Jólatrjánum fargað Borgarbúar verða sjálfir að losa sig við jólatrén.
Jólatrjánum fargað Borgarbúar verða sjálfir að losa sig við jólatrén. — Morgunblaðið/Heiðar
Reykjavíkurborg mun ekki hirða jólatré frá borgarbúum í ár eins og nokkur undanfarin ár, að því er fram kemur í tilkynningu á heimasíðu borgarinnar.

Reykjavíkurborg mun ekki hirða jólatré frá borgarbúum í ár eins og nokkur undanfarin ár, að því er fram kemur í tilkynningu á heimasíðu borgarinnar. Þar segir að jólatrén séu kjörin til endurvinnslu og eru borgarbúar hvattir til að skila þeim á endurvinnslustöðvar Sorpu þar sem tekið verður við jólatrjánum endurgjaldslaust.

Þá bendir Reykjavíkurborg á að kjörið sé að búta jólatrén niður og setja þau í safnhauga í einkagörðum til þess að búa til moltu. Síðast en ekki síst er einnig hægt að koma jólatrjánum á þrettándabrennur næstkomandi sunnudag.

„Sorphirða Reykjavíkur, Gámaþjónustan og Íslenska gámafélagið hirða ekki jólatré í ár. Undanfarin ár hafa íþróttafélög boðið borgarbúum að hirða jólatré að loknum hátíðum gegn gjaldi. Í ár munu ekki mörg íþróttafélög bjóða upp á þjónustuna en staðfest er að íþróttafélagið Valur mun safna jólatrjám auk þess sem félagið safnar dósum og flöskum á sama tíma og trén eru tekin,“ segir í tilkynningu.

Þjónusta í nágrannasveitarfélögum

Fram kemur á mbl.is að starfsmenn Þjónustumiðstöðvar Hafnarfjarðar og starfsmenn Kópavogsbæjar annast hirðingu jólatrjáa í bæjarfélögunum. Í Garðabæ sér Hjálparsveit skáta í Garðabæ um að hirða tré í öllum hverfum bæjarfélagsins.