Nú hillir undir að það sem allir stuðningsmenn Liverpool hafa kviðið um árabil sé að verða að veruleika. Fyrirliðinn, Steven George Gerrard, hefur tilkynnt að yfirstandandi tímabil sé hans síðasta í herbúðum félagsins.

Nú hillir undir að það sem allir stuðningsmenn Liverpool hafa kviðið um árabil sé að verða að veruleika. Fyrirliðinn, Steven George Gerrard, hefur tilkynnt að yfirstandandi tímabil sé hans síðasta í herbúðum félagsins. Í sumar heldur hann vestur um haf og klárar sparkferil sinn í hvítum og Herbalife-merktum búningi Los Angeles Galaxy. Fyrir flesta sem á annað borð vita hvernig fótbolti er í laginu er nánast óhugsandi að ímynda sér Gerrard í búningi annars félags en Liverpool en við því er lítið að segja úr þessu, þetta er vor verðandi veruleiki.

Eftirsjáin eftir Gerrard persónulega er út af fyrir sig gríðarleg en jafnvel verri eru heilabrotin um það hver á að koma í staðinn. Maður kemur nefnilega ekki alltaf í manns stað. Gerrard hefur oftar en tölu verður á komið gert útslagið, gert gæfumuninn, skorað á elleftu stundu, ráðið úrslitum, tæklað þegar mark blasti við, breytt gangi leiks og snúið taflinu við, úr tapaðri stöðu í sögulegan sigurleik. Hver á að leysa það af hendi frá og með næsta hausti? Það er hreint ekki gott að segja.

Liverpool hefur nefnilega verið borið á herðum þessa ódrepandi íþróttamanns, fyrirliðans með ljónshjartað, og það er hrollvekjandi til þess að hugsa hvernig rauða hernum úr Bítlaborginni hefði reitt af hefði kempunnar númer 8 ekki notið við þegar á bátinn gaf síðastliðinn áratug. Þá á kappinn ómælt lof og virðingu skilda fyrir að hafa haldið tryggð við uppeldisklúbbinn sinn (Gerrard hefur verið hjá Liverpool síðan hann hóf að æfa þar átta ára gamall) því ekki hefur vantað gylliboðin frá mörgum af stærstu félagsliðum Evrópu. Real Madrid reyndi ítrekað að fá hann til liðs við sig, sömuleiðis Bayern München og bæði stórliðin í Mílanóborg, AC Milan og Internazionale. Þá bauð Chelsea honum gull og græna skóga en allt kom fyrir ekki – Gerrard varð ekki haggað. Ekki skorti samt tilefnin til að hugsa sér til hreyfings, ekki síst haustið 2010 þegar hinn misvitri Roy Hodgson var ráðinn þjálfari Liverpool og leikmannahópurinn sökk á áður óþekkt plan meðalmennsku og almenns hæfileikaleysis. Spilamennskan var eftir því og undirritaður, sem stutt hefur félagið síðan Jimmy Carter var forseti Bandaríkjanna, sá hvorki fyrr né síðar slíka hörmung og þá sem þá var boðið upp á. Þeir eru ekki margir, heimsklassaleikmennirnir sem þverneita að færa sig um set fyrir peninga heldur kjósa að halda tryggð við sitt uppeldisfélag; mér detta helst í hug Paolo Maldini hjá Milan, Ryan Giggs hjá erkifjendunum í Manchester United og Francesco Totti hjá AS Roma. Goðsagnir fyrir bragðið, allir sem einn.

En allt fram streymir og senn er sólarlag. Nú þegar Gerrard hefur ekki lengur fætur 25 ára gamals manns og mínútunum fækkar sem hann spilar hvern leik hjá Liverpool er lag að ljúka glæstum ferli með nokkrum mánuðum í góða veðrinu í Los Angeles. Hafðu eilíflega þökk fyrir allt og allt, ó kapteinn minn kapteinn. jonagnar@mbl.is

Jón Agnar Ólason