Ölvunarakstur er að sönnu umferðarböl hið mesta og tæknivæddi áfengismælirinn Breeze gæti þar verið öflugur og þakklátur liðsauki.
Ölvunarakstur er að sönnu umferðarböl hið mesta og tæknivæddi áfengismælirinn Breeze gæti þar verið öflugur og þakklátur liðsauki.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sé eitt af nýársheitum þínum að djamma af meiri ábyrgð en hingað til þá gæti lítið tól að nafni Breeze verið hjálplegt við það. Persónulegir áfengismælar eru sosum engin nýlunda en Breeze er þó búinn allra nýjustu tækni.

Sé eitt af nýársheitum þínum að djamma af meiri ábyrgð en hingað til þá gæti lítið tól að nafni Breeze verið hjálplegt við það.

Persónulegir áfengismælar eru sosum engin nýlunda en Breeze er þó búinn allra nýjustu tækni. Það er ekki einungis að hann mæli áfengismagn í blóði, heldur getur þessi 28 gramma lyklakippa með blátannarbúnaði og snjallsíma metið og upplýst veigamikla þætti aðra. Til dæmis getur tækið sagt nokkurn veginn til um tímann sem viðkomandi þarf til að runnið sé af honum. Snjalltólið varðveitir gögnin svo ökumenn geti séð hversu hratt efnaskipti í líkamanum brjóta áfengið niður og vinna á því.

Oft er það svo að bílstjóri getur ekki beðið eftir því að renni af honum og Breeze hefur svarið við því. Tækið getur nefnilega kallað með hjálp snjallsímatóls í leigubíl eða kunningja af tengslalista til að koma ökumanni heim í stað þess að freista þess að aka sjálfur. Dugi það ekki getur Breeze beint handhafa sínum á veitingahús í nágrenninu til að snæða á eða hótel til að sofa úr sér vímuna.

Samkvæmt upplýsingum frá bandarísku þjóðvegaöryggisstofnuninni (NHTSA) urðu 10.076 dauðsföll í umferðinni þar í landi árið 2013 vegna ölvunaraksturs. Var áfengisneysla orsök 31% dauðsfalla á vegum landsins það ár.

agas@mbl.is