Gunnar Bragi Sveinsson
Gunnar Bragi Sveinsson
Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

„Minn vilji er ljós í þessu máli,“ segir Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, um möguleikann á því að ný þingsályktunartillaga verði lögð fram á þingi um að draga aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu til baka. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, sagði í viðtali í útvarpsþættinum Sprengisandi um helgina að gera mætti ráð fyrir slíkri tillögu von bráðar.

Gunnar Bragi segir þó fullsnemmt að tala um tímasetningar í málinu. „Það kemur fram í þingmálaskránni að möguleiki er á því að leggja fram þessa tillögu, en hún er hins vegar ekki komin á það stig að ég geti sagt hvenær eða hvort hún verður lögð fram,“ segir Gunnar Bragi. Hann bætir við að áður en til þess gæti komið yrði að bera tillöguna undir ríkisstjórn og fá samþykki hennar fyrir því að leggja hana fram.

Málþóf kæmi ekki á óvart

Gunnar Bragi segir að málið hafi ekki verið rætt sérstaklega við stjórnarandstöðuna. Aðspurður hvort ekki megi gera ráð fyrir svipuðum viðbrögðum frá stjórnarandstöðunni og þegar reynt var á síðasta vorþingi að draga umsóknina til baka segir utanríkisráðherra að það kæmi sér ekki á óvart þó að þeir stjórnarandstæðingar sem séu hlynntir aðild Íslands að sambandinu myndu reyna að þæfa málið á þingi.

„En þetta mál er þannig statt, bæði hér á Íslandi og í Evrópusambandinu að það væri glórulaust að ganga ekki frá þessu máli.“