[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Björn Jóhann Björnsson bjb@mbl.is Varðskipið Týr hefur komið að björgun fleiri en 2.000 flóttamanna á Miðjarðarhafi í fimm tilvikum síðasta mánuðinn.

Viðtal

Björn Jóhann Björnsson

bjb@mbl.is

Varðskipið Týr hefur komið að björgun fleiri en 2.000 flóttamanna á Miðjarðarhafi í fimm tilvikum síðasta mánuðinn. Skipið hefur verið að störfum við landamæraeftirlit undir merkjum Frontex, landamærastofnunar ESB, síðan 1. desember sl. en Týr sigldi úr höfn í Reykjavík 20. nóvember.

Halldór B. Nellet, skipherra um borð í Tý, segir skipið verða áfram á Miðjarðarhafi út febrúarmánuð og óvíst sé hvort vistin verði framlengd. Átján eru í áhöfn skipsins.

Týr hefur áður sinnt landamæraeftirliti fyrir Frontex á þessum slóðum, þar sem mikið er um að flóttafólki frá Afríku og Miðausturlöndum sé smyglað sjóleiðina til Evrópu.

Erfitt að finna smyglarana

„Hér áður var meira um að farið var með fólk á gúmbátum og smærri bátum yfir Miðjarðarhafið. Það er vaxandi straumur fólks frá Sýrlandi og Tyrklandi og algengara nú að keypt séu gömul flutningaskip, sem fara áttu í brotajárn, til slíkra flutninga. Það eru dæmi þess að fólk borgi sex til átta þúsund dollara til að fá að komast um borð,“ segir Halldór en Týsmenn komu núna síðast um áramótin að björgun 400 flóttamanna um borð í flutningaskipinu Ezadeen á Suður-Jónahafi, suður af Ítalíu.

Ítölsk lögregluyfirvöld, í samstarfi við Frontex, eru með til rannsóknar hverjir stóðu að flutningi þessara flóttamanna. Halldór segir oft erfitt að hafa hendur í hári skipuleggjenda, þeir geti jafnvel hafa leynst meðal farþega. Þegar neyðarkall barst frá Ezadeen á nýársdegi var skipið stjórnlaust í haugasjó. Virtist áhöfnin þá hafa yfirgefið brúna og skipið á fullri ferð.

Er Týr kom að skipinu var það enn á fullri ferð í átt að ströndum Ítalíu. „Við kölluðum það upp og báðum farþegana að reyna að minnka ferð þess svo að við kæmumst um borð. Það var ekki hægt þar sem búið var að eyðileggja öll stjórntæki í brúnni, að sögn konu sem varð fyrir svörum.“

Ekki reyndist Týsmönnum mögulegt að fara um borð í skipið á þessari ferð, en vont var í sjóinn og komið myrkur. Óskuðu Halldór og félagar þá eftir liðsinni þyrlu frá ítölsku strandgæslunni. Skömmu síðar drapst á vél Ezadeen og skipið stoppaði. Komust varðskipsmenn þá um borð, með vatn og vistir handa flóttafólkinu. Þegar einn vélstjóra Týs ætlaði að koma gangverkinu af stað kom í ljós að skipið var olíulaust, „ekki dropi um borð,“ eins og Halldór orðar það. Þyrlur frá Ítölunum komu til aðstoðar með flutning á vistum. Þegar tekist hafði að koma skipinu í tog dró Týr það til hafnar á S-Ítalíu og ítalskir strandgæslumenn urðu eftir um borð. Komu skipin til hafnar í bænum Corigliano að kvöldi 2. janúar.

Kalkúnninn tolldi ekki á diski

Þetta var fimmta aðgerðin sem Týsmenn tóku þátt í á Miðjarðarhafi frá því að varðskipið hóf störf í þessari lotu. Áður í desember hafði varðskipið fylgt flutningaskipum til hafnar á Ítalíu, yfirfullum af flóttafólki, og einnig tekið fólk um borð. Þannig kom útkall strax í fyrstu eftirlitssiglingunni en Týr hefur haft áhafnarskipti og aðstöðu á Möltu.

„Það er búið að vera mikið að gera hjá okkur. Við ætluðum að taka því rólega um áramótin en það varð ekki raunin. Við verðum eitthvað að fresta því að njóta áramótasteikarinnar. Við þurfum ávallt að vera til taks,“ segir Halldór en þegar neyðarkallið barst frá Ezadeen á nýársdegi var nautasteikin tilbúin í ofninum. Að kvöldi gamlársdags bauð kokkurinn á Tý upp á kalkún en þá var skipið statt í vondu veðri og Halldór segir veltinginn hafa verið slíkan að ekkert tolldi á diskunum.

Þegar Morgunblaðið ræddi við hann símleiðis í gær var varðskipið við eftirlitsstörf djúpt suður af Ítalíu og komið leiðindaveður enn og aftur.