðnu hausti til hrygningar. Er þá haft til hliðsjónar það sem gerðist í umhverfisslysinu í Norðfirði 1993. Hin nýstárlega kenning framkvæmdastjórans um að fáein hundruð strokulaxa hafi allir „hangið“ í köldum sjónum við kvíarnar um veturinn er aumt yfirklór og í ætt við annan málflutning laxeldismanna.

Engin ný rekstrarleyfi á næstu árum

Á vorþingi voru samþykktar umfangsmiklar breytingar á lögum um fiskeldi. Meginbreytingin lýtur að laxeldi í sjó. Með lögunum var settur á fót Umhverfissjóður sjókvíaeldis. Þessi umhverfissjóður er skondið fyrirbæri en meginverkefni hans er að greiða kostnað af umhverfisrannsóknum sem laxeldisfyrirtækin hefðu sjálf borið að öðrum kosti. Stóru tíðindin í breyttum fiskeldislögum eru hins vegar þær hertu reglur sem fara skal eftir varðandi útgáfu rekstrarleyfa. Er þar vísað m.a. í norska staðalinn NS 9415:2009. Af þessu leiðir að engin ný rekstrarleyfi í laxeldi verða gefin út á næstu árum. Skortur er á rannsóknum og þekking er ekki fyrir hendi til að uppfylla þær kröfur sem núgildandi lög gera til þessarar starfsemi. Þá er innleiðing norska staðalsins gríðarmikið verk sem er á byrjunarreit. Og nú hafa bæst við mikilvægar upplýsingar um afdrif strokulaxanna fyrir vestan sem kalla á ítarlegar rannsóknir um farleiðir laxa sem sleppa úr kvíum og á þeirri umhverfisvá sem strokulaxarnir geta valdið. Alþingi hefur mælt fyrir um að heildarendurskoðun fiskeldislaga fari fram á þessu ári. Við þá endurskoðun er eðlilegt að allir hagsmunaaðilar komi að borðinu en ekki einungis fulltrúi laxeldismanna, líkt og gerðist þegar frumvarpið til breytinga á lögunum var unnið. Ljóst er að líta þarf betur til lagaþróunar í nágrannalöndum okkar. Færeyingar hafa t.d. nýverið breytt lögum um laxeldi hjá sér á þann veg að erlendum fjárfestum er óheimilt að eiga meira en 20% í þarlendum laxeldisfyrirtækjum. Fyrirtæki sem ekki uppfylla þessi skilyrði þegar lögin voru sett fá aðeins auknar eldisheimildir ef um innlent fjármagn er að ræða til stækkunar. Þetta svipar til ákvæða á Íslandi um eignarhald í sjávarútvegi þótt ekki gangi löggjöf frænda okkar jafn langt. Þá er í gildandi lögum ekki fylgt meginsjónarmiðum um að þeir sem nýta sameiginlega auðlind þjóðarinnar greiði fyrir það eðlilegt endurgjald. Ókeypis úthlutun laxeldissvæða utan netlaga til einstakra fyrirtækja er ekki í samræmi við þróun um gjaldtöku í sjávarútvegi og umræður t.d. um vinnsluleyfi á olíu innan efnahagslögsögunnar. Það er með öllu fráleitt að erlendir fjárfestar eigi hér fyrirtæki sem njóta ókeypis takmarkaðra landgæða og flytji svo gróðann úr landi. Einnig þarf við heildarendurskoðun laganna að mæla með skýrum hætti fyrir um að hægt verði að kalla ábyrga aðila til fjárhagslegrar ábyrgðar vegna tjóns af völdum strokulaxa. Það er ekki boðlegt að laxeldisfyrirtækin skuli geta vikið sér undan því að kaupa tryggingar sem bæti þann skaða sem eldið kann að valda á eignum veiðiréttareigenda, þar sem hér er bæði um gríðarleg náttúrleg og fjárhagsleg verðmæti að tefla sem varin eru af lögum og nema tugum milljarða króna.

Höfundur er formaður Landssambands veiðifélaga.