Hin sígilda litasamsetning Shelby Cobra, blár með hvítum röndum.
Hin sígilda litasamsetning Shelby Cobra, blár með hvítum röndum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það eru komin heil fimmtíu ár síðan Carroll Shelby kynnti til sögunnar tveggja sæta orkubúnt sem við þekkjum í dag sem Shelby Cobra.

Það eru komin heil fimmtíu ár síðan Carroll Shelby kynnti til sögunnar tveggja sæta orkubúnt sem við þekkjum í dag sem Shelby Cobra. Bíllinn vakti þegar feikna-athygli og það segir sína sögu að enn í dag, hálfri öld síðar, er hann lítt breyttur útlits – enda fásinna að laga það sem ekki er bilað.

Sparileg hátíðarútgáfa

Þó að útlit Kóbrunnar sé eins í meginatriðum þá hafa framleiðendur séð til þess að 50 ára útgáfan hafi sín sérkenni. Bíllinn, Cobra 427, verður fáanlegur frá og með þriðjudeginum 13. janúar nk. og býðst með tveimur mismunandi yfirbyggingum. Annars vegar fæst hann með trefjagleri í hinni klassísku litasamsetningu, blár með hvítum sportröndum, hins vegar á háglansandi áli með matt-silfruðum röndum. Trefjaglersútgáfan kostar um 15 milljónir íslenskra króna, en í áli um 23 milljónir.

Þá verða bílarnir, í 50 tölusettum eintökum, merktir með snyrtilegum gullskjöldum til auðkenningar að um hátíðareintök sé að ræða. Ef marka má almennar vinsældir bílanna blasir við að ásókn verður í þessi fimmtíu eintök enda söfnunargildið ótvírætt, burtséð frá því að um tímalausa hönnun og töffaraskap er að ræða.

jonagnar@mbl.is