GS4 er sagður vera kraftmikill borgarjepplingur og ætla Kínverjar að sækja með honum inn á markað í Norður-Ameríku og Evrópu.
GS4 er sagður vera kraftmikill borgarjepplingur og ætla Kínverjar að sækja með honum inn á markað í Norður-Ameríku og Evrópu. — Morgunblaðið/
Kínverjar horfa gott til glóðarinnar á bandarískum bílamarkaði. Til að mynda bílsmiðurinn Guangzhou Auto (GAC) sem vonast til að nýr og kraftmikill borgarjepplingur, GS4, slái í gegn á bílasýningunni í Detroit sem hefst síðar í vikunni.

Kínverjar horfa gott til glóðarinnar á bandarískum bílamarkaði. Til að mynda bílsmiðurinn Guangzhou Auto (GAC) sem vonast til að nýr og kraftmikill borgarjepplingur, GS4, slái í gegn á bílasýningunni í Detroit sem hefst síðar í vikunni.

GAC fer til Detroit með metnaðarfull áform og mun þar auk heimsfrumsýningar á GS4-bílnum mæta með tvo hugmyndabíla. Annars vegar ofursparneytinn Witstar sem haldið er fram að brenni aðeins um 1,8 bensínlítrum á hundraðið. Hins vegar GA6 GT sportbíll.

GAC heitir því í kynningu á GS4 fyrir sýninguna í bílaborginni Detroit, fyrstu stórsýningu ársins í Bandaríkjunum, að smájeppinn verði einkar kraftmikill. Tæpast verður hröðunin mikil því valkostirnir varðandi vélavalið eru annaðhvort 1,3 eða 1,5 lítra vélar með forþjöppu. Því verður þessi bíll líkast til aldrei keppinautur Porsche Macan um hylli neytenda.

Þótt GS4 sé tilbúinn fyrir raðsmíði hefur GAC aðeins birt teiknaða mynd af jepplingnum. Þar minna línur nokkuð á Land Rover Evoque, rétt eins og eitthvað hafi verið fengið að láni úr þeim bíl, eða hann allavega verið hinum kínversku hönnuðum innblástur. Segja þeir að yfirbyggingin veki tilfinningar sem létt höggmyndaverk væri.

GAC segir að þátttakan í sýningunni í Detroit sé fyrsta skrefið í að ryðja braut fyrir bíla sína í Norður-Ameríku og Evrópu. Hingað til hefur útflutningur þess einskorðast við nokkur lönd í Mið-Austurlöndum og Asíu. Ætlunin er að auka og breikka útrásina enn frekar og fyrst um sinn verður GS4 þar í fylkingarbrjósti.

agas@mbl.is

Ágúst Ásgeirsson