París. AFP. | Líklegt er að þrívíddarprentarar valdi straumhvörfum í hergagnaframleiðslu og breyti stefnu ríkja í utanríkismálum þegar fram líða stundir, að mati tæknisérfræðinga.

París. AFP. | Líklegt er að þrívíddarprentarar valdi straumhvörfum í hergagnaframleiðslu og breyti stefnu ríkja í utanríkismálum þegar fram líða stundir, að mati tæknisérfræðinga. Þeir spá því einnig að þrívíddarprentarar geti ógnað fyrirtækjum í hergagnaiðnaði og jafnvel efnahag ríkja sem hafa byggt hagvöxt sinn á ódýru vinnuafli.

Í margra augum virðast þrívíddarprentarar enn vera fánýt leikföng, aðallega notuð til að búa til gagnslausa plasthluti. Þetta kann þó að breytast vegna þess að í ár renna út einkaleyfi á nokkrum mikilvægum nýjungum sem gætu leitt til mikilla framfara á þessu sviði á næstu árum. Aukin samkeppni í þróun þvívíddarprentara eykur líkurnar á því að settir verði á markað betri og ódýrari prentarar sem nota málma, tré eða ofin efni.

Loftför prentuð í flugvél?

Líklegt þykir að herir og hergagnaframleiðendur ryðji brautina á þessu sviði. Bandaríkjaher hefur þegar fjárfest í tækni sem nota á til að prenta búninga, gervihörund til að lækna sár og jafnvel matvæli, að sögn Alex Chausovsky, tæknisérfræðings hjá rannsókna- og ráðgjafarfyrirtækinu IHS Technology.

Vísindamenn við tækniháskólann MIT hafa þegar fundið upp „fjórvíddarprentara“ sem nota efni sem breytast þegar þau komast í snertingu við vatn. Hugsanlegt er að meðal annars verði hægt að nota slíka prentara til að prenta búninga sem breyta um lit eftir umhverfinu.

Nokkur fyrirtæki hafa fetað sig áfram á þessu sviði. Breski hergagna- og flugvélaframleiðandinn BAE Systems setti til að mynda fyrsta prentaða málmhlutinn í Tornado-orrustuþotu í lok nýliðins árs. Fyrirtækið telur að þegar fram líða stundir verði m.a. hægt að nota þrívíddarprentara inni í flugvél til að prenta lítil loftför sem hægt væri að skjóta út úr vélinni.

Verði hægt að nota þrívíddarprentara á vígvöllum gæti það valdið straumhvörfum í hernaði og hergagnaframleiðslu, að mati Peters W. Singer, hernaðarsérfræðings við hugveituna New America Foundation. „Hergagnafyrirtæki vilja selja varning en einnig sjá kaupandanum fyrir birgðum næstu 50 árin,“ segir Singer. En þetta breytist ef hermenn í afskekktri útvarðarstöð einhvers staðar, til dæmis í Afganistan, gætu notað tölvuforrit og prentað varahlutina út.“

Þetta gæti orðið til þess að herinn hætti viðskiptum við hergagnaframleiðendur og minnkaði viðskiptin við þau fyrirtæki sem halda velli. Það gæti haft alvarlegar afleiðingar fyrir atvinnulífið í löndum á borð við Bandaríkin þar sem milljónir manna starfa við hergagnaframleiðsluna.

Þrívíddarprentarar geta einnig grafið undan refsiaðgerðum og orðið þannig til þess að stefna stjórnvalda í utanríkismálum breytist.

„Bandaríkjastjórn hefur bannað sölu á margs konar varningi, allt frá varahlutum í orrustuþotur til olíuvinnslutækja. Refsiaðgerðir hafa verið mikilvægur þáttur í utanríkisstefnunni í áratugi en þrívíddarprentarar gætu gert þær að úreltu vopni,“ segir Singer.

Gætu haft alvarlegar afleiðingar

Þrívíddarprentarar gætu þó haft skelfilegar afleiðingar, t.a.m. ef hryðjuverkamenn geta fært sér þessa tækni í nyt. „Hugsum okkur að sprengjusmiðir í Mið-Austurlöndum gætu notað þrívíddarprentara til að búa til nýjar sprengjur, sem líkjast hversdagslegum hlutum, eða ef hryðjuverkamaður prentaði plastbyssu sem hann gæti laumað inn í Hvíta húsið,“ segir Alex Chausovsky.

Þrívíddarprentarar gætu einnig haft alvarlegar afleiðingar fyrir efnahag ríkja. Ef hver sem er gæti prentað föt, leikföng og annan varning gætu þrívíddarprentararnir kippt stoðunum undan efnahag ríkja sem hafa byggt vöxt sinn á síðustu árum á ódýru vinnuafli. „Ef menn vilja vita hverjum stafar mest hætta af þrívíddarprenturum ættu þeir að hugsa um hversu háðir Kínverjar hafa verið framleiðslu á ódýrri verslunarvöru,“ segir Chausovsky.

Hann telur að þrívíddarprentarar valdi byltingu á mörgum sviðum þegar fram líða stundir. „Með þrívíddarprenturum er hægt að framleiða vörur sem hefðu aldrei verið mögulegar með hefðbundnum aðferðum.“

Erfitt er þó að gera sér í hugarlund hvernig þessi tækni á eftir að nýtast, að sögn Matts Stevens, sem stjórnar þróun BAE Systems á þrívíddarprenturum. „Þetta er í fyrsta skipti í mjög langan tíma sem svo róttækar nýjungar koma fram í iðnaðarverkfræði,“ segir hann. „Við erum ekki aðeins að bæta hluti – við erum að umbylta leikreglunum.“