Steingrímur Ari Arason
Steingrímur Ari Arason
Eftir Steingrím Ara Arason: "„ ... þegar umframkomugjöldin voru tekin inn í gjaldskrána með samningnum sem tók gildi 1. janúar 2014 hækkaði vísitalan í stað þess að lækka.“"

Í upphafi árs 2014 tók gildi samningur Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) og sjálfstætt starfandi sérgreinalækna. Samningurinn byggðist á sameiginlegri stefnumörkun heilbrigðisráðherra og fulltrúa lækna frá 27. júní 2013, en þá höfðu SÍ verið án samnings við læknana frá 1. apríl 2011. Samningurinn var til fimm ára og á árinu 2014 er áætlaður fjöldi lækniskoma sem samningurinn tekur til um 475.000 og heildarkostnaður þjónustunnar um 7.400 m.kr.

Á samningslausa tímanum frá 1. apríl 2011 til ársloka 2013 var greiðsluþátttaka SÍ ekki verðbætt og er áætlað að kostnaðarhlutdeild sjúklinga hafi þá hækkað að meðaltali úr 31,7% árið 2010 í 41,9% árið 2013. Taxtar læknanna fylgdu almennri verðlagsþróun og öll taxtahækkunin féll á sjúklinga með fullum þunga. Áætluð „umframkomugjöld“ sjúklinga síðasta ár samningslausa tímabilsins eru 1.000-1.100 m.kr.

Samningurinn tryggði bætt aðgengi að þjónustu læknanna, en einnig að gjaldskrár þeirra hækka ekki umfram almennt verðlag. Ekki síst tryggði hann að greiðsluþátttaka SÍ tekur nú mið af raunverði þjónustunnar. Allt telur og enginn kostnaður umfram verðskrá SÍ er undanskilinn eins og í samnings-leysinu. Þrátt fyrir hækkun viðmiðunarfjárhæða í reglugerð um kostnaðarhlutdeild sjúkratryggðra, svo og aukna þjónustu og taxtahækkanir, hefur kostnaður sjúklinga þannig lækkað um 500 m.kr. milli ára eða úr 2.850 m.kr. árið 2013 í 2.350 m.kr. árið 2014.

Vísitala neysluverðs

Hagstofa Íslands áætlar að heildarkostnaður heimilanna vegna heilbrigðisþjónustu hafi verið 29.300 m.kr. árið 2013. Með hliðsjón af þjóðhagsspá og þróun vísitölu neysluverðs var þessi kostnaður um 31.300 m.kr. árið 2014. Af hækkuninni, 2.000 m.kr., verða um 550 m.kr. raktar til aukinnar þjónustu, en mismunurinn, 1.450 m.kr., til verðhækkana og aukinnar kostnaðarhlutdeildar heimilanna. Miðað við óbreytt umfang hefur heilbrigðiskostnaður heimilanna þannig hækkað um 5% á meðan vísitala neysluverðs hækkaði um 2%.

Hér er á hinn bóginn ekki allt sem sýnist. Við nánari athugun kemur í ljós að hagfræðingarnir í Borgartúninu hafa ekki tekið tillit til kostnaðarlækkunarinnar í ársbyrjun 2014 sem fylgdi læknasamningnum. Skýring Hagstofunnar er sú að verðbreytingar á þjónustu sérfræðilækna hafi ekki verið reiknaðar út frá raunkostnaði heldur útgefinni verðskrá Sjúkratrygginga Íslands! Með öðrum orðum, við útreikning á vísitölu neysluverðs hefur ekki viðgengist að Hagstofan taki tillit til umframkomugjalda sérfræðinga sem eru án samnings við SÍ. Afleiðingin er sú að þegar umframkomugjöldin voru tekin inn í gjaldskrána með samningnum sem tók gildi 1. janúar 2014 hækkaði vísitalan í stað þess að lækka.

Ef leiðrétt er fyrir framangreindri skekkju kemur í ljós að heildarkostnaður heimilanna vegna heilbrigðisþjónustunnar hækkaði ekki um tvo milljarða króna milli ára heldur einungis um einn milljarð króna, þar af um 550 m.kr. vegna aukins þjónustuumfangs. Miðað við óbreytt umfang hækkaði heilbrigðiskostnaður heimilanna í raun um 1,5% milli áranna 2013 og 2014 á meðan vísitala neysluverðs hækkaði um 2,0%. Þetta þýðir að á heildina litið lækkaði hlutdeild heilbrigðisútgjalda í kostnaði heimilanna milli ára, sem aftur má að stærstum hluta rekja til læknasamningsins og lækkandi lyfjakostnaðar.

Breytingar í vændum

Ef boðuð áform ríkisstjórnarinnar ná fram að ganga mun kostnaðarhlutdeild sjúkratryggðra vegna heilbrigðisþjónustu ekki lækka annað árið í röð. Þannig er í forsendum fjárlaga 2015 gert ráð fyrir að kostnaðarhlutdeild vegna þjónustu sjálfstætt starfandi sérgreinalækna verði færð í það horf sem var á árinu 2013. Ný reglugerð um hlutdeild sjúkratryggðra í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu hefur þó enn ekki tekið gildi.

Gangi áform ríkisstjórnarinnar eftir munu þau leiða til enn frekari hækkunar á neysluverðsvísitöl-unni. Það er á hinn bóginn umhugsunarefni að miðað við forsendur Hagstofunnar gæti ríkisstjórnin dregið úr útgjöldum ríkissjóðs og samtímis komið í veg fyrir hækkun vísitölu neysluverðs með því að segja upp samningnum við sérgreinalæknana og miða greiðsluþátttöku SÍ að nýju við útgefna verðskrá eins og gert var á árunum 2011-2013.

Forsendur Hagstofunnar vegna læknisþjónustunnar eru þess eðlis að afar mikilvægt er að þeim sé haldið til haga í umræðu um kostnað vegna heilbrigðisþjónustu landsmanna. Ef ekki reynist unnt að leiðrétta vísitöluna er einnig eftirsóknarvert að Hagstofan tryggi til framtíðar að sagan frá 1. janúar 2014 endurtaki sig ekki. Eins og er minnir málið um of á „súrálmálið“ í byrjun níunda áratugarins þegar í ljós kom að ÍSAL hafði hækkað aðföng til verksmiðjunnar á leiðinni til landsins. Í báðum tilvikum er um óviðeigandi hækkun að ræða, í öðru tilvikinu „hækkun í hafi“, en í hinu „hækkun í haga“.

Höfundur er forstjóri Sjúkratrygginga Íslands.

Höf.: Steingrím Ara Arason