Grasalæknir Anna Rósa er með framleiðslu og ráðgjöf.
Grasalæknir Anna Rósa er með framleiðslu og ráðgjöf. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir áramót, þegar fólk hefur dögum saman setið veislur og borðað margsinnis yfir sig, finna margir fyrir þreytu og eru bólgnir af uppsöfnuðum vökva í líkamanum eftir át á reyktu kjöti, salti og sykri.

Eftir áramót, þegar fólk hefur dögum saman setið veislur og borðað margsinnis yfir sig, finna margir fyrir þreytu og eru bólgnir af uppsöfnuðum vökva í líkamanum eftir át á reyktu kjöti, salti og sykri. Annar Rósa Róbertsdóttir grasalæknir lumar á ýmsum ráðum og hvetur fólk til að borða heitar, hollar súpur frekar en að drekka kalda djúsa þegar vetur ríkir á Íslandi.

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Ýmsar vatnslosandi jurtir koma að góðum notum á þessum árstíma þegar fólk hefur safnað bjúg eftir að hafa borðað mikið reykt kjöt og salt. En fólk áttar sig oft ekki á því að sykurinn getur líka haft áhrif á bjúgsöfnun. Það er full ástæða fyrir fólk að gefa þessu gaum, það er ekki bara hangikjötinu um að kenna heldur líka konfektinu og sætindunum. Sykur er hrikalega óhollur, það er nokkuð sem allir eru sammála um, bæði læknar og heilsugúrúar. Því er um að gera núna að skera niður sykurneysluna, helst niður í núll, en það geta nú fæstir. En það skiptir máli að draga verulega úr henni,“ segir Anna Rósa Róbertsdóttir grasalæknir þegar hún er spurð að því hvað fólk geti gert til að bæta heilsu og líðan eftir hátíðarofátið.

Te og tinktúrur saman

Anna Rósa hvetur fólk til að búa til sín eigin jurtate til að vinna gegn bjúgsöfnun. „Jurtir sem gott er að nota í vatnslosandi te eru til dæmis brenninetla og birki og það er fínt að bæta piparmintu út í til að gefa gott bragð. Brenninetluna og birkið er hægt að kaupa í vefverslun minni en líka í sérverslunum, en piparmintuna er auðvelt að nálgast hvar sem er. Ég er líka með tinktúrur sem innihalda vatnslosandi jurtir, tinktúran sem er sérstaklega vatnslosandi heitir Fíflablöð og birki, en í henni er blanda af mörgum áhrifaríkum jurtum. Best er að nota saman te og tinktúrur, ég mæli alltaf með því þegar ég er með fólk í ráðgjöf hjá mér.“

Sjálf notar Anna Rósa jurtir dags daglega allan ársins hring. „Ég bý mér oft til jurtate af því mér finnst það svo gott, geri það mér til ánægju en líka til að styrkja mig. Ég nota líka tinktúrurnar mínar og svo er ég með forvörn í kryddunum sem ég nota í matinn sem ég borða,“ segir Anna Rósa og bætir við að hún sé ekki hlynnt því að fólk fari á kalda djúskúra á þessum árstíma. „Það er hávetur og kalt, en þá finnst mér að líkaminn eigi frekar að fá mikið af heitum súpum, til dæmis grænmetissúpum og kjötsúpum. Nú í upphafi árs ætti fólk að elda mikið af súpum en nota brauð með í hófi. Ég ráðlegg fólki að gera stóran skammt af súpu í einu og frysta. Þá þarf ekki að láta tímaleysi stoppa sig í að fá kjarngóða súpu í kroppinn. Súpu sem hægt er að grípa úr frysti er líka tilvalið að taka með sem nesti í vinnuna. Það er ekkert mál að búa til góða súpu, til dæmis er hægt að nálgast súpuuppskriftir á nýja appinu mínu, sem heitir Krydd og uppskriftir. Þar er hellingur af góðum súpum sem ég hef langflestar prófað sjálf,“ segir Anna Rósa sem gerði sér lítið fyrir og bjó sjálf til þetta smáforrit sem fólk getur sótt ókeypis í snjallsímum á App Store og Play Store.

Finnst gaman að takast á við eitthvað nýtt

„Ég kunni ekkert að forrita og hélt að það væri rosalega flókið að búa til app. En ég gúglaði bara „how to create an app“ og þá sá ég að það eru til einfaldar uppsetningar, svo ég lét vaða og bjó þetta til sjálf. En auðvitað var þetta hrikalega mikil vinna, ég gat ekki leyft mér að setja kostnað í að fá annan til að búa til app sem ég hef engar tekjur af, þetta er bara hugsað sem fræðsla og skemmtun, ánægjuleg viðbót fyrir neytendur. Mér finnst svo gaman að takast á við eitthvað nýtt, þess vegna gerði ég þetta.“

Eins og nafnið gefur til kynna er á appinu að finna uppskriftir en líka fróðlegar upplýsingar um lækningarmátt kryddjurta. Appið kom út í haust og Anna Rósa er ánægð með hvað það hefur gengið vel. „Fjöldi fólks notar appið á hverjum degi og ég uppfæri það reglulega, bæti inn nýjum uppskriftum, eftir því hversu dugleg þau eru að henda í mig uppskriftum, kokkarnir sem eru með mér í þessu, Sigurveig Káradóttir, Sveinn Kjartansson og Helga Mogensen. Það eru yfir hundrað uppskriftir á appinu og þetta er á við stóra góða matreiðslubók sem hægt er að sækja í og leika sér með.“

Búið til ykkar eigið jurtate

Setjið tvær matskeiðar brenninetlu, eina matskeið birki og eina matskeið piparmintu í hitabrúsa með heitu vatni og drekkið yfir daginn. Einn bolli er ekki nóg, það þarf að drekka meira magn af teinu svo það hafi tilætluð áhrif.

Birki gegn gigtinni

Á heimasíðu Önnu Rósu, www.annarosa.is, kemur fram að grasalækningar séu elsta lækningaaðferð mannsins sem vitað er um. Á síðunni má finna ýmiskonar fróðleik um áhrifamátt íslenskra og erlendra lækningajurta.

Til dæmis kemur þar fram að birki (Betula pubescens) er talið mjög vatnslosandi og er gjarnan notað við nýrnasjúkdómum. Það er vel þekkt gegn gigtarsjúkdómum, sérstaklega liða-, sóríasis- og þvagsýrugigt. Birki er talið blóðhreinsandi og mikið notað við húðsjúkdómum svo sem exemi og sóríasis ásamt því að vera græðandi útvortis fyrir sár og húðútbrot.

Brenninetla (Urtica dioica) hefur verið vinsæl lækningajurt frá örófi alda en hún hefur ákaflega fjölbreytta verkun. Hún þykir hreinsandi og er mikið notuð innvortis við húðsjúkdómum en er talin sérstaklega góð gegn barnaexemi. Brenninetla þykir líka mjög góð gegn gigtarsjúkdómum, einkum þar sem nýrnastarfsemi er léleg og mikil bjúgmyndun, enda er hún vatnslosandi. Hún er talin góð gegn blóðleysi, ofnæmi, miklum tíðablæðingum og astma.