Innstunga frekar en bensíndæla? Starfshópur rafmagnsverkfræðinga er alltént á þeirri skoðun.
Innstunga frekar en bensíndæla? Starfshópur rafmagnsverkfræðinga er alltént á þeirri skoðun. — Morgunblaðið/Kristinn
Starfshópur rafmagnsverkfræðingadeildar Verkfræðingafélags Íslands (RVFÍ) telur rafbíla vænlegan kost fyrir Íslendinga til að draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda og nýta vistvæna innlenda orkugjafa með tilheyrandi bættum þjóðarhag.

Starfshópur rafmagnsverkfræðingadeildar Verkfræðingafélags Íslands (RVFÍ) telur rafbíla vænlegan kost fyrir Íslendinga til að draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda og nýta vistvæna innlenda orkugjafa með tilheyrandi bættum þjóðarhag. Hefur hópurinn mótað tillögur um rafbílavæðingu Íslands, sem afhentar voru ráðherrum í ríkisstjórninni milli hátíðanna.

Þar er m.a. lögð fram tillaga að stefnumótun ríkisstjórnarinnar um rafbílavæðingu Íslands sem felur meðal annars í sér að vistvænar samgöngur verði efldar. Þar er áréttuð sú sérstaða Íslendinga að hafa aðgengi að endurnýjanlegum vistvænum auðlindum sem gerir okkur fært að vera í fararbroddi í umhverfismálum með því að nýta „grænt eldsneyti“ eins og raforku fyrir bílaflota landsmanna.

Minni losun meginmarkmiðið

Í stefnuyfirlýsingunni segir að stjórnvöld stefni að orkuskiptum í samgöngum með því að skipta alfarið úr hefðbundnu jarðefnaeldsneyti (bensín/dísil) yfir í aðra orkugjafa fyrir bíla og önnur ökutæki, orkugjafa sem eru endurnýjanlegir og upprunnir á Íslandi.

Meginmarkmið þessarar stefnumótunar séu draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og nýta sem best endurnýjanlegar og vistvænar orkulindir til að knýja samgöngutæki til að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar okkar á þessu sviði.

Mælt fyrir fyrir um að hlutdeild endurnýjanlegrar orku í samgöngum á landi verði 10% árið 2025 sem samsvarar því að 25 þúsund rafbílar verði í notkun í landinu. Kveðið er á um að sett verði upp net hleðslustöðva um land allt og sérstaklega í þéttbýli með samstarfi einkaaðila, sveitarfélaga og orkufyrirtækja.

Til þess að ná ofangreindum markmiðum fylgdi stefnumótunartillögunni aðgerðaáætlun um rafbílavæðingu sem felur í sér eftirfarandi opinberar ívilnanir sem gilda a.m.k. til ársloka 2025 eða fyrr þegar 10% markmiðinu hefur verið náð í rafbílavæðingu. Þar segir að engin innflutningsgjöld verði á rafbílum þar sem enginn útblástur gróðurhúsalofttegunda berst frá þeim. Ennfremur að enginn virðisaukaskattur verði greiddur af rafbílum, enginn virðisaukaskattur greiddur af rekstrarleigu rafbíla og enginn virðisaukaskattur verði greiddur af bílaleigu rafbíla.

Íslendingar gætu orðið fyrstir

„Íslensk stjórnvöld hafa haft breytingu í orkuskiptum í samgöngum að markmiði um nokkurt skeið en nú sést hilla undir að þetta sé raunhæfur möguleiki og hægt sé að ná þessu markmiði á mun skemmri tíma en áður var talið, m.a. sökum þess hve tækninni fleygir hratt fram. Staðreyndin er sú að rafbílar eru að verða vænlegur valkostur í samgöngum fyrir Íslendinga, bæði tæknilega og rekstrarlega séð og í framtíðinni verður þróunin enn frekar í þá átt. Bíllinn veitir okkur mikið frelsi og á hundrað árum hefur hann orðið helsta samgöngutæki heimsins og átt veigamikinn þátt í sókn til aukinnar velmegunar hérlendis sem erlendis. Á Íslandi hefur bíllinn gegnt lykilhlutverki við að halda landinu í byggð og tengja líf og starf landsmanna. Þegar kemur að rafbílavæðingu heimsins er mikilvægast að viðkomandi land framleiði rafmagn á vistvænan hátt eins og Ísland og Noregur. Framtak og stefnumótun Noregs varðandi rafbílanotkun er til eftirbreytni. Rafbíllinn hentar íslenskum orkubúskap einstaklega vel, sérstaklega í ljósi frekari framþróunar rafbíla og rafhlaðna. Það sama má segja um leiðir til að knýja skip og önnur tæki sem hafa til þessa notast við jarðefnaeldsneyti. Allt þetta gefur Íslandi mikla möguleika á að verða fyrsta land í heimi sem nýtir næstum eingöngu endurnýjanlega orkugjafa í samgöngum og til húshitunar,“ segir meðal annars í stefnumótuninni sem verkfræðingafélagið hefur lagt fyrir ríkisstjórnina.

Loks segir að margvíslegur árangur hafi náðst í þessu efni. Fleiri rafbílar og aðrar tegundir farartækja nýta endurnýjanlega orku, íblöndun í hefðbundið bensín, innlend framleiðsla lífeldsneytis er sprotavettvangur sem er í sókn og margt fleira mætti nefna. En betur má ef duga skal. Hvað vistvæna bíla varðar hafa gilt undanþágur frá lögum um virðisaukaskatt en þær eru tímabundnar. Framlengja þurfi þær, enda áhyggjur uppi um að verð á rafbílum og öðrum vistvænum samgöngukostum hækki ella verulega. Yrðu þær felldar niður væri fyrirsjáanlegt að sala rafbíla myndi hreinlega stöðvast. Bregðast þyrfti við þessu með því að horfa lengra fram í tímann.

agas@mbl.is

Ágúst Ásgeirsson