Frans páfi skipaði tuttugu nýja kardínála á sunnudaginn var og þar af koma þrettán frá Afríku, Asíu og Rómönsku Ameríku. Talið er að eitt af markmiðum páfa með valinu á kardínálum hafi verið að endurspegla vöxt kaþólsku kirkjunnar í þróunarlöndum.

Frans páfi skipaði tuttugu nýja kardínála á sunnudaginn var og þar af koma þrettán frá Afríku, Asíu og Rómönsku Ameríku. Talið er að eitt af markmiðum páfa með valinu á kardínálum hafi verið að endurspegla vöxt kaþólsku kirkjunnar í þróunarlöndum.

Af nýju kardínálunum koma þrír frá Afríku, fimm frá Rómönsku Ameríku og fimm frá Asíu og Kyrrahafslöndum. Þeirra á meðal er Soane Patita Paini Mafi, biskup á Tongaeyjum í Kyrrahafi, sem er fyrsti kardínálinn frá eyjaklösunum í Pólynesíu. Hann er einnig yngsti kardínálinn, 53 ára að aldri.

Nýju kardínálarnir verða vígðir 14. febrúar og þá verða kardínálar kaþólsku kirkjunnar alls 228. Þar af eru 125 undir áttræðisaldri og geta því tekið þátt í páfakjöri.

Árið 1910 bjuggu 65% allra kaþólikka í heiminum í Evrópu og 24% í Rómönsku Ameríku og Karíbahafslöndum. Þetta hefur breyst mjög því samkvæmt tölum frá 2010 búa um 39% kaþólikka í Rómönsku Ameríku, 24% í Evrópu og 16% í Afríku.

Þrátt fyrir þessa breytingu hafa langflestir þeirra, sem Frans og tveir síðustu forverar hans hafa skipað kardínála, komið frá Evrópu, eða alls 57. Nítján kardínálar, sem páfarnir þrír skipuðu, komu frá Rómönsku Ameríku, 15 frá Afríku, 14 frá Asíu og þrír frá Kyrrahafslöndum. bogi@mbl.is