— Morgunblaðið/Þórður
Lögreglumenn á Suðurnesjum fundu um liðna helgi poka með hvítu efni í anddyri lögreglustöðvarinnar í Keflavík.

Lögreglumenn á Suðurnesjum fundu um liðna helgi poka með hvítu efni í anddyri lögreglustöðvarinnar í Keflavík. Það tók þá ekki langan tíma að hafa uppi á „eigandanum“ sem var karlmaður á þrítugsaldri, sem staddur hafði verið í anddyri stöðvarinnar skömmu áður.

Hann tjáði lögreglu að um væri að ræða fimm grömm af amfetamíni, sem hann hefði geymt í buxnastreng sínum að framan eða í nærbuxunum. Hefði hann ekki tekið eftir þegar pokinn datt í gólfið. Hann var handtekinn.

Ástæðan fyrir veru mannsins á lögreglustöð var sú að hann hafði verið farþegi í bifreið sem lögregla stöðvaði vegna gruns um fíkniefnaakstur. Ökumaðurinn, rúmlega tvítug kona, reyndist hafa neytt amfetamíns, kókaíns, metamfetamíns og ópíumblandaðs efnis, að því er sýnatökur á lögreglustöð staðfestu. Að auki var hún eftirlýst vegna afplánunar vararefsingar, segir í frétt frá lögreglustjóranum á Suðurnesjum.