Guðmundur Þorleifsson fæddist í Hafnarfirði 14. janúar 1920. Hann lést á Hrafnistu í Hafnarfirði 22. desember 2014.

Foreldrar Guðmundar voru Sigríður Jakobsdóttir, f. 2. ágúst 1883, d. 31. janúar 1960 og Þorleifur Teitsson, f. 27. júní 1878, d. 31. mars 1968. Systkini hans eru Gróa, Júnfríður, Fríða, Valgerður og Teitur en af þeim er Gróa ein á lífi.

Guðmundur giftist Jóhönnu Jóhannsdóttur 24. mars 1945. Börn þeirra eru 1) Matthildur, maki Gísli Guðmundsson, 2) Jóhann, látinn, 3) Þorleifur, maki Hrefna Einarsdóttir, og 4) Guðmundur, maki Einína Einarsdóttir. Fimmta barn Jóhönnu og Guðmundar var drengur, andvana fæddur. Hálfsystir þeirra er María Jónasdóttir, maki Sverrir Jónsson. Barnabörnin eru 12, barnabarnabörnin 25 og barnabarnabarnabörnin eru 5.

Guðmundur útskrifaðist frá Stýrimannaskólanum, fór ungur til sjós og var bæði á togurum og bátum. Eftir að hann hætti til sjós starfaði hann sem verkstjóri hjá Bæjarútgerð Hafnarfjarðar. Guðmundur bjó alla sína ævi í Hafnarfirði

Útför Guðmundar fer fram frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, 6. janúar 2015, og hefst athöfnin kl. 13.

Góður vinur minn, Guðmundur Þorleifsson, er horfinn af sjónarsviði næstum 95 ára að aldri, er hann lést. Hann var meðal þeirra elstu innfæddu Hafnfirðinga, sem alla ævi hafa búið í Hafnarfirði. Með þakklátum huga minnist ég Guðmundar, sem var sannur heiðursmaður og traustur þegn síns bæjarfélags.

Guðmundur ólst upp í húsi foreldra sinna, Veðrási, við Kirkjuveg. Hann hlaut í uppeldi hollt veganesti foreldra sinna og hlúði dyggilega að þeim arfi í sínu lífi. Eftir að hafa á unglingsárum dvalist í sveit hóf Guðmundur sinn sjómannsferil 17 ára á bv. Baldri, en faðir hans átti þá hlut í því skipi.

Síðan var Guðmundur stýrimaður og bátsmaður um langt skeið á togurum Bæjarútgerðar Hafnarfjarðar og lengi á bátum útgerðar Einars Þorgilssonar og Co. og Íshhúss Hafnarfjarðar eða til ársins 1971. Eftir það var hann í starfi hjá Bæjarútgerðinni við veiðarfæri og umsýslan skipa og síðast hjá Hvaleyri h/f við sömu störf til ársloka 1990.

Náin kynni og einlæg vinátta okkar Guðmundar hófst eftir að hann fluttist til dvalar á Hrafnistu. Eftir vikulegan samsöng vistfólksins á Hrafnistu, sem við Guðmundur tókum oft þátt í, bauð hann mér alltaf að þiggja kaffi og kökur við borð sitt í matsalnum. Þar áttum við saman ánægjulegar samræður, en Guðmundur var stálminnugur um menn og málefni löngu liðins tíma og frásagnir hans mér lærdómsríkur skóli.

Í einni af merkum bókum, sem Jón Kr. Gunnarsson gaf út um þekkta Hafnfirðinga er afar fróðlegt viðtal við Guðmund en þar lýsir hann m.a. dvöl sinni í sveitinni á unglingsárum og segir frá lífshlaupi sínu. Er þessi bók, sem heitir „Sjávarniður og sunnanrok“ mjög áhugaverð til lestrar um ýmis atvik í lífi Guðmundar. – Guðmundur var vandaður í lífsháttum og sínum verkum, vinnusamur og ósérhlífinn, hjálpfús og góðviljaður og gæddur ríkri samviskusemi.

Um leið og ég flyt aðstandendum Guðmundar samúð mína er það bæn mín að birta minninganna um góðan föður verði börnum Guðmundar og öðrum aðstandendum styrkur og ljós á vegferð þeirra um alla framtíð.

Árni Gunnlaugsson.