Selim Bengriba
Selim Bengriba
Grenoble var til umfjöllunar á íþróttasíðum heimspressunnar í gær fyrir annað en skíðaíþróttir.

Grenoble var til umfjöllunar á íþróttasíðum heimspressunnar í gær fyrir annað en skíðaíþróttir. Knattspyrnulið Grenoble, sem leikur í fjórðu efstu deild karla í Frakklandi, kom öllum á óvart og sló út topplið efstu deildar, Marseille, í 64-liða úrslitum frönsku bikarkeppninnar á sunnudagskvöldið.

Jafnt var að loknum venjulegum leiktíma og framlengingu, 3:3, og því var gripið til vítaspyrnukeppni. Þar hafði Grenoble betur og Marseille er úr leik í bikarkeppninni. Fyrirliði Grenoble, Selim Bengriba, kom til bjargar á síðustu sekúndu framlengingarinnar og jafnaði þá leikinn en Marseille komst í 3:2.

Önnur frönsk stórlið Lyon, Mónakó, og Bordeaux komust í gegnum fyrstu hindrun keppninnar um helgina. kris@mbl.is