2007 Þá mættu þessi ungi álfakóngur og álfadrottning á brennu við Ægisíðu.
2007 Þá mættu þessi ungi álfakóngur og álfadrottning á brennu við Ægisíðu. — Morgunblaðið/Brynjar Gauti
Nú þegar jólum lýkur formlega verður víða um land fagnað með brennum, flugeldum og skemmtidagskrá. Á Akureyri verður Þrettándagleði Þórs haldin við Bogann og hefst kl. 17 þegar kór Glerárkirkju tekur á móti gestum með söng fyrir utan Bogann.

Nú þegar jólum lýkur formlega verður víða um land fagnað með brennum, flugeldum og skemmtidagskrá.

Á Akureyri verður Þrettándagleði Þórs haldin við Bogann og hefst kl. 17 þegar kór Glerárkirkju tekur á móti gestum með söng fyrir utan Bogann. Innandyra verður boðið upp á kaffi, kakó, vöfflur, gos og danssýningu. Kl. 18 hefst skemmtun utandyra og álfakóngur og álfadrottning fara fyrir skrúðgöngu þar sem verða 100 kyndlaberar í tilefni þess að íþróttafélagið Þór fagnar 100 ára afmæli.

Í höfuðstaðnum Reykjavík verður m.a. þrettándabrenna við Langatanga á Ægisíðu í Vesturbæ. Hist verður við KR-heimilið kl. 18 og þar verða sungin nokkur lög. Þaðan verður gengið að brennunni við Ægisíðu í fylgd ungmenna sem bera kyndla. Um kl. 18.30 verður kveikt í brennunni og um kl. 18.45 verður skotið upp flugeldum.

Í Hafnarfirði verður þrettándagleði á Ásvöllum sem hefst kl. 18. Kaffi, heitt kakó, blys og kyndlar til sölu. Vegleg flugeldasýning verður kl. 19.